Vetrarríki

Það er kominn föstudagur. Ritstjórar DV eru hættir (eða kannski voru látnir hætta) og þó mér hafi fundist þeir halda illa á málum í byrjun, þá þykir mér þessi afsögn þeirra gera þá að meiri mönnum en t.d. þá ráðherra sem sitja sem fastast þrátt fyrir að hafa verið dæmdir fyrir afglöp í starfi af Hæstarétti.

Annars fór þessi dagur illa af stað hjá mér – dagsetningin kannski að segja til sín – því ég byrjaði á því að skilja alla lykla eftir inn í íbúðinni minni og skella á eftir mér hurðinni. Tók mig klukkutíma tæplega að komast inn í húsið, því það tók smá tíma í morgunn að fá varalykilinn sendan í leigubíl. Mokaði bara tröppurnar við húsið mitt í rólegheitum á meðan ég beið, því hafi eitthvað skort á snjóinn fyrir jólin, þá er alveg verið að bæta okkur það upp í dag. Það tók svo sem ekkert mikið betra við þegar ég komst loksins út í bíl til þess að skafa (og maður varð vel hvítur bara við að komast inn í bílinn) því mér tókst að brjóta sköfuna mína. Keyrði varlega í vinnuna í kjölfarið.

En mikið ofboðslega var þetta fallegur vetrardagur. Á leiðinni í vinnuna blasti við mér fullt tungl vaðandi í skýjum. Borgin var snjóhvít og þegar byrjaði að lýsa af degi þá fékk maður alla ljósbláu, bleiku, fjólubláu vetrarlitina og svo á endanum braust sólin yfir Reykjanesið og gaf manni smá alvöru birtu. Þetta gladdi mitt hjarta, enda finnst mér eins og ég hafi ekki séð sólina í alvöru síðan einhvern tíma fyrir jól. Það hefur bara verið rigning og leiðindi síðan þá. Enda dagarnir stuttir.

En það er föstudagur í dag og þó það sé óhappadagurinn í dag – ég skora á ykkur að reyna að segja upphátt læknisfræðilega heitið á föstudagsins þrettánda fælni - paraskavedekatriaphobia, paraskevidekatriaphobia eða friggatriskaidekaphobia – þá ætla ég að reyna að halda í hefðina með föstudagsdrykkjar tengilinn. Að þessu sinni eru það þjóðadrykkir Austur Evrópu sem eru til umfjöllunar og ég hef orðið svo frægur að smakka bæði þann frá Ungverjalandi og Tékklandi.

Svo bara verðið þið að kíkja á þetta yndislega myndband – svo súper einfalt en svínvirkar.

Ummæli

Vinsælar færslur