Starfs mín vegna er ég orðinn mun ákafari lesandi fjölmiðla en ég var. Það veldur mér stundum erfiðleikum að þekkja til innviða þessa starfs. Kannski einmitt þess vegna sem ég hef gaman af því að lesa það sem hann Andrés Magnússon skrifar í Viðskiptablaðið á föstudögum. Ég og Andrés erum ekki skoðanabræður í stjórnmálum. Þó við höfum reyndar á mörgum sviðum nokkuð svipaða sýn á hvað veldur framþróun og betri kjörum. En leiðir skilja á sumum öðrum sviðum.

Andrés er hins vegar góður penni. Skemmtilegur dálkahöfundur. Sem veitir ekki af þegar kemur að naflaskoðun fjölmiðla. Raunar held ég að það sé nauðsynlegt að fjölmiðlagagnrýnendur komi frá hægri kantinum. Einhverja hluta vegna dettur vinstri fólk ofan í að velta fyrir sér aukaatriðunum. Hvort það hafi verið jafnmargar konur sem komu fram í umræðuþáttum og karlar. Skipti þá litlu hvað þessar konur eða karlar höfðu fram að færa í umræðunni. Vitleysan er nefnilega sú að kynið hefur lítil sem engin áhrif á afstöðu. Þannig er fríður og kjaftfor flokkur kvenna á hægri vængnum í stjórnmálum hér heima og ætli viðhorf Condoleezza Rice myndu gleðja þá sem mest kvarta yfir fámenni kvenna í stjórnmálaumræðunni.

Hitt er öllu verra að fjölmiðlafólk telur að við hin sem ekki störfum á fjölmiðlum, höfum gríðarlegan áhuga og skoðanir á vinnu þeirra og vinnuumhverfi. Fátt gæti verið fjær raunveruleikanum. Flestum gæti raunar ekki verið meira sama. Jafnframt ber almenningur ekkert traust til fjölmiðlafólks. Í þeim löndum sem þetta hefur verið skoðað eru blaðmenn á svipuðum slóðum og sölufólk notaðra bifreiða, en þó heldur neðar. En ég mæli með pistlunum hans Andrésar fyrir þá sem hafa í alvöru áhuga á góðri og vandaðri miðlun upplýsinga. http://andresm.eyjan.is/

Ummæli

Vinsælar færslur