Sérhagsmunir? Held nú síður!

Ég ætla ekkert að vera í fýlu yfir því að Jón Steinar sé orðinn hæstaréttardómari. Til þess hef ég of oft verið sammála Jóni og tel að hann verði öflugur stuðningsmaður einstaklingsfrelsis í hæstarétti. Enda ekki hægt að efast um verðleika hans til þess að fá sæti í réttinum. Á hin bóginn tel ég slæmt hvernig hópur lögmanna gekk fram í málinu. Undirskriftarsöfnunin var fyrir neðan allar hellur og nokkuð ljóst að þeir sem vilja góða lögfræðinga ættu að hafa vit á því að leita annað en til þeirra sem settu nöfn sín við þetta uppátæki.

Ég gerði sjálfum mér þann greiða að sleppa því að horfa á kappræður Bandarísku forsetaframbjóðendana í gær. Sýnist reyndar að þetta hafi verið alvöru kappræður ef eitthvað er að marka umfjöllun bandarísku fjölmiðlana sem ég les. Ef kenning mín um takmarkaðan hernað og fjölmiðla eru réttar ætti afstaða Bandaríkjamanna til stríðsins í Írak nú að vera orðin svo neikvæð að hún hefur áhrif á kosningarnar. Stóra spurning er sú hvort að hér sé komið Víetnam repúblikanaflokksins (en Víetnam og Kórea voru bæði stríð sem hófust í stjórnartíð demókrataflokksins). Þetta lítur amk. ekki vel út fyrir Bush, því þótt sitjandi forseti hafi gríðarlegt forskot á andstæðing sinn, þá er efnahagurinn slakur, viðskiptahallinn ört vaxandi og þjóðin í stríði. Þetta gæti riðið núverandi stjórn og það væri því kaldhæðni örlagana að stríðsrekstur við Írak hefði orðið bæði Bush eldri og yngri að falli.

Svo langar mig til þess að skora á ríkisstjórnina og alþingi að banna nútíma þrælahald. Það er til skammar að frumvarp um þetta mál hefur ekki enn komist í gegn á þinginu. Nútíma þrælasala beinist helst gegn konum og börnum sem væntanlega skýrir þennan litla áhuga íslenskra þingmanna á málinu. Sú ömurlega staðreynd að þrælahald viðgengst árið 2004 og að íslenska þingið hafi ekki enn séð sóma sinn í því að setja lög gegn þessari starfsemi er með ólíkindum.

Ég horfði á enn einn breska íhaldsmanninn úttala sig um Evrópusambandið í Kastljósi í gær. Furðulegt að heyra þingmanninn láta að því liggja að helsta ástæða þess að Eistar hafi sótt um aðild, sé af því að þingmennirnir þeirra fái svo góð laun þegar þeir fara til Brussel. Sé horft til þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslna í Eistlandi og niðurstöðum hennar, þá sést ljóslega að yfirgnæfandi meirihluti Eista sér sér mikinn hag í því að vera með í ESB. Varla gengu Eistar í ESB vegna þess að þeim þyki svona vænt um þingmennina sína. Er hægt að taka svona rök alvarlega?

Ummæli

Vinsælar færslur