Viðburðarrík helgi

Fyrir margra hluta sakir hefur þetta verið óvenju viðburðarrík helgi hjá mér. Svona í þeim skilningi að um þessa helgi hef ég persónulega afrekað eitt og annað sem ég hafði ekki gert áður. En líka vegna þess að um þessa helgi áttu sér stað þó nokkrir viðburðir, tja eða í það minnsta atburðir (svona svo maður sé ekkert að gera of mikið út þessu) sem í mínum augum geta talist nokkuð merkilegir.

Byrjum bara á því augljósa sem gerðist um helgina, því venju samkvæmt safnaðist þjóðin saman við sjónvarpstækin á laugardagskvöldið og horfði á söngvakeppnina, já einmitt Eurovision. Sem er auðvitað ekkert annað en vondu laga keppni. Í það minnsta get ég ekki trúað því að nokkur með hálft tóneyra geti haft gaman af því að fylgjast með því sem fram fer í þessari keppni. Vond lög, lélegir flytjendur og hreint skelfilega hallærislegur flutningur. Enda er það alls ekki plottið að fylgjast með Eurovision til þess að uppgötva hæfileika Evrópuþjóða á tónlistarsviðinni. Nei, hreint ekki. Aðal ástæða þess að maður fylgist með Eurovision er til þess að hafa tækifæri til þess að hitta vini og vandamenn og skemmta sér ærlegi yfir ægilega vondri sönglagakeppni.

Ég er hreint ekki alveg viss um að allir Íslendingar horfi svona á þetta. Held reyndar að það sama eigi svo sem við um fjölmarga áhorfendur þessarar keppni um alla Evrópu. Fólk er sem sagt ekki búið að ná brandaranum ennþá. En það hlýtur að koma. Því að horfa á Eurovison með þessum augum er hin besta skemmtun. Skelfing eins og framlag Albana og víðáttu hallærisleg atriði sumra þjóðana verða einfaldlega hluti af góðu skemmtiefni. Ég er meira að segja ekki frá því að bæði Gísli Marteinn og þulur BBC séu báðir búnir að ná þessu. En svo er auðvitað plottið að velja sér sinn keppenda og fylgjast rosa spenntur með. Skemmtilegt til þess að vita að í ár höfðum við sama húmor og Danir og kannski ekki svo langt á milli frændþjóða þegar kemur að tónlistarsmekk. En hin sorglega staðreynd var svo að ekki ein sála sem ég hitti í bænum gat raulað sigurlagið.

En þetta var svo sem ekki eina kosningin sem ég fylgdist með um helgina, því landsfundur Samfylkarinnar var haldin um helgina. Ég gerði mér nú reyndar ekki ferð í Egilshöll, en fylgdist með úr fjarska og þetta hefur eflaust verið glæsilegur landsfundur. Þessi í stað fylgdist ég með úr fjarlægð og naut þess að fá send SMS með niðurstöðum helstu kosninga. Fylgdist svo með því sem fram fór í gegnum vefinn. Sem ætti svo sem ekki að koma neinum sérstaklega á óvart. Sem kom sér sérstaklega vel, því eiginlega var ég nefnilega upptekinn við að sinna eigin hugðarefnum.

Því á laugardaginn afrekaði ég það að ganga upp á Móskarðshnjúka (807 metrar) sem er hnúkaröð sem tengir saman Esju og Skálafell. Aftur fórum við með 7TS sem verður að segjast að er ákaflega þægilegt og notalegt að ganga með. Upprunalega hafði staðið til að ganga á Kistufell, en þegar við hittumst á laugardagsmorguninn, þá kom í ljós að illfært var upp á Kistufell og því ákveðið að fara frekar á Móskarðshnjúka. Þrátt fyrir að styttra sé í júní en apríl, þá verður að segjast að það var ansi napurt. Bæði var hitastigið lágt og svo blés rösklega að norðan og það stundum svo rösklega að maður var hálfpartinn með lífið í lúkunum. Ég var a.m.k. dauðfeginn að vera með stafi til að styðjast við síðasta spotann upp á tindinn. Því það var bæði jökulkalt og hvínandi rok. En allt hafðist þetta og líklega verið lítil hætta á ferðum. En ansi var maður veðurbarinn á eftir. En það rak mann þá til þess að fjárfesta bæði í sólarvörn og rakakremi. En mikið rosalega er maður eitthvað ánægður með að hafa haft þetta, svona þegar niður er komið. Myndir úr göngunni eru komnar inn á myndasafnið og þó ég hafi nú reyndar ætlað að bíða með að setja Eurovision myndirnar inn - þá gekk það nú samt og svipmyndir frá Eurovision gleði okkar eru komnar í myndasafnið.

Ummæli