Marsferð - þriðji (og síðasti) hluti

Ég lofaði ykkur ferðasögu. En mér tókst ekki að setja þetta inn jafnóðum og ég var á ferðinni. Raunar var ég líka upptekinn. Það var nefnilega nóg um að vera hjá mér í þessari ferð. En aðeins um það hvað ég var að gera og af hverju ég var ekki öflugri við skriftir.



Þegar ég kom til Berlínar. Þá var glampandi sól. Ég átti ekki von á því. Svo í stað þess að setjast við skriftir eins og ég hafði ætlað mér. Þá fór ég út. Rölti frá hótelinu mínu niðrí Mitte. Það stendur við skemmtilega götu sem heitir Oranienburgerstrasse. Þetta er hluti af gömlu austur Berlín. Með því að rölta eftir götunni þá geng ég framhjá frægum byggingum. Fyrrum pósthúsi og bænahúsi gyðinga. Sem er frægt af myndum frá Kristalsnóttunni, þegar það stóð í ljósum logum. Þarna átti samt margt fleira eftir að brenna áður en kom að lokum stríðsins. Ég rölti áfram og endaði niðri við safnaeyjuna. Þar sem standa stórmerk söfn og dómkirkja Berlínar. Líka gamla þinghús Austur Þýskalands. Eða það sem eftir af því stendur.



Það er nefnilega verið að rífa þetta þinghús. Það kom í ljós að það var fullt af asbest einangrun og á endanum var ákveðið að rífa það. Eftir miklar umræður samt. Þarna á að endurbyggja Berlínarkastalla. En slíkt veldur ákveðnum titringi í þessu landi. Síðan rölti ég yfir á Alexanderplatz. Sem var athyglisverð upplifun. Því þarna standa miklar byggingar og kannski hvað sterkust sú tilfinning sem ég fann fyrir því að vera í fyrrum austur Berlín.



Raunar átti ég eftir að koma hingað aftur á föstudeginum. En núna rölti ég aftur upp á hótel. Skömmu síðar var ég kominn út í kvöldverð með vinnufélögunum. Ekki nokkur áhugi á því að stunda skriftir eftir það.



Daginn eftir var ég kominn í morgunverð snemma morguns. Síðan fór dagurinn næstum allur í vinnu. Sat afar áhugaverða ráðstefnu. Svo óskaplega skemmtilegt að sitja ráðstefnu þar sem ég hef á tilfinningunni að sé fólk á svipuðum slóðum og ég í þessu. Ólíkt þeirri síðustu. Svo ég átti virkilega skemmtilegan dag. Svo var aftur haldið út í kvöldverð. Síðan skoðað mannlífið við Oranienburgerstrasse. Rákumst á fræga Íslendinga sem búa þarna ekki langt frá og halda úti leikhúsi fyrir Berlínarbúa. Í kjölfarið ætlaði ég mér að komast á Netið og skrifa nokkrar línur. En því fór fjarri. Svo en ákvað ég að bíða með þetta.



Næsta dag var kominn föstudagur. Ég vaknaði ekkert of snemma, en eftir góðan morgunmat var aftur rölt um austur Berlín. Mitte og austur eftir fram að Alexanderplatz er áhugavert svæði fyrir þá sem hafa gaman af menningu og listum. Þarna er hvert galleríið á fætur öðru og fullt af litlum áhugaverðum búðum. Sem því miður voru ekki allar opnar. Fannst líka áhugvert að skoða fólkið sem ég sá á röltinu. Veit ekki hvort það var staðurinn, tímasetningin eða hvað, en ég er ekki frá því að það fólk sem átti leið um hverfið á sama tíma og ég hafi haft eitthvað sérstakt við sig.



Svolítið erfitt að útskýra, en eins og fólk í Berlín væri kannski meðvitað um sjálft sig. Eitthvað var það. Ég væri í það minnsta alveg til í að prófa að búa í Berlín í svo sem eins og eitt ár. Fá að finna taktinn betur í þessari borg. En eftir skemmtilegt rölt, heimsókn í risa verslunarhús við Alexanderplatz og endurkomu á safnaeyjuna þá rataði ég inn í litla brjóstsykursgerð. Sá bæði framleiðslu og fékk að smakka. Datt inn á kaffihús. Svo var því miður kominn tími á að fara út á flugvöll.



Ég er ekkert endilega alltaf með beltið spennt í leigubílum. En bæði til og frá flugvellinum fannst mér ástæða til. Leigubílstjórar í Berlín keyra helst hratt, bölva og flauta mikið. En ég komst í heilu lagi og áfallalaust. Alla leið til London raunar. Flaug á milli með British Airways í pakkfullri flugvél. Lenti í London og hitti góðvinkonu mína. Hún heldur úti áhugaverðri verslun og er raunar að gera fullt af áhugaverðum hlutum í London. Við eyddum kvöldinu á skemmtilegum klassískum enskum veitingastað í Greenwich. Greenwich er hluti af London, en það er samt eins og að hafa yfirgefið borgina að koma þangað. En þetta gerði það að verkum að ég hafði ekki nokkurn tíma til að setjast niður og skrifa ferðasögu.



Ég mæli annars með því að allir sem ferðast til London fái sér Oyester card. Það er ódýrasta leiðin til að ferðast um borgina og mér til ánægju reyndist ókeypis í Heathrow Express fyrir þá sem voru með kortið þennan laugardag þegar ég fór út á flugvöll. Mér fannst hins vegar öllu leiðinlegra að komast að því við heimkomuna að bílinn minn hafði verið skemmdur út á stæði við flugstöðina. Greinilega einhver farið utan í hann. Veit ekki hvort viðkomandi tók ekki eftir því. En í það minnsta var ekkert sem benti til þess. Svo ég sit uppi með tjónið. Frekar fúlt. En þetta var góð ferð. En ég var þreyttur við heimkomuna og tók því rólega sem eftir lifði helgar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
æ, en súrt að koma að bílnum sínum skemmdum:(

ömurlegt þegar fólk keyrir á og stingur af, ég hef lent í þessu líka.

Vinsælar færslur