Engin fortíðarþrá hér

Það hefur verið nóg að gera hjá mér undan farið og í ofan á lag, þá hef ég verið að berjast við kvef. Vont kvef sem hefur verið að halda mér svona næstum því veikum, ekki alveg nógu veikum til þess að leggjast en ekki alveg verið 100% undanfarna daga. Hef heldur ekki haft tíma til þess að leggjast og þess vegna haldið mér gangandi á viljastyrknum. Þess vegna er ég líka ósköp feginn að vinnan mín er nógu skemmtileg til þess að mig langar flesta daga meira til þess að mæta í vinnuna en hanga heima.

Eitt af því sem við gerum saman í vinnunni er að setjast niður á föstudagsmorgnum og fá okkur föstudagsmorgunkaffi. Sem greinilega margir fleiri vinnustaðir gera líka, því það er alltaf nóg að gera í þeim bakaríum sem ég hef heimsótt, svona þegar komið er að mér að bjóða. Síðasta föstudag barst í tal hvernig siðum hefði verið háttað hér á árum áður. Eitt af því sem á var minnst, var hvers vegna íslenskur ullariðnaður hefði lagst af.

Það segir líklega sitt að ég er einn af þeim sem man þá tíð að okkur var sagt að íslensk ull væri besta ull í heimi. Ekki væri til betra hráefni til fatagerðar og vart þyrfti annað en sýna útlendingum ullina okkar til þess að þeir vildu kaupa hana. En eitthvað var þetta málum blandið, því ég man að mér þótt fátt verra en að vera í íslenskri ull. Sem ég var greinilega ekki einn um, því á þessum föstudagsmorgni kom fram að fleiri en ég upplifðu það sem hrein óþægindi að þurfa að klæðast íslensku ullinni. Hún var einfaldlega svo gróf og stíf að mig klæjaði ævinlega út í eitt undan henni.

En þennan morgunn kom fram að til hefði verið íslenskur fatahönnuður sem hefði tekið miklu ástfóstri við ullina. Hefði fundið hjá sér þessa innri þörf til þess að markaðssetja þessa afurð sem var jú okkar helsta útflutningsafurð áður en Evrópubúar uppgötvuðu baðmull. Hönnuðurinn lagði mikið á sig til þess að setja saman fallega línu og kallaði síðan í kjölfarið bændur á sinn fund til þess að ræða um verðið á afurðinni. En það var víst sá fundur sem hins vegar drap hugmyndina. Því þegar bændur mættu á fundinn þá var ekki einn einasti þeirra í ull. Þess í stað voru þeir allir í flís.

Ástæða þess að við Íslendingar vorum að berjast við að selja sjálfum okkur og öðrum þá hugmynd að ullin okkar væri frábær, var auðvitað sú staðreynd að fyrir einhverjum árhundruðum, þá var hún virkilega eftirsótt. En markaðurinn breytist. Nýtt efni kom til sögunar. Sem smátt og smátt setti ullariðnaðinn hér heima og víðsvegar í Evrópu í vanda. Ég verð að viðurkenna að mér fellur þessi þróun ákaflega vel. Hún hefur þýtt að ég þarf ekki að þola það helvíti að klæja heilu og hálfu dagana undan ull. Sem útivistarmanni hefur mér fundist þessi þróun einkar ánægjuleg. Enda set ég ekkert nema gerviefni næst mér. Kem ekki nálægt neinu sem heitir ull. Nema auðvitað gömlu góðu lopapeysunni sem mamma gaf mér fyrir nokkrum árum.

Ummæli

Vinsælar færslur