Þetta er eitt risa samsæri...

Nú er Lost byrjað aftur. Komnir 3 þættir og það er bara heljar mikið plott í gangi. Verður gaman að fylgjast með. Annars var þessi helgi með rólegasta móti hjá mér. Það er nefnilega svo mikið í gangi á vinnustaðnum að ég þurfti að taka með mér vinnu. Gerði það alveg viljandi.

Það er nefnilega ákveðinn kostur við að vera einbýlingur. Þá er afskaplega auðvelt að vinna heima. Ekkert sem truflar. Annað en húsverk. Sem mér finnast hvort sem er ekki svo skemmtileg. Ég get líka haft ró og næði. Sem ég næ oft ekki á vinnustaðnum. Þar hringir sími. Fólk dettur inn. Sem truflar.

Svo ég tók því rólega um helgina. Fékk reyndar smá heimsókn bæði föstudag og laugardag. Smá hvítvín drukkið. En osturinn reyndist vera kominn á tíma. Ég hef líka ákveðið að halda mig frá brauðum í lággjaldaverslunum. Þegar þau endast 2-3 daga og enda svo í ruslinu, þá er ég lítið að spara. En sem sagt frekar rólegt.

Laugardagurinn var á svipuðum nótum. Ég var samt öflugri við að koma mér í gang. Ég er eiginlega sannfærður um að það var jógatíminn á föstudaginn sem gerði það að verkum. Nú er ég nefnilega kominn af stað aftur. Jóga er best í heimi og það að ég var svona hress um helgina sannfærði mig endanlega. Hress í þeim skilningi að ég svaf ekki alla helgina. Held það sé myrkrið og árstíminn sem orsaka þessa miklu þörf mína fyrir að sofa. Eða eitthvað. Svo ég var kominn í gang á góðum tíma. Fékk heimsókn seinni partinn. Ekkert hvítvín í þetta skipti, en fékk í staðinn að skoða nýja fína bílinn.

Ég var eiginlega sérstaklega ánægður með þessi kaup á bíl hjá vinafólki mínu, því það var keypt tegund sem ég hafði skoðað. Sem ég hef meira að segja skoðað síðan. En þá var líklega ekki nógu langt um liðið frá því að Skoda varð hluti af Volkswagen. Núna er Skoda að vinna sér sama sess og hann hefði hér áður og fyrr. Því hefur verið haldið fram að ein af helstu ástæðum þess að Tékkland var innlimað í þriðja ríkið hafi verið til þess að ná Skoda verksmiðjunum. Veit ekkert um það, en það er ekki bara bull þegar hver bílagagnrýnandinn á fætur öðrum kallar þetta hugsanlega best framleidda bíl í Evrópu. Svona í sínum flokki það er að segja. En annars er ég voða glaður með minn Citroen C4. Finnst hann fínn.

En ég er farinn aftur í Lost.

Ummæli

Vinsælar færslur