Þetta var sannarlega glæsileg hátíð sem ég sótti í gærkvöldi. Eins og venjulega þegar svona stendur til leið dagurinn eitthvað aðeins hraðar en ég bjóst við. Svo mér tókst að vera frekar seinn fyrir við að gera mig tilbúinn undir kvöldið. En allt hafðist þetta samt á endanum. Svo ég skilaði mér í kokteil á réttum tíma. Þar var hópurinn minn hristur saman með góðum veigum og lystaukum. Það er nefnilega alveg einn hluti af því að koma á svona stórhátíð að hafa aðeins heilsað upp á þá sem maður situr með til borðs. Raunar var það ekki nema hluti af mínu borði sem skilaði sér í kokteil. En það átti svo sem ekki eftir að koma að sök.
Eftir þennan samanhristing var svo haldið á sjálfa hátíðina. Sem var stór glæsileg. Raunar var þetta stærsta svona veisla sem ég hef nokkurn tíma komið í. Ótrúlegt að fylgjast með því hvernig allt gekk samt. Gríðarlegur fjöldi sem skilaði sér í húsið og stutt bið eftir því að komast í fatahengi. Auðvelt að finna borðið sem okkur var ætlað. Þegar síðan skemmtidagskrá og matur fóru í gang þá gekk allt óaðfinnanlega. Skemmti mér líka vel yfir dagskránni. Fannst maturinn góður. Vínið vel valið. Þjónustan góð. Heyrði ekki annað en fólk væri líka bara ánægt með það sem var á borð borið. Bæði í skemmtun og mat.
Í svona stórum hóp er næstum vonlaust að ætla sér að finna einhverja með því að treysta á lukkuna eina. En ég rakst nú samt á fullt af samstarfsfólki. Rakst meira að segja á frænku sem var við vinnu á hátíðinni. Tók ekki eftir öðru en það væri stuð á fólki og um það leiti sem ég yfirgaf hátíðina til að halda í afmælið þá var dansgólfið orðið fullt. Næsta víst að ég hefði ekkert farið ef ekki hefði verið afmælisboðið sem ég hafði verið boðaður í. Þar tók við hefðbundnari skemmtun í góðum hópi. Sem stóð aðeins of lengi. Eins og gengur. Svo ég reyndist sannspár um heilsufarið í dag.
Ummæli