Marsferð - fyrsti hluti

Það er ekki uppáhalds að vakna snemma. Hefur aldrei verið. Það hefur verið auðveldara að halda sér vakandi fram eftir kvöldi en koma sér á fætur. Ég er víst ekkert einn um þennan sið. Ferðalög þýða að ég þarf að vakna snemma. Var kominn í gang fyrir klukkan 6 í morgunn. Það háir mér síðan að það er eins og heilinn á mér sé ekki alveg í sama takti og afgangurinn. Ég var nefnilega búinn að ákveða fyrir löngu að ég myndi láta þvo bílinn meðan ég væri í burtu. Fengi hann nýþveginn þegar ég kæmi til baka. Ég gekk meira að segja frá hlutum sem höfðu verið í aftursætinu til þess að þetta gæti gengið sem best. En mundi síðan ekki eftir því fyrr en ég var að ganga um borð í vélina.



Það tekur mig yfirleit svona 1-2 kaffi að komast í gang. Ég þarf meir að segja að passa mig vel að það sé handklæði þegar ég fer í sturtu. Ef það er ekki á sínum stað. Þá þarf ég að hoppa blautur um alla íbúð. Ég er eiginlega alveg á sjálfstýringunni svona fyrst. Svo kemur þetta. En mér fannst samt leiðinlegt að gleyma þessu með bílinn. Hann er ekkert of fallegur eftir vetrarfærðina. En ég verð víst að finna annað tækifæri til að hreinsa bílinn. Bölvað að gleyma þessu. Þetta er svona sú stærð sem mín daglegu vandamál eru í. Að muna eftir að þvo bílinn. Komast framúr þegar ég þarf að vakna.



Ég er orðinn nógu vanur því að ferðast að þetta er allt ósköp venjulegt. Held að það hljóti að vera eitt í viðbót við það sem mín kynslóð upplifir sem sjálfsagt. Ég er ekki frá því að ég sé fyrsta kynslóð Íslendinga sem ekki hefur þurft að búa við skort. Á nokkru sviði sem mér finnst taka því að tala um. Kannski skrítið að sjónvarp væri bara í gangi 6 daga í viku og ein útvarpsstöð. En þetta breytist. Þegar ég var yngri þá fannst mér lítið spennandi við það að eiga heima á Íslandi. Landið væri lítið og íbúarnir einsleitir. Við svolítið full af sjálfum okkur. Við erum ennþá svolítið full af sjálfum okkur. Hitt er smátt og smátt að breytast. Ég sit einmitt og nýt þess að geta ferðast hraðar en nokkru sinni fyrr til Berlínar. Raunar veit ég hvernig veður er í Berlín (kalt og rakt) og að þar eru starfsmenn í almenningssamgöngum í verkfalli. Svona svipað og strætó færi í verkfall í Reykjavík. Ég á samt ekki von á vandræðum. Þjóðverjar gera ekki lengur byltingar.

Ummæli

Vinsælar færslur