Jólastúss

Jólaundirbúningurinn hefur gengið framar vonum. Það er eitthvað einstaklega þægilegt að hafa lokið jólainnkaupum í nóvember. Já, svona næstum því öllum. Því ég áttaði mig á því í gærkvöldi. Seint í gærkvöldi, já eiginlega eftir miðnætti að ég átti ein jólainnkaup eftir. Málið var að ég fór í innkaupaferð vestur um haf. Var duglegur í innkaupum. Svo ég var alveg viss um að hafa lokið þessu öllu. Var hin rólegasti allan desember. En komst svo að því þegar ég fór að pakka eftir miðnættið í gærkvöldi að ég hafði gleymt einum mikilvægum pakka. Reyndar var ég með hugmyndina á hreinu og þess vegna hafði ég ekki fjárfest í Bandaríkjunum. Sumt er einfaldlega ekki sniðugt að versla þar. En í gærkvöldi uppgötvaði ég þetta.

Svo ég fór á Netið og kíkti á hvernig væri opið. Flestar verslanir opnar. Svo það voru ekki hundrað í hættunni. Ekki nema mér tækist að sofa svo hræðilega yfir mig að það væri búið að loka. En ég var snöggur á fætur. Hentist út og í verslunarleiðangur. Það er svolítið athyglisvert að versla svona á aðfangadag. Sem raunar, ef hann stæði undir nafni. Ætti að vera síðasti verslunardagur fyrir jólin. En Þorláksmessa hefur tekið við því hlutverki. Miðað við örtröðina í bænum í gærkvöldi, átti ég allt eins von á því að það yrði nóg að gera. En það var frekar rólegt. Næstum fleira fólk að afgreiða en þeir sem voru að versla. Heyrði gullkorn eins og "geturðu aðstoðað mig við að finna eitthvað fallegt handa konunni" sem mér fannst skemmtilegt. En þetta gekk eins og í sögu. Ég fann nákvæmlega það sem ég var að leita að. Mundi hugmyndina mína að gjöfinni. Sem núna hefur verið pakkað inn og ég að fara gera mig kláran fyrir jólamáltíðina á eftir.

Ég vona að þið hafið það sem best um jólin. Gleðileg jól, alles gute zu weihnachten, merry christmas, bon noel.

Ummæli

Vinsælar færslur