Nýja árið líður hratt

Heilir 10 daga að verða liðnir af nýju ári og ég er núna fyrst að setja inn eitthvað ferskt. Veit eiginlega ekki hvað hefur komið fyrir tímann sem ég ætlaði að nota í þetta. Kannski bara verið eitthvað annað sem ég varð að gera frekar. En ég þakka kærlega fyrir viðbrögðin við síðasta innleggi. Feimnin bráði af fólki og það kom bara inn fullt af kveðjum. Sem gladdi mitt littla hjarta óskaplega mikið.

Það sem gladdi það ekki eins voru innkaup mín í Húsgagnahöllinni. Ekki svo að skilja að varan sem ég keypti hafi verið gölluð, né heldur hitt að mér hafi fundist eitthvað sérlega óþægilegt eða leiðinlegt að versla í Húsgagnahöllinni. Nei, eiginlega get ég ekki með góðri samvisku sagt að svo sé. Ég get ekki einu sinni verið fúll yfir því að hafa ekki fengið vöruna á útsöluverði sem ég keypti degi fyrir útsölu. Fyndið að vera svona ákveðinn í því að kaupa eitthvað að maður spyr ekki einu sinni um öll skiltin sem var verið að setja upp. En Húsgagnahöllin fékk plús í mína bók fyrir að bregðast vel við hringingu minni og endurgreiða mér mismuninn. Nei, ég er bara vel sáttur við allt sem viðkemur verslunarferð minni í Húsgagnahöllina, nema afhendinguna. Ég þurfti nefnilega að sitja heima hjá mér í rúmlega 5 klukktíma og bíða eftir því að fá vöruna afhenta. Fyrir þetta þurfti ég síðan að borga of hátt gjald (í það minnsta var þetta dýrasta ökuferð frá Reykjavík til Hafnarfjarðar sem ég man eftir) auk þess sem þeir hjá Húsgagnahöllinni hafa ekki ennþá svarað tölvupósti sem ég sendi þeim. Ef einhver þekkir einhvern sem vinnur hjá Húsgagnahöllinni sem les þetta, þá má skila til þeirra kveðju varðandi slæma afhendingarþjónustu og því að netfanginu á reikningunum þeirra er ekki svarið (kannski er einhver í fríi?). Því næst þegar ég kaupa í Húsgagnahöllinni (fínar vörur og ég er voða ánægður með það sem ég keypti) þá ætla ég að sækja það sjálfur. Finnst það alveg með ólíkindum að ég hafi verið látinn bíða heima hjá mér í þetta langan tíma og fá meira að segja samviskubit yfir því að hlaupa út til þess að kaupa mér pizzu í matinn. En ég er ennþá að spá í hvað maður getur verið vitlaus að fatta þetta ekki með útsölurnar.

Þetta ár hefur annars farið vel af stað. Er reyndar ennþá að berjast við þetta kvef sem ég náði mér í um miðjan desember. Skil ekki hvað þetta ætlar að hanga í manni, en er sagt að þetta sé í einhverjar vikur að fara endanlega úr manni. Fór líka í afmæli um helgina hjá frænku minni. Sem var að halda upp á stórafmæli og þá kveikti ég á því að það er nákvæmlega 10 ára aldursbil á milli okkar. Já, reyndar kannski nær því að vera 11 ára, því við erum eiginlega sitt hvoru megin á árinu. Hún er svona algjört áramóta barn, því hún á afmæli 1. janúar og það er eins og mig minni að hún hafi einhvern tíma sagt mér að þegar hún var minni, þá fannst henni að allir væru að fagna afmælinu sínu með því að skjóta upp flugeldum á gamlárskvöld. En þetta verður sem sagt ekki síðasta stórafmælið sem ég fer í á árinu.

En 2006 fer annars bara vel af stað. Fólkið í kringum mig er byrjað að hugsa um sumarfrí (svona eins og ég) og nú er sjá hvernig manni gengur að koma öllum hugmyndunum heim og saman við frítímann sem maður fær. Meðal hugmynda á borðinu er gönguferð á Hornströndum, gönguferði í Póllandi, ferð til Berlínar (sem verður líklega framkvæmd í kringum ITB í mars), fleiri heimsóknir í sumarbústaði, einhverjar styttri gönguferðir um landið, já og svo er maður líka að spá í því hvort það gæti ekki verið skemmtilegt að komast í svona hreinræktaða sólarlandaferð. Já, þetta er svona m.a. annars það sem ég er að spá í, svona í upphafi ársins. En hvað ætlar þú að gera í sumar?

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ég held reyndar að það sé sjaldnast, þar sem fyrirtæki gefa upp eitt svona "aðal-netfang", nokkur maður á hinum endanum sem sér um að lesa og svara þeim pósti sem þangað berst. Veit ekki hvar svona póstur lendir. Kannski er hann tengdur við of háa/upptekna stjórnendur sem hafa engan tíma til að skoða "almennan póst" svo að hann dagar þar bara uppi. En a.m.k er þetta mjög undarlegt, sérstaklega þegar það er nú komið árið 2006 og tölvupóstur ekki alveg nýjasta nýtt.
Simmi sagði…
Já, ég bókstaflega skil ekki alveg hvað er í gangi með það að svara ekki tölvupóstinum frá mér. Veit svo sem að það getur verið mikið að gera, frí, osfrv. en þeim myndi væntanlega aldrei detta í hug að svara ekki í símann!

Vinsælar færslur