Klukkaður

Yngvi gerði mér þann greiða að klukka mig. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að taka því, en tek því bara sem hrósi. Í þessu felst að ég þarf að upplýsa 5 lítt þekktar staðreyndir um sjálfan mig. Það er svo sem af mörgu að taka en látum bara vaða.

1. Þegar ég var yngri var ég þungarokkari af lífi og sál. Hámarki náði þessi áhugi minn með heimsókn á Monsters of Rock sem var haldið rétt fyrir utan Nottingham í Englandi á miðri kappakstursbraut í Donnington Park. Þar sá ég ekki minni spámenn en Van Halen (með David Lee Roth – lang besta útgáfa af hljómsveitinni), Ozzy Osborne og AC/DC – allt á sömu tónleikunum.

2. Ég borða ekki selerí. Mér verður óglatt ef ég finn bragðið af því. Þetta hefur ekkert með matvendni að gera. Bragðlaukarnir í mér fara einfaldlega á hvolf ef ég finn þetta viðbjóðslega bragð. Mín versta matarminning er selerí súpa sem ég fékk í Danmörku þegar ég var yngri.

3. Fyrsta utanlandsferðin mín án þess að vera í fylgd með fjölskyldunni var til Danmerkur þar sem ég bjó hjá dönsku frændfólki mínu í heilt sumar. Það var í fyrsta skipti á ævinni sem ég smakkaði fersk jarðarber og þurfti að geta tjáð mig á öðru tungumáli en íslensku. Held ég hafi ekki losnað við áhugan á því að ferðast síðan þá.

4. Ég verð sjóveikur af því að fara í tæki sem snúast í hringi í skemmtigörðum. Líka herma sem senda mig í eitthvað sem líkist sjóferð. Sjómannsblóðið rennur ekki í æðum mér, svo mikið er víst. Þetta hefur gert heimsóknir í skemmtigarða minna skemmtilegt, sérstaklega fyrir þá sem hafa lent í því að horfa á mig verða grænann og geta ekki hreyft mig í hálftíma eða svo á eftir. Á afar sérstaka minningu um þetta í skemmtigarðinum í Madríd. Fór í pínulítinn rússíbana sem snérist í heilan hring. Gat ekki staðið upp í hálftíma á eftir og fór ekki í nein tæki sem hreyfðust hratt það sem eftir lifði heimsóknarinnar.

5. Furðulegasta vinna sem ég hef nokkurn tíma unnið var sem Nordjobbari í Stokkhólmi. Vann sem heimilishjálp fyrir gamalt fólk í einu af hverfum Stokkhólms. Þar kynntist ég drykkfeldum norskum sjómanni sem drakk flesta daga vikunnar og reykti eins og strompur. Sá hafði oft komið til Íslands fannst það frábært að fá einhvern frá Íslandi til þess að sitja með sér, borða morgunmat og spjalla. Lærði að búa til kaffi upp á sænska vísu og drekka með því rjóma þetta sumar með þeim norska.

Það fylgir þessu víst að þurfa að finna sér nýja til þess að klukka. Verst að maður þekkir bara ekki nógu marga bloggara en ég klukka Tomma og Mörtu.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Mú ha ha ha ha...
- ég öfunda þig samt svolítið af Van Halen concertinum.

Vinsælar færslur