Grár mánudagur

Mánudagur og brjálað veður. Það er virkilega kuldalegt að horfa út og augljóst að haustið er á síðustu metrunum. Sem þýðir að ég hef ekkert um að tala, því hvenær setur maður eitthvað um veðrið inn, nema því aðeins og maður hafi ekki frá neinu öðru að segja. Sem er reyndar ekki alveg satt.

Kíkti aðeins út um helgina og lenti inn á nokkrum stöðum. Sem eru hver öðrum ólíkir. Við byrjuðum á Enricos. Flottur staður og þó við værum of seint á ferðinni til þess að prófa matseðilinn, þá leist okkur bara vel á staðinn og verðlagið. Það að fá sæmilega rauðvínsflösku á tæplega 3000 krónur er gott – Santa Rita frá Chile – og réttirnir voru á fínu verði sýndist okkur. Kem því að þegar við lendum þarna til þess að borða. Í kjölfarið fórum við á Sirkus. Sirkus er án efa skemmtilegasta sóðabúlla Reykjavíkur. Kannski ekki allra, en á fáum öðrum stöðum er virkilega hægt að gleyma því að maður sé staddur í Reykjavík. Staðurinn hlýtur að vera í einhverjum af þessum túristahandbókum, því það eru alltaf túristar þarna í bland við skrautlegan hóp Íslendinga.

Eftir Sirkus þá litum við inn á Kaffi List, sem greinilega er gleymdi barinn við Laugaveginn. Sem er dálítið undarlegt og eiginlega afskaplega sorglegt, því staðurinn er bara nokkuð flottur. Þarna er ágætis hljóðkerfi, dansgólf og þægilegur bar. En eitthvað er það sem heldur fólkinu frá og á laugardaginn var staðurinn hálf tómur. Þarna er tækifæri fyrir einhvern sem alltaf hefur dreymt um að gera góða hluti, en kannski eigendurinn haldi að þeir geti farið fram á ofurleigu.

Að lokum enduðum við á Cafe Rosenberg. Meira svona til þess að geta sagt frá því að við hefðum komið á Rosenberg, því ég átti eiginlega ekki von á því að fara nokkurntíma aftur á Rosenberg eftir að Tunglið (og þar með Rosenberg) brann. Þetta var hin þægilegasti bar og þar vorum við til lokunar.

Sunnudagurinn fór í þynnku og mikið helvíti er skemmtilegt að horfa á Apprentice í þynnkunni. Ég þarf að skrifa pistil um þynnkusjónvarp fljótlega, en látum þetta duga í dag.

Ummæli

Vinsælar færslur