Þráðlaust klúður

Þessi helgi einkenndist af klúðri hjá mér. Fyrst gerði ég misheppnaða tilraun til þess að setja upp þráðlaust net. Ekkert sérlega merkilegt við það, nema hvað í kjölfarið tókst mér ekki að fá gömlu uppsetninguna mína til þess að virka. Sem er fremur óheppilegt, því í gegnum þá tengingu voru 3 vélar að tengjast og núna getur ekki nema 1 í einu verið tengd (og ein reyndar alls ekki). Þetta er óþolandi klúður og ekki á nokkurn mann leggjandi. En alls ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í vandamálum með netuppsetningarnar mínar.

Ég gerði til dæmis ítrekaðar tilraunir til þess að setja upp Linux server fyrr á árinu. Prófaði nokkrar útgáfur og byrjaði svo sannarlega á vitlausum enda með Debian. Rosalega flott kerfi, netið virkaði, en ég fékk aldrei upp grafísku útgáfuna og leið eins og ég væri kominn í Unix helvíti. Fyrir þá sem alast upp á Macintosh notendaskilum þá er þetta tómt rugl. Skipti þá um gír og prófaði að setja upp Mandrake sem á að vera mun þægilegri útgáfa. Sem reyndist rétt, því í þetta skipti lenti ég ekki í neinum vandræðum með að fá upp grafísku notendaskilin. En á móti kom að mér tókst aldrei að fá netsambandið til þess að virka. Svo ég sagði skilið við Linux og fór aftur í Windows.

Það eru samt svona erfiðleikar sem virkilega draga fram nördið í manni. Ég eyddi í þetta 4-5 vikum og fannst ég ferlega klár fyrst til að byrja með. Rifjaði upp Unix skipanir og sótti einhverja doðranta á bókasafnið um Unix og netuppsetningar. En ég er ekki meiri nörd en svo, að eftir að hafa ráðfært við mig við mér fróðari menn (ég mæli með Sensa þegar kemur að netmálum) um staðarnet þá fór svo að ég gafst upp á þessu. Mér leið bara vel með þennan ósigur minn, alveg þangað til um helgina þegar mér tókst að klúðra þessu aftur. Ætla ekki að eyða í þetta fleiri orðum og allra síst meiri tíma, nú verður málið lagt í fagmenn.

Ummæli

Vinsælar færslur