Frídagurinn

Þetta er svona einn af þessum frídögum sem eru kirfilega fastir á ákveðnum degi á dagatalinu. Þess vegna er svolítið skrítið að stundum lendir hann á helgi. Þá veit ég varla af honum. Svo í dag lenti hann á þriðjudegi. Ég skal alveg viðurkenna að það var freistandi að byggja aftur brú. Fá aðra 4 daga helgi. En svo ákvað ég að vera duglegur. Þurfti svolítið á því að halda.

Í gærkvöldi fór ég annars út að borða. Kom seint heim. Svolítið skrítið að fara svona í 101 á mánudegi. Var samt mikið líf og fjör. Miklu meira en ég átti von á. Átti nefnilega bara von á því að kíkja út í mat. En svo var fullt af fólki í bænum. Það var kannski sú staðreynd að það er búið að vera hlýtt á Íslandi. Þetta er svo yndislegur árstími. Það lifnar yfir mér, núna þegar ég er farinn að sjá grænan lit taka við af þessum vetrargula.

Næsta skref verður svo að hefja göngur. Ég hef stundum verið að vandræðast með göngufélaga. Á svo sem nokkra. En núna veit ég orðið af reynslu að það getur verið erfitt að hitta á tíma sem allir komast. Svo stundum hef ég ekki komið mér út úr húsi. Því það er skemmtilegra að hafa göngufélaga. Raunar hef ég alveg farið upp á mína. Það getur nefnilega verið ferlega skemmtilegt að rölta með sjálfum sér. Þá gengur maður þetta á sínum hraða. Stoppar þegar manni best hentar. En það er samt skemmtilegt að rölta með hóp. Ræða útsýnið. Lífið og tilveruna.

Svo ég var að byrja að vandræðast með þetta. Hef hóp sem fer á laugardagsmorgnum. En ég veit að hann hentar mér ekki alltaf. Ég fékk hins vegar ábendingu sem ég ætla að nýta mér. Útivist er nefnilega með göngur á hverju miðvikudagskvöldi sem öllum er frjálst að taka þátt í. Kostar ekkert annað en að koma sér á staðinn. Svo er Ferðafélagið með göngur á Esjuna. Svo núna ætla að ég að hvetja ykkur sem þetta lesið til þess að koma með í göngur í sumar. Þetta eru léttar en skemmtilegar göngur og bara að drífa sig með.

Svo fyrir ykkur hin. Sem viljið eitthvað meira. Þá er næsta Hornstrandarferð í undirbúningi. Ein hugmynd sem við fengum er að fara í Reykjafjörð og vera þar með bækistöðvar. Þetta verður seinni partinn í júlí/byrjun ágúst – dagsetningin er ekki alveg komin á hreint en verður komin á hreint um miðjan maí. Svo er jafnvel verið að spá í láta sigla með okkur í Hornbjargsvita og ganga þaðan í Reykjafjörð. Tekur víst 2 daga, en ætti jafnvel að geta orðið skemmtileg ganga. Því 2 daga ganga með birgðastöð í Reykjafirði ætti að þýða mun léttari farangur, en ef alltaf ætti að taka allt með. En þetta á eftir að ræða í hópnum. Kannski við bara tökum göngur út frá Reykjafirði. Þetta er alltaf jafn spennandi. En vegna þess að við förum þetta frá Ströndunum, þá langar mig að fara í aðra ferð inn á Ísafjörð. Kannski ég ætti að taka helgi á Hesteyri.

Ummæli

Vinsælar færslur