Með skatta á heilanum

Í kvöld hlustaði ég með öðru eyranu á umræður um skattbyrði Íslendinga. Annars vegar voru fulltrúar núverandi landsstjórnar og hins vegar stjórnarandstæðingar og félagsfræði prófessor. Landstjórnin hefur haldið því fram um nokkurn tíma að hún hafi staðið fyrir miklum skattalækkunum. Um nokkurt skeið hefur síðan verið hópur manna (og kvenna) sem hefur haldið fram hinu gagnstæða. Fyrir okkur þessa sæmilega illa gefnu lúða sem sitjum og hlustum á þetta fólk er þessi umræða algjörlega til þess að drepa mann (og konur). Þær ganga í megin atriðum út á að annar aðilin segir að hinn sé að ljúga. Nei, segja hinir, þú ert bara að bulla. Svo fáum við útskýringar á því að skattar séu ekki það sama og útsvar. Sem er auðvitað algjört auka atriði í hugum okkar sem finnst eins og hið opinbera sé að kroppa þetta af laununum okkar, hvaða nafni sem þessi opinberu gjöld nefnast. Svo fáum við að heyra að kaupmáttur hafi aukist. Jú, það getur verið rétt, en það segir okkur ekkert um hvort skattbyrðin hafi líka aukist. Því ef ég var með 10 í laun og  borgaði 1 í skatta en er í dag með 100 í laun og borga 20 í skatta, þá er dagsljóst að ég hef meira milli handana, en líka alveg ljóst að hlutfallið sem ég borga í skatta er hærra (10% vs. 20%). En ljóta leyndarmálið í þessu öllu virðist vera að skattalækkunin hefur einfaldlega ekki dreifst jafnt á alla.

Það verður að segjast alveg eins og er að fyrir okkur flest þá hljómar þessi umræða mjög undarlega. En ég er samt sem áður þeirrar skoðunar (og hef verið það nokkuð lengi) að það sé lítið vit í því að þeir sem lægri tekjur hafi, borgi hlutfallslega hærri skatta. Finnst raunar bara alveg sjálfsagt og eðlilegt að ég borgi minn hlut í þessum sameiginlegu gæðum sem við höfum komið okkur upp. Vil ekki heyra á það minnst að grunnmenntun og ákveðin grunnheilbrigðisþjónusta sé nokkuð annað en frí. Tel að þau gæði skipti samfélagið einfaldlega svo miklu máli. Tel líka að hér sé rekin einhver alvitlausasta heilbrigðisstefna sem hægt er að hugsa sér. Sem fellst annars vegar í því að verðlagi á því sem er holt er haldið uppi og hins vegar að aðgangseyrir að heilbrigðisþjónustu sé svo hár að þeir sem hafa litlar tekjur tefja það að leita sér hjálpar. Afleiðing af þessu er síðan að ásókn í flókna og dýra læknisþjónustu eykst. Eða þannig kemur mér þetta í það minnsta fyrir sjónir.

Ummæli

Vinsælar færslur