Ánægður með lífið

Ég hef verið í vandræðum undanfarna daga. Ekki nægilega margir klukkutímar í sólarhringnum til þess að ná öllu sem ég hef ætlað mér. Algengt vandamál. Ég er svo sem að verða vanur þessu. Aðeins of margir hlutir sem ég þarf að ganga frá. Aðeins of margir hlutir sem þurfa að gerast. En ekki nógu mikil tími. Raunar gengur mér alltaf betur og betur að þola álagið. Það gerir yoga.

Ég er einmitt á leiðinni núna í Workshop hjá Yogashala sem er stöðin sem ég fer í til að stunda yoga með öðrum. Er farinn að gera þetta svo mikið að ég pantaði mér mína eigin jóga mottu. Sem hefur tafist heldur í flutningum. Svo ég bíð ennþá. En á meðan reyni að mæta eins mikið og ég get. Stefnan er að fara í það minnsta þrisvar í viku í yoga. Það hefur gengið svona misjafnlega. Vinna, frídagar og leiðinda pest hafa verið að gera mér svolítið erfitt fyrir undanfarnar vikur. En ég hef svo líka reynt að bæta það upp hér heima.

Það er samt ennþá skrítið að gera þetta heima hjá sér. En mér skilst að það sé samt lykilinn að því að ná árangri í þessu. Sem ég finn gerast hjá mér. Smátt og smátt er ég að geta gert hluti sem ég hef ekki náð áður. Mér finnst líka hugmyndafræðin í kringum þetta skemmtileg. Það er lögð áhersla á að vera nægjusamur. Ánægður með það sem lífið réttir manni. Þess vegna er ég þessa dagana bara kátur. Finnst bara allt í lagi þó það sé kalt. Það er líka bara fínt.

Var samt alveg kalt í göngunni í gærkvöldi. Sem var heppilega stutt. Er annars að fíla nýju GusGus. Alveg kominn Moss á heilann. Vakna með það í hausnum á morgnana og sofna með það á kvöldin. Daníel Ágúst er alveg frábær söngvari og lagið er eitthvað svo glaðlegt og skemmtilegt. Er annað hægt en að vera kátur með lífið?

Ummæli

Vinsælar færslur