Skemmtun í lok sumars

Ég var í London um helgina. Ekki í fyrsta skipti. Raunar eru áratugir síðan ég heimsótti borgina fyrst. Fáar ef nokkrar borgir sem ég þekki orðið betur utan Íslands. Þarna búa líka fjölmargir Íslendingar. Eins og ég varð áþreifanlega var við. Ég hef komið til London bæði vegna vinnur, náms og eins og í þetta skipti, einfaldlega í frí.

London er stórborg. Í öllum skilningi þess orðs. Þarna býr mikið af fólki. Hún er líka stór og dreifð. En það furðulega er að fólk virðist geta búið þarna án þess að það slettist mikið upp á sambýlið. Meira að segja hryðjuverk á undanförnum árum, hafa ekki dregið úr því afslappaða og frjálslega yfirbragði sem þessi borg hefur. Þarna má sækja veitingastaði sem eru taldir þeir bestu í heimi. Skoða söfn sem halda sýningar sem skilja mikið eftir. Verslanir sem bjóða allt frá tísku morgundagsins til matvöru. Ekkert af þessu er þó sérstaklega ódýrt. London er ekki borg til þess að heimsækja án útgjalda. Það er enda svo að þarna býr fólk sem á meira en við flest þekkjum. Þó reyndar séu einhverjir Íslendingar farnir að draga svo mikið í bú að þeir komast á lista yfir ríkustu menn Evrópu. Ennþá engar konur, en það hlýtur að koma að því.

Annars var ástæða heimsóknar minnar í þetta skipti, fyrst og fremst það að skemmta mér. Það er nefnilega langt síðan ég kynntist því að það er gott að skemmta sér með Bretum. Bæði er tungumálið mér tamt og svo hitt að þeir virðast kunna betur með það að fara en við. Þessi nýliðna helgi er annars endapunktur sumarsins í Bretlandi. Með tilheyrandi hátíðarhöldum. Í London er þessi helgi tengd Notting Hill Carnival, en það er hátíð fólks ættað frá Karíbahafi. Raunar er þessi hátíð löngu búin af vaxa frá uppruna sínum. Í dag er talið að þarna safnist saman um 2 milljónir manna (raunar heyrði ég 3 milljónir um helgina) sem þýðir að þetta er næst stærsta útisamkoma í heimi. Næst á eftir sambærilegri hátíð í Ríó. Nokkuð róstur fylgir þessari hátíð. Enda varla við öðru að búast þar sem svo stór hópur kemur saman. En það er athyglisvert. Að það róstur er ekki mikið meira en það sem fylgir Verslunarmannahelgarsamkomum hér á Íslandi. En Notting Hill Carnival var þó ekki eina hátíðin þessa helgi.

Því í London voru haldnar 3 aðrar hátíðir. SW4 Festival í Clapham Common, Loaded In The Park á sama stað (á sunnudegi á meðan sú fyrrnefnda var á laugardegi) og TDK Cross Central, en ég heimsótti einmitt 2 af þessum hátíðum. Á annarri þeirra voru 25 þúsund gestir í glampandi sól og steikjandi hita á laugardaginn. Allir kátir og mikið stuð á fólki. Lögreglan í London mat það svo að til þess að hafa stjórn á hlutunum þá þyrftu þeir 1 lögreglubíl og 5 lögregluþjóna. Á sama tíma var mikið eftirlit í ganga af þeim sem stóðu fyrir hátíðinni. En það var sama hvert litið var. Ekkert vesen. Bara fólk að skemmta sér og öðrum. Meira að segja opin bar sem seldi kalt öl. Það segir meira en allt annað að þarna mátti sjá fólk með börnin sín og það var leiksvæði með gæslu fyrir börnin á staðnum. Svo þetta var sannarlega fjölskylduskemmtun. Verð bara svo að minnast á karlasalernin sem voru best heppnaða lausn á slíku sem ég hef séð. Svona opnir stampar sem þýddi að það var aldrei biðröð. En þetta var risahátíð í öllum skilningi þess orðs. En samt engar fréttir af ólátum eða veseni. Kannski það sé eitthvað til í því sem ég hef heyrt. Að það sé kuldinn sem orsaki þetta vesen sem fylgi íslenskum hátíðum. Eða bara hreinlega að við séum ennþá ekki búin að læra að búa í borgarsamfélögum. En hver svo sem ástæðan er. Þá er alveg óhætt að mæla með því að heimsækja London þessa síðustu helgi ágústmánaðar. Þú munt ekki verða í nokkrum vandræðum með að finna þér eitthvað við hæfi. Því auk þess sem ég hef talið upp, þá eru margir fleiri atburðir í gangi. Allt til þess að halda upp á sumarlokin.

Sem loksins kom til London þarna um helgina. Því eftir frekar leiðinlegt sumar. Þá var glampandi sól og blíða um helgina. Enda var mér heit um helgina. Sérstaklega þarna á laugardeginum. Man varla eftir að hafa verið staddur í öðrum eins hita. Sögðum líka öllum sem vildu heyra að við hefðum komið með sólina með okkur frá Íslandi. En svo tókst mér ekki að draga hana með mér til baka. En það er samt eitthvað notalegt við að vera komin heim í blautviðrið. Núna horfi ég fram á haustið. Það er nefnilega líka notalegt þegar byrjar að dimma og kólna.

Ummæli

Valtyr sagði…
London er róleg og góð. Var þetta ekki annars SW44 festivalið? Eða er ég eitthvað að rugla

Vinsælar færslur