Af stórglæpum og ebay

Ég verð að viðurkenna að það er ein stofnun ríkisins sem umframar aðrar hefur leytt til þess að ég hef orðið ákafur talsmaður þess að við göngum í ESB og tel reyndar vera þá ríkisstofnun sem ég hef algjört óþol gagnvart. Þetta fyrirbæri er tollpóststofan.

Mín fyrstu kynni af þessari stofnun voru fyrir margt löngu, þegar þessi stofnun var staðsett í Ármúla. Þá var reyndar svo stutt um liðið frá öllum mögulegum höftum og þvingunum á innflutningi að ég hef svona með árunum skilið betur úr hvaða jarðvegi starfsemin óx. Sem hefur ekki minnkað hatur mitt á þessari stofnun, nema síður sé. Mín fyrstu kynnu fólust nefnilega í því að ég vogaði mér að gerast innflytjandi. Já og það án þess að hafa kynnt mér tollskýrslugerð, tollalög eða annað það sem innflytjendur þurftu að kunna skil á, á þessum tíma. Reyndar var þessi innflutningur minn á 4 eða 5 hljómplötum, sem ekki fengust á Íslandi á þessum tíma. Til þess að fá þessa gripi afhenta þurfti ég að mæta í Ármúla. Þar tók við bið. Bið sem var með ólíkindum löng, því á þessum tíma sóttu bæði atvinnumenn í innflutningi og við hinir leikmennirnir allir á sama stað.

En þarna beið ég sem sagt í tæplega 2 tíma með miða í hendinni sem á var letrað númer, en á undan mér höfðu verið 4 svo þetta var svona u.þ.b. einn á 30 mínútum. Þegar síðan röðin kom loks að mér, þá stundi afgreiðslukonan því út úr sér að ég yrði að fylla út tollskýrslu. Annars væri ekkert afgreitt. Benti mér síðan á að eyðublöðin væru þarna frammi. Svo tók við önnur 2 tíma bið eftir að fá afgreiðslu eftir að ég var búinn að fylla út það sem ég skildi í skýrslunni. Er ekki frá því að þetta hafi ekki orðið til þess að ég hef aldrei síðan getað séð annað en mótsögn í orðunum opinber þjónusta.

Reynsla mín af starfsmönnum þessarar stofnunar átti síðan bara eftir að versna. Ítrekað hef ég lent í því að starfsmenn þarna sýna manni ótrúlega framkomu. Það sem gerði þó útslagið varðandi ævarandi óþol mitt gangvart þessari stofnun var flutningur minn frá Bandaríkjunum. Eftir að hafa verið þar við nám í 4 ár þá ákvað ég að það væri nú skemmtilegt að eignast minjagrip um þessa dvöl. Í Bandaríkjunum er það til siðs að eignast skólahringi sem ber nafn þess skóla sem viðkomandi útskrifast frá og árið. Þetta fannst mér tilvalið og keypti hring af fyrirtækinu sem sérhæfir sig í þessu, en það heitir Jostens. Því miður fékk ég ekki hringinn áður en ég yfirgaf Bandaríkin, en þess í stað var hann sendur heim.

Ég ætla ekki að drepa lesendur með of nákvæmri lýsingu á erfiðleikum mínum í kjölfarið á þessari sendingu en í stuttu máli, þá vildi tollurinn ekki trúa því að ég hefði búið í Bandaríkjunum. Þegar það komst á hreint, þá vildu þeir ekki viðurkenna að þetta væri hluti af búslóð (en hún er tollfrjáls) og sögðu mér einfaldlega að það gæti svo sannarlega ekki einhver ruglukollur eins og ég sagt þeim fyrir verkum. Þetta endaði með því að ég leitaði til fjármálaráðuneytisins um rétt minn, enda taldi ég að ljóst væri að tollurinn hefði ekkerts sjálfsákvörðunarvald í þessu. Fjármálaráðuneytið staðfesti síðan að minn skilningur á málinu væri allur réttur og að tollinum bæri að afhenta mér vöruna. Þegar hér var komið við sögu (liðnir um 6 mánuðir frá því þetta ferli hófst) þá kom í ljós að pósturinn hafði endursent hringinn! Síðan þá hef ég haft mikla óbeit á þessari stofnun.
Það fer til dæmis óskaplega í taugarnar á mér þegar þessi stofnun tekur upp á því að senda mér tilkynningu um að það vanti reikning vegna sendinga frá Amazon. Amazon hefur það nefnilega fyrir sið að setja mjög vel skilgreindar upplýsingar um innkaupsverð og sendingarkostnað utan á pakkana sína, en það virðist einhverra hluta vegna ekki duga til. Eða þegar ég tek eftir því að þeir hafa opnað bókapakkana frá Amazon til þess að skoða hvort þar sé eitthvað annað en bækur. Hafa þeir sem þarna vinna í alvörunni ekkert betra að gera?

Allt þetta rugl værum við blessunarlega laus við ef við hefðum nú bara loksins vit á því að ganga í ESB. Hugsið ykkur bara hversu miklu einfaldara þetta yrði allt saman ef við gætum einfaldlega fjárfest í þessum hlutum á þeim stað þar sem þeir kosta minnst innan ESB. Virðisaukaskattur væri greiddur á viðkomandi stað og við síðan bara fá þetta afhent eins og hverja aðra vöru sem send hefði verið frá Seyðisfirði. Ég er til dæmis einn af þeim sem þrjóskast við að stunda netviðskipti og einn af mínum uppáhaldsvefjum er Ebay. Á Ebay má nefnilega fá ótrúlegustu hluti og oftar en ekki á mun lægra verði en gengur og gerist. Enda oft um notaða hluti að ræða, þó innan um séu ónotaðir hlutir.

Sölufyrirkomulagið á Ebay er þannig að annars vegar er um að ræða uppboð og hins vegar er um beina sölu að ræða. Það er ekki alltaf þannig að þarna sé um góð kaup að ræða og það vekur t.d. alltaf undrun mína þegar ég sé að fólk er að greiða meira fyrir vöruna en hún kostar t.d. á Amazon. En kannski er það vegna þess að á Ebay er hægt að greiða fyrir vörurnar með ýmsum hætti og t.d. boðið upp á póstkröfu ef viðkomandi býr í sama landi og seljandi. Þetta getur verið mjög spennandi og virkilegt happadrætti hvort maður nær að gera góð kaup eða ekki.

Það er svo ákaflega sorglegt þegar hið hefðbundna tollafgreiðsluferli hefst. Nú er það svo að oftast eru þetta ekki dýrir hlutir sem maður kaupir á Ebay, en þó hefur það komið fyrir. Ég hef þá brugðið á það ráð að fá vinni og kunningja erlendis að koma hlutnum heim, því kerfið hér virðist vart gera ráð fyrir því að venjulegt fólk stundi milliríkjaviðskipti. Reyndar hefur þetta batnað, enda skildist mér að tilkoma Amazon hefði orðið til þess að tollur og póstur neyddust til þess að taka upp ný vinnubrögð. Ætli of margir mikilvægir frekjuhundar hafi ekki lent í tollpóststofunni og það orðið til þess að ný vinnubrögð voru tekin upp. Eiginlega finnst mér eins og þetta sé svo afdankað og fornaldarlegt ferli að þetta ætti ekki að líðast á 21. öldinni. Ég tel svo sem ósköp eðlilegt að fylgst sé með því sem kemur í pósti t.d. til þess að koma í veg fyrir smygl á ólöglegum varningi. En er ekki komin tími til að hætta að refsa okkur fyrir kaupa hluti á Ebay, frekar en í Bónus?

Ummæli

Vinsælar færslur