Vestfirðir

Þá er komið að því að ég efni loforðið um Vestfjarðapistil og svo get ég bráðum farið að úttala mig önnur málefni en sumarfríið. Ég get ekki sagt að ég hefi heimsótt Vestfirðina mikið, en rosalega finnst mér þetta ótrúlega heillandi og stórfenglegur hluti landsins. Til allrar hamingju eru þarna litlar ár til þess að virkja og ég er alveg sannfærður um að Vestfirðirnir eiga eftir að verða að okkar aðal ferðamannaparadís í framtíðinni.

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um að veðrið var dásamlegt (eins og í öllu fríinu okkar) og hreint út sagt frábært að keyra fyrsta hlutann í blíðskaparveðri, en þá fórum við frá Hafnarfirði til Patreksfjarðar. Tókum okkur góðan tíma í þetta og vorum eina 7 tíma á leiðinni. Eins og í öllum okkar ferðum sem fara í gegnum Borgarnes, þá stoppuðum við til þess að reyna að kaupa marsipan lengjur frá Geirabakaríi. Uppgötvuðum þetta góðgæti fyrir nokkrum árum og höfum síðan gert okkur far um að stoppa í Borgarnesi og versla. En undanfarið hefur Geiri valdið okkur miklum vonbrigðum. amk. virðist hvergi vera hægt að kaupa marsipanlengjurnar (þó auglýstar séu í verðlista KB). Þarna hlýtur að vera gríðarlegt tækifæri fyrir Geira bakara, því hann er ekki að sinna markaðnum!

En við héldum áfram veginn og héldum gleði okkar þó Geiri hefði klikkað. Bakarí út á landi eru annars opin á öðrum tímum en maður myndi búast við. Til dæmis er ekkert endilega víst að það sé opið um helgar, sem kom á óvart. Þetta var í fyrsta skipti sem ég keyrði suðurhluta Vestfjarða (frá Þorskafjarðarheiði) og það sem kom fyrst á óvart, var að merki um hættulega beygju þá erum við ekki að tala um þægilegar aflíðandi beygjur, heldur virkilega krappar beygjur. Eftir fyrstu beygju var maður fljótur að átta sig á því að það þýddi lítið annað en hægja vel á sér áður en haldið var í beygjurnar. Þarna er maður líka ekki í GSM sambandi nema lítinn hluta leiðarinnar. Reyndar hefur vegagerðin sett upp skilti þar sem eru GSM punktar.

Patreksfjörður er ekki stærsti bær á Íslandi, en ekki heldur sá minnsti. Eiginlega get ég ósköp lítið meira sagt um staðin, nema hvað mér fannst skemmtilegt að Vínbúðin er hluti af byggingarvöruverslun staðarins. Skemmtilegt að sjá pensla, veggfóður og lista í næsta nágrenni við áfengið. Við stoppuðum líka bara rétt yfir nótt, sem var nóg til þess að heilsa upp á vini og ættingja. Nú tók við akstur til Ísafjarðar og ég verð að viðurkenna að á köflum er þetta æði rosaleg leið. Virkilega brattar brekkur, beygjur sem eru eins og S og jafnvel V og ægifallegt landslag. Maður verður rosalega lítil í svona náttúru. Eftir það sem undan var gengið, þá skildi maður vel hversu rosaleg breyting göngin milli Þingeyrar og Ísafjarðar voru. Þau eru svipuð í lengd og Hvalfjarðargöngin en eru einbreið með útskotum mestan hluta leiðarinnar.

Við lentum á Ísafirði þar sem við áttum eftir að njóta einstakrar gestrisni og heimsókna í Gamla Bakaríið. En ferðinni var nú samt heitið lengra, því við vorum á leið í Aðalvík. Við byrjuðum á því að sigla frá Ísafirði til Hesteyrar, þaðan sem við gengum yfir í Aðalvík. Róleg sigling í fínu veðri og þegar til Hesteyrar var komið þá var dregin fram göngulýsing og kort. Þessi leið er mjög þægileg og ekki spillti fyrir frábært útsýni sem við nutum alla leiðina. Manni finnst það undarleg tilhugsun þegar maður gengur á þessum slóðum, að það eru kannski fáir staðir á landinu sem eru jafn eingangraðir og þessir. Þarna detta út símar, það er ekkert rafmagn og þú ferðast ekki um svæðið öðruvísi (með einhverjum undantekningum þó) en fótgangangandi eða á bátum.

Á meðan við dvöldum í Aðalvík þá afrekuðum við að klífa upp á Darra og skoða leifar af búðum Breta á svæðinu. Þarna voru þeir í rúmlega 400 metra hæð og höfðu fyrir því að leggja veggi, setja upp ratstjá, rafstöð og loftvarnarbyssur. Jafnframt má sjá rústir af herstöð Breta í Aðalvík áður en haldið er á fjallið. Ég var svo heppinn að hafa aðgang að Kayak svo ég gat farið með ströndinni og inn í Miðvík, án þess að þurfa að ganga í fjörunni. Maður verður eiginlega aldrei minni en í Kayak, rétt yfir sjávarmáli og selur elti mig til þess að forvitnast um hvaða undarlega dýr þetta væri eiginlega. Dálítið geggjað í einsemdinni inni á þessum fáförnu slóðum.

Á leiðinni til baka þá var mun órólegra í sjóinn og þá kom vel í ljós að sjóveikistöflurnar frá Boots virkuðu svona líka rosalega vel. Þeir hjá Hornströndum sem sigldu með okkur frá Aðalvík, voru hins vegar pollrólegir yfir þessu öllu saman. En þetta var með fjörugri siglingum sem ég hef komið í.

Ég á eflaust eftir að koma meiru frá mér um Vestfirðina....

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ekki bara fjörug sigling.. .viðurkenndu það bara, við vorum í lífshættu... já ég segi LÍFSHÆTTU:)

Vinsælar færslur