Tal Og Vodafone

Einu sinni var ég ánægður viðskiptavinur hjá Tal. Tal var með frábært vörumerki, var með skemmtilega geggjaða auglýsingaherferð (já, já, greinilega stolin frá Orange, en góð samt) og ég var ánægður viðskiptavinur sem var hægt og sígandi að auka viðskipti mín við Tal. Hafði til dæmis fært útlandasímtölin yfir á Tal hefði án efa fært mig yfir á Tal með alla mína símaþjónustu. M.ö.o. ég var tryggur viðskiptavinur Tal.

Síðan sameinaðist Íslandsími og Tal og miklir snillingar tóku við. Svona snillingar eru ekki á hverju strái, því þeir ákváðu að Íslandsími og Tal væru vonlaus vörumerki og það yrði að finna eitthvað betra. Sem hefði svo sem geta reynst rétt ef ekki hefði komið í ljós hvaða vörumerki þessir snillingar áttu eftir að velja. En fyrst ætla ég vitna í bókina Positioning: The Battle for Your Mind: "The name is the hook that hangs the brand on the product ladder in the prospect's mind. In the positioning era, the single most important marketing decision you can make is what to name the product."

M.ö.o. val á nafni á vöru og þjónustu er það mikilvægasta sem fyrirtæki tekur sér fyrir hendur. Sem skýrir afhverju ég gat ekki treyst mönnum sem útskýrðu nafnið á fyrirtækinu sínu með þeim orðum að þegar búið var að stroka út Íslandssími og Tal þá stóð eftir og. Ekki nóg með að þeir dræpu þessi fínu vörumerki og köstuðu þar með á glæ tugum milljóna sem varið hafði verið í að skapa þessum vörumerkjum sérstöðu, heldur ákváðu þeir að OG væri góð byrjun á nafni.

Þeir sem hafa lesið hingað, hafa væntanlega áttað sig á því að ég tel það góðar fréttir fyrir hluthafa Og fjarskipta hf. að þar hafi nú komið að nýir eigendur og nýir stjórnarmenn. Ég vona að þeir beri gæfu til þess að losa sig við þetta OG eins hratt og mögulegt er og held auðvitað í þá von (þó veik sé) að þeir losi sig við þennan Vodafone samning. Þangað til treysti ég Símanum áfram fyrir mínum fjarskiptum.

Ummæli

Vinsælar færslur