Ferðalag

Einu sinni enn er maður lagstur í ferðalög. Sem er svo sem ekkert sérlega merkilegt. En það var fullt í Keflavík þegar ég skráði mig í flugið og starfsfólk við hvert afgreiðsluborð. Sumarvertíðin líklega byrjuð í ferðalögum. Greinilega gott að gefa sér nógan tíma, því það var allt fullt af fólki, þrátt fyrir stækkunina á andyrinu. Ég er nú ekki sá morgunglaðasti og mér finnst satt best að segja ekkert gaman að vakna kl 5 til þess að komast í flug. En það er auðvitað gert til þess að koma okkur um hádegisbil til borga í Evrópu.

Sem gagnast mér lítið, því í dag er ég að halda áfram lengra suður. Ferðinni er heitið til suður Frakklands og þess vegna sit ég núna í London og bíð eftir að komast í framhaldsflugið mitt. Það er alveg hægt að hugsa sér verri staði til þess að bíða en London. Hér er til dæmis hægt að fá sér ágætan hádegismat. Var ekki alveg viss um hvað mig langaði í og þrátt fyrir að sjávarréttabarinn væri freistandi, þá endaði ég á Pret A Porter sem er beint á móti. Fékk mér sushi og ávexti og held að það hafi verið með því hollasta sem ég gat fundið mér hér.

Hér í London er líka WiFi punktur. Sem greinilega er notaður, því í kringum mig situr fólk með tölvur á hnjánum. En þessi þjónusta er ekki gefins. Ekki svo sem frekar en annað sem selt er á flugvöllum. Það er nefnilega ekki eins og maður geti leitað eitthvað annað til þess að komast í netsamband. Svo ég bara sleppti því. Ákvað samt að skrifa þessar línur, svona sem upphafið að littlu ferðasögunni minni.

En annars eru þessar stundir á flugstöðum frekar dauður tími. Maður röltir í búðir, skrifar kannski smá (eins og þetta) en annars er lítið við að vera. Góð bók eða áhugaverður ferðafélagi bjargar þessu, en í þetta skipti er ég einn á ferð. En svo getur maður svo sem líka notað þennan tíma til þessa fylgjast með öðru fólki. Eins og sænsku stelpunum sem sitja við hliðina á mér og eru eiginlega í einhverjum skemmtilegustu bleiku göllum sem ég hef séð. Eða hópum fólks frá Asíu þar sem fararstjórinn er kannski sá eini sem talar ensku. Í það minnsta lítur það þannig út.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Bon voyage Simmi, giv'em hell!

Láttu þá hafa það út af Makka málum. I´m counting on you.

= Y =

Vinsælar færslur