Í góðu stuði á mánudegi

Mánudagar eru ekki uppáhaldsdagar vikunnar fyrir flesta. Ekki fyrir mig heldur. Þeir eru ennþá erfiðari um hávetur, þegar maður vaknar í svarta myrkri, staulast framúr og er síðan hraðfrystur við það að reyna átta sig á því hvað af hvítu sköflunum fyrir framan húsið er bílinn manns. En ég sagði einhvern tíma (eða hugsaði það í það minnsta) að þegar ég væri farinn að skrifa um veður, þá hefði ég ekkert um að skrifa og ætti að hætta þessu. Enda ætla ég mér alls ekki að skrifa um veður. Aldrei þessu vant þá ætla ég mér að hrósa, tala um vinnuna mína og vera jákvæður, því það veitir ekki af í skammdeginu.

Hrósið fá Coudal Partners sem er hönnunarstofa í Chicago sem heldur úti Coudal vefnum sem ég vísa í gegnum tenglana. Ég veit ekki hvort það er sú staðreynd að þessi vefur er sérlega vel hannaður, efnið yfirleit mjög áhugavert, spennandi og skemmtilegt, en hafi í tíma á annað borð til þess að heimsækja vefi, þá er þessi yfirleit meðal þeirra 10 sem ég heimsæki á hverjum einasta degi. Efist einhver um tilvist skapandi hugsunar í Bandaríkjunum (eða bara hugsunar yfirleit), þá má þarna finna á góð dæmi um slíkt á hverjum einasta degi. Eins og ég sjálfur (eða í það minnsta eins og ég tel mér sjálfum trú um) þá eru aðstandendur vefsins alþjóðaborgarar. Þarna hef ég fundið tilvísanir í rússneska hönnun og kvikmyndir, kínverska áróðurshönnun, já og meira að segja vísun í verkefni sem íslenskir hönnuðir og listamenn hafa verið með í gangi. Þarna hef ég sem sagt getað gengið að vísunum í afar fróa hönnuði og listamenn sem hafa veit mér innblástur í þeirri vinnu sem ég hef verið á kafi í. En það sem gerir þennan vef svona skemmtilegan er að hann er ekki bara á alvarlegum nótum. Því þarna eru líka vísanir í allra handa hluti sem alvarleg umfjöllun um hönnun myndi tæplega vilja flokka sem slíka. Misjafnlega merkileg tónlistarmyndbönd í bland við umfjöllun um neðanjarðarbirgi í Evrópu eru meðal þess sem ég hef rekist á.

En þetta eru ekki bara vísanir í hluti. Þarna er skapandi fólk á ferðinni sem m.a. framleiddi stuttmyndina Copy Goes Here og fjármagnaði hana með fjárframlögum af Netinu. Þau hafa líka staðið fyrir samkeppnum þar sem gamlar fræðslumyndir (sem ekki eru undir höfundarrétti) eru endurunnar með skemmtilegum árangri. Svo gefa þeir líka út fréttabréf, sem kemur út mjög óreglulega. En varð samt kveikjan að þessum pistli mínum því í því síðasta voru eftirfarandi línur sem ég var algjörlega sammála.

“What's good for design is good for life.

Maybe it should have been obvious to me right along. Maybe I should have figured out years ago that worrying and overthinking and trying to keep up with other guys is all a distraction from the simple essential stuff. Maybe you all know this already, but nobody ever told me. Or at least I never listened if you did.

It's so easy to get caught up in the day-to-day and take an "if I can only do this one thing then I'll be happy" attitude. That of course never works. I recently read a draft of a new book that led me to the following conclusion.

The reason we are so often unhappy is because we don't set our goals for the people we will be when we reach them. We set our goals for the people we are when we set them.”

Í þessu finnst mér vera meira en lítið sannleikskorn. Því í mínu starfi þá þarf ég oft og iðulega að reyna að draga fram þær þarfir sem fólk kemur til með að hafa. Í lang flestum tilfellum reynist það fólki ógjörningur að setja sig í þær stellingar að sjá fyrir sér heiminn eins og hann verður, segjum eftir 6 mánuði. Af því að starfið er líka sambland af hönnun, sálfræði og viðskiptafræði þá bara hreinlega verð ég að taka undir að góð hönnun er góð fyrir lífið. Því vond hönnun gerir okkur lífið erfiðara. Nákvæmlega þess vegna er svo yndislegt að upplifa eitthvað sem er vel hannað. Eitthvað sem virkar án þess að við þurfum að hafa of mikið fyrir því. Ég er t.d. ennþá að læra á nýjasta tækið mitt. Skil ekki hvað helmingurinn af hnöppunum á fjarstýringunni minni gera og á eflaust aldrei eftir að nota þá. Því ef það er eitthvað sem ég hef gert mér betri og betri grein fyrir, þá er það að við ofhlöðum hlutina. Ekki viljandi, heldur til þess að svara einhverri kröfu sem kemur fram. Þá gleymist að nota 80/20 regluna og maður fær fjarstýringu með of mörgum hnöppum og jafnvel möguleikum á því að einn hnappur geti gegnt fleiri ein einu hlutverki (svona eins og Fn hnapparnir á IBM ferðavélinni sem ég nota). Já, það er bara skemmtilegt að geta verið svolítið jákvæður einu sinni og bent á eitthvað gott og skemmtilegt. Ég mæli eindregið með föstum heimsóknum á vef Coudal Partners til þess að lífga upp á skammdegið.

Á meðan ég var að setja saman þessa færslu var athygli mín vakin á hneyksli sem er að koma upp í kringum bókaklúbb Oprah. Sem áskrifandi að Stöð 2 hef ég stundum horft í einhverjar mínútur á þáttinn hennar og sá einmitt þáttinn sem var upphafið að hneykslinu. Man ekki eftir að hafa séð um þetta rætt en finnst umfjöllun The Smoking Gun (A Million Little Lies) um málið athyglisverð og kannski ekki síður að lesa grein (Why Fooling Your Audience is Never OK) um málið í AdAge. Þú þarft að skrá þig, en það kostar ekkert og AdAge er skyldulesning fyrir fólk sem kemur nálægt auglýsinga eða markaðsmálum.

Ummæli

Vinsælar færslur