Ég er leiður

Ég er ósköp leiður í dag. Hef eiginlega góða ástæðu til, en hef ekki alveg áhuga á því að bera hana á torg. Þeir sem þekkja mig geta spurt. Eða vita það kannski. Ykkur hinum kemur það ekkert við. En þetta eru ekki mínir dagar. Veit ekki hvort það muni hafa slæm eða góð áhrif á getu mína til þess að skrifa hér, en sjáum til.

Gekk á Esjuna í síðustu viku í fyrsta skipti í sumar. Það var æðislegt. Fórum í fylgd með gönguhópnum sem gekk með okkur Laugaveginn í fyrra. Sem var mjög þægilegt. Gott fólk og gott að ganga með þeim. Það er eiginlega bara ferlega fínt að ganga á Íslandi. Ekki of heit og ekki of kalt. Engin hættuleg dýr og hægt að drekka vatnið sem rennur niður hlíðina án þess að hafa áhyggjur. Sem er kostur, því þá þarf maður ekki að bera eins mikið vatn. Held bara að þetta göngusumar leggist vel í mig, þá ég sé ekkert sérlega hress akkúrat þessa dagana.

Fann vef sem á vel við skapið á mér þessa dagana. Þetta er vefur fullur af næturmyndum frá týndri Ameríku. Flottar myndir og mér líður svolítið eins og mynd efninu.

Ummæli

Vinsælar færslur