Að minnast

Á föstudaginn tók ég eftir því að fólk var að minnast stór atburða, bæði hér á Íslandi og úti í hinum stóra heimi. Það sem mér fannst samt merkilegt var að þessi atburðir voru ekki þeir sömu. Á enskumælandi fréttastöðinni sem ég hlusta heilmikið á, þá var föstudagurinn tileinkaður Helförinni. En hér á Íslandi minntumst við fæðingardags Mozart, sem fæddist fyrir einum 250 árum. Ég rakst reyndar á pistil í Fréttablaðinu um Helförina, en í öðrum fjölmiðlum var lítið á þetta minnst. Eða í það minnsta ekki svo ég tæki eftir því. Ég veit svo sem að Helförin snerti okkur Íslendinga ekki mikið. Þó hefur komið í ljós að við tókum gyðingum á flótti ekki opnum örmum eftir valdatöku Nazista í Þýskalandi. Það væri því kannski freistandi að álykta sem svo að við hefðum verið sérlega andsnúin gyðingum og það skýrði þetta áhugaleysi okkar við að minnast þessara atburða. En með þeirri röksemdafærslu væri ég svo sem að falla í þá algengu gryfju að túlka sögulega atburði í ljósi nútíma viðhorfa. Við takmörkuðum nefnilega innflutning útlendinga almennt á þessum árum (eftir því sem ég best veit).

Sumum finnst að í dag höfum við kannski opnað landamæri okkar um of. Hingað hafi flutt of mikið af útlendingum. Þetta skapi ákveðnar hættur sem aðrar þjóðir í Evrópu hafi kynnst mun betur en við. Hef ég heyrt fólk benda á óeirðir í París, vandamál í Skandinavíu og ástandið í Bretlandi. Mér finnst þetta umhugsunarefni. Því mér finnst það raunar afar gleðilegt að útlendingar hafi áhuga á því að flytjast hingað. Finnst það skemmtilegt að heyra fólk tala pólsku þegar ég skrep í Fjarðarkaup eða Bónus. Finnst það frábært að hingað hafi borist matarmenning frá fjarlægum slóðum og að það þykir ekki lengur neitt tiltöku mál að hitta fólk úti á götu sem ekki er greinilega af norskum eða írskum ættum. Held að almennt og yfirleit sé þetta duglegt og vel gefið fólk sem geri okkur ríkari af því að það hefur ákveðið að búa sér heimili hér. En við getum hins vegar ekki látið eins og það hafi ekki áhrif að það flytur hingað. Við þurfum að vinna í því að gera þeim kleyft að líða vel hérna. Við þurfum að vinna í því að berjast gegn fordómum. Við þurfum að vinna í því að það myndist ekki einangraðir hópar innflytjenda sem neita að tileinka sér þau gildi sem við viljum kenna okkur við. Því það eru einfaldlega þessi gildi sem gera okkur að spennandi valkosti fyrir þetta fólk.Ég held nefnilega að það sé engin tilviljun að mér líður yfirleit vel með það að segja útlendingum að ég sé Íslendingur.

En ég ætlaði mér svo sem ekkert að vera alltof alvarlegur í þessum pistli. Því þótt mér finnist mikilvægt að minnast fortíðarinnar, þá fannst mér það nefnilega líka skemmtilegt að við skyldum telja það svona mikilvægt að minnast fæðingardags Mozart. Því eitt af því sem gleður mig meira en flest annað er góð tónlist og það er óumdeilt að Mozart var snillingur á því sviði. Ég á mér ennþá afskaplega skemmtilega bernsku minningu um Töfraflautuna sem sýnd var í sjónvarpinu (já, þá var bara ein sjónvarpsstöð) og þó ég hafi ekki haft vit á öllu því sem þar fór fram, þá man ég að tónlistin náði til mín. Svo ég hlakka til fleiri atburða tengdum Mozart á árinu.

Ummæli

Vinsælar færslur