Úti er ævintýri

Það hefur verið magnað að fylgjast með því hvernig Baugur Group hefur náð til sín FL Group. Eftir að REI ævintýrið fór út um þúfur varð þolinmæði félaga FL Group að engu. Gengið seig niður og endaði í dag í 14,9 sem er raunar ekki slæmt kaupgengi. Nýr barnungur forstjóri hefur verið skipaður sem væntanlega mun verða þægilegri í taumi fyrir nýja eigendur en Hannes. Hannes enda karakter sem lítt lætur að stjórn. Sem virkaði vel á meðan allt var á uppleið og litlu skipti hvort fjárfest var í Gumball 3000 eða Glitni. Allt var á fullri ferð. 22. febrúar 2007 var seldur hlutur í FL Group á genginu 33,2 krónur. Ef þetta hefðu verið gullkrónur. Þá væri sá fjárfestir nú búinn að sjá á eftir helming af gullinu.



Hannes labbar út með nokkra tugi milljóna í starfslokasamning. Ekki jafn heppinn og Bjarni Ármanns. Sem fékk 6 milljarða frá Glitni. Miðað við þetta er Bjarni svona miklu betri starfskraftur. Enda vildi Hannes fá hann sem forstjóra hjá sameinuðu félagi GGE og REI. Hannes kann nefnilega það sem ekki allir á Íslandi kunna. Hann er óhræddur að safna í kringum sig fólki sem hefur í það minnsta jafnmikla hæfileika og hann sjálfur. Fólk sem tafði hann samt ekki. Nú hefur Hannes ákveðið að einbeita sér að orkugeiranum. Spurning hvort hann hafi traust þeirra sem fjárfestu á 33,2 krónur í FL Group með sér í því. En við hinir sem fjárfestum miklu fyrr gætum haft áhuga. Það er nefnilega hægt að græða með Hannesi, bara ef maður fer snemma inn og á réttum tíma út. Hannes hefur nefnilega áður komið að fjárfestingum áður en fyrirtæki var skráð á markað. Það fyrirtæki hét deCode.

Ummæli

Vinsælar færslur