Málið fýkur burt og ég hugsa um Abba

Íslenskan er á undanhaldi. Ég veit ekki alveg undan hverju, eða hvert hún er að fara. En hún er sem sagt á undanhaldi. Samkvæmt fréttum er undanhaldið óskipulagt og ef ekki verður neitt að gert þá mun hún verða jörðuð eftir 100 ár. Eða svo er mér sagt. Kannski er ég of vitlaus til þess að skilja þessa umræðu. En ég skil hana bara hreint ekki. Svo ég ætla miklu frekar að tjá mig um Abba og Madonnu. Það er miklu skemmtilegra en velta sér upp úr því hvort íslendingar verði allir orðnir mállausir eftir eina öld.

Ég lenti nefnilega í því um helgina að heyra lag með Madonnu af nýjustu breiðskífu (sko ég er að reyna að halda í gömlu íslensku orðin svo við verðum ekki mállaus) hennar. Lagið Hung Up sem er byggt á gömlu Abba stefi festist bókstaflega í hausnum á mér. Það var svo sem ekki það versta í málinu. Því þar sem við sátum, já ég var sem sagt ekki einn á ferð, þá gátum við ekki fyrir okkar litla líf áttað okkur á því hvaðan Madonna hefði tekið Abba stefið. Sem þýddi auðvitað að ég losnaði ekki við stefið úr hausnum.  

Það er raunar furðulegt hvað Abba ætlar að halda sér vel. Betur heldur en margt af því sem taldist til mun merkilegri tónlistarafreka áttunda áratugar síðustu aldar. Í það minnsta er haldið úti heilum söngleik sem byggist á afurðum Abba söngflokksins. Eins og Abba var ævinlega kynnt þegar við Íslendingar bjuggum við eina útvarpsstöð. Kannski það sé einmitt þessi söknuður eftir söngflokkum, nýlenduvöruverslunum, snáðum, tátum og peningalyktinni sem valdi því að sjónvarpsfréttirnar mínar hafa verið fullar af fréttum um boðað dauðsfall íslenskunar. En það var þetta með Abba sem ég var að skrifa um.

Þessi samhljómur popdrottningarinar og sænska ofurpopsins festist nefnilega alveg í hausnum á mér um helgina. Mér fannst það en eitt merkið um gæði þess sem Madonna hefur gert um sína daga. Að mér tækist ekki að átta mig á því hvaðan Abba stefið væri komið, því það féll svo fullkomlega að lagi Madonnu. Hún gerði það sem sagt að sínu, eins og sagt hefur verið um söngfuglana í íslensku stjörnuleitinni. Það tók mig sólarhring að átta mig loksins á því um hvaða Abba lag var að ræða – skildi það taka þig lengri tíma?

Smá viðbót – þetta er nýja vekjaraklukkan sem ég bara verð að fá mér – Axbo er undratæki sem verður í sumargjafapakkanum mínum. Þessi vekjaraklukka er víst búin þeim frábæru eiginleikum að hún býður eftir réttu augnabliki til þess að vekja mann. Ekki í miðjum draumi eins og hefðbundar vekjaraklukkur, heldur er hún búin skynjara sem veit hvenær mann er að dreyma og býður þar til því lýkur til þess að vekja mann. Trú mín á tæknina er endurvakin.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
gefur hún manni líka afsökun...svona ef maður mætir of seint í vinnuna??

Vinsælar færslur