2005 var erfiða árið

Ég held að ég sé endalega búinn að komast að því að ég á feimna vini. Eða ólæsa/lesblinda/óskrifandi – eða það hefði ég geta haldið miðað við fyrstu undirtektir á blogg leiknum mínum. En svo fór eitthvað að gerast þegar ég kallaði eftir því. Kannski það sé bara málið. Ég á feimna vini. Líkur sækir líkan heim, eða eitthvað í þá áttina.

En af því að nú er þetta ár næstum því liðið á enda, þá er sniðugt að setja eitthvað niður á blað um 2005. Sem var ár breytinga hjá mér. Held að það sé alveg óhætt að segja það. Stærstu breytingarnar voru persónulegar. Ekki beint óviðbúið en alveg óvelkomið. Fyrri hluti ársins fór kannski að hluta til í að reyna að koma í veg fyrir þær breytingar. Veit eiginlega ekki ennþá hvort það var til nokkurs. Ég fann samt strax á upphafi ársins að breytingar voru í vændum. Það einhvern veginn lá í loftinu. Lá í loftinu segi ég, því hint um breytingar hafði komið áður og þrátt fyrir allt, þá fann maður hvernig stefndi. Það hefði í það minnsta verið áhugavert að fá lagðan fyrir sig spádóm um árið í upphafi þess. En á vormánuðum dró til illra tíðinda. Þeir sem þekkja mig vita alveg um hvað ég er að tala og fyrir hina, já, þið verðið bara að spyrja ef þið vitið ekkert um hvað ég er að tala. En það voru vondar fréttir sem lögðust á sálina hjá mér það sem eftir var ársins. Held ég sé svona að ná mér upp úr því, en fannst þetta vont og það var vont það sem eftir var ársins.

En ég afrekaði samt margt á árinu. Gekk hærra og lengra en ég hef gengið nokkurn tíma áður. Eignaðist nýja vini á árinu og komst að því að ég á ofboðslega góða vini. Líður stundum eins og ég eigi þessa vini ekki skilið, en ég veit í dag að ég á bestu vini í heimi. Því vinir eru fólkið sem maður leitar til þegar blæs á móti manni í lífinu og þetta árið þá fannst mér vindurinn ekki vera í seglin hjá mér. En ég gekk upp á Heklu, Hengil, Esjuna, fór Laugaveginn og mesta ævintýrið var Hornstrandir. Sem verður endurtekið á komandi ári. Vonandi í góðum vinahópi. Fann líka að ég get gefið frá mér það sem ég hef fengið. Já, komst að því að það er kannski meira en bara skynsemi sem ræður í heiminum. Fékk eitthvað svo miklar ábendingar um að það væri meira en það sem við sjáum og vitum sem er í þessum heimi. Ef það er eitthvað eitt sem er mér hvað minnistæðast á árinu þá var það Tarot lögn á Hornströndum. Úff, hvað það hefur eitthvað verið að rætast.

En göngur og hreyfing áttu stóran þátt hjá mér þetta árið. Ég fór að hreyfa mig meira en nokkru sinni fyrr. Finnst það frábært. Gönguhópurinn sem við kynntumst á Laugavegsgöngunni 2004 var hluti af því. Frábært fólk sem á sína trú og kannski í fyrsta skipti þá öfundaði ég svoleiðis fólk dálítið. Það er kannski að þegar lífið eyðileggur planið fyrir manni, þá öfundar maður þá sem hafa planið sitt svona á hreinu. Ég ætla í það minnsta að sækja samkomu hjá þeim á komandi ári, þó það væri ekki nema til þessa að njóta tónlistarinnar sem spilar svo stóran þátt hjá þeim. En ég eignaðist líka nýja vini á þessum gönguferðum. Eiginlega ótrúlega góðan vin. Sem ég á ýmislegt sameiginlegt með, meðal annars það að vilja ekki eignast of mikið af vinum hratt. En þrátt fyrir ákafar tilraunir okkar þá erum við samt sem áður orðnir ferlega góðir vinir. Gekk með mér á Heklu og mér finnst það kannski það besta sem gerðist á árinu að hafa eignast svona góðan sálufélaga.

Ég líka endurnýjaði kynni mín við gamla vini á árinu. Eitthvað sem var byrjað áður en árið gekk í garð, en varð miklu dýpra og innilegra en ég hefði getað ímyndað mér þegar árið var að byrja. Það að vera boðið til heimsborgarinnar þegar mér leið sem verst, vá, það var svo mikils virði að ég á seint eftir að geta þakkað það nóg. Né heldur öll gullkornin sem ég fékk sem ráð. Já, vinir mínir eru mér ofarlega í huga við lok ársins. Því ég komst að því hverjir láta sér virkilega skipta máli hvernig manni líður. Það var nefnilega ekki endilega þeir sem maður átti von á. Ekki svo að skilja að þeir sem maður hefur þekkt í þetta 20 ár stóðu auðvitað eins og klettar við bakið á manni. Já, á stundum fannst mér eins og ég hefði ekki endilega átt alla þessa ást skilda. En þegar eitt tekur enda, þá fær maður eitthvað í staðinn sem sannfærir mann um að maður hljóti að hafa gert eitthvað rétt í lífinu til þess að eiga þetta allt skilið.

Ég tók til dæmis tvær vinkonur mínar í ofboðslega skemmtilegt ferðalag í sumar og myndi gera það um hverja helgi ef þess væri óskað. Átti næstum því von á því að fjarstödd vinkona myndi kíkja loksins í heimsókn, en á síðustu stundu þá hætti hún við. Já, ég þarf að gera þennan pakka eitthvað meira spennandi áður en hún lætur svo lítið að kíkja alla leiðina hingað. Ég var líka næstum því fluttur úr Hafnarfirðinum. Eftir miklar sálarangist og umhugsun, ákvað ég samt að var hér um kjurt. Er að bæta við húsgögnum og breyta til, svona til þess að gera íbúðina að minni, en held að mér finnst bara allt of vænt um þennan stað sem ég bý á til þess að geta flutt.

Eins og mörg fyrri ár þá var tónlist stór hluti af minni tilveru þetta árið. Sæki mína sálarró og hjálp í tónlistina. Fann mér nýjan uppáhalds tónsmið þetta árið, Desyn Masiello, varð að uppáhalds þetta árið og það spillti ekki fyrir að komast að því að hann sé hugsanlega væntanlegur hingað 17. júní 2006. Gott að stórafmælið er ekki fyrr en í desember. Já, tónlistin hreyfði við mér í ár, en það gerði líka Hress, þar sem ég varð að föstum gesti. Endaði á því að fá mér einkaþjálfara til þess að gera þetta áhugaverðara. Hún er flott og drífur mann áfram, engin náð og miskun þar. Kom mér líka aftur í jóga. Prófaði Ashtanga jóga sem ég er alveg að fíla. En kannski pínu mikið að vera 6 daga í einhverju. Hef samt aldrei verið svona duglegur. Held næstum að ég sé að breytast í hreyfingaálf svona með aldrinum. Það er ekki eins og maður sé að verða yngri, svo vitnað sé í Spinal Tap.



En þetta var ekki bara persónulegt breytinga ár. Því ég sökkti mér á kaf í að búa til nýtt fyrirtæki á vinnustaðnum mínum. Sem varð þó ekki sérlega langlíft, í það minnsta ekki í þeirri mynd sem ég átti von á (tek það fram að fyrirtækið sem ég vinn hjá, dafnar sem aldrei fyrr). Eiginlega má segja að þegar ég gekk í gegnum breytingarnar í sumar þá hafi líka fyrirtækið verið komið á endapunkt. Eða svona hér um bil. Sem gerði það að verkum að ég þurfti að hugsa minn gang. Eins og einn ágætur vinufélagi minn. Sem ég hefði svo sannarlega viljað vinna með áfram. Já reyndar alveg fleiri en einn. Sá á bak þrem vinufélögum sem ég eiginlega get ekkert annað en hrósað. Einn fór í nám, annar fór að skipuleggja ferðir og sá þriðji ákvað að leita á vit ævintýri annars staðar en í Kansas, ef þau lesa þetta þá vita þau nákvæmlega hver þau eru. Frábært fólk sem gerði líf mitt ríkara af því að kynnast þeim. Í lok ársins var mér síðan boðið að skipta um starfsumhverfi. Fór ekki langt því ég hélt mig innan samstæðunnar og var eiginlega að halda í skemmtilegustu verkefnin sem ég hafði verið að vinna í. Vona bara að ég eigi eftir að halda áfram að vinna með því frábæra fólki sem ég hef haft tækifæri til þess að vinna með á undanförnum árum. Því á nýju ári mun ég hefja vinnu á nýjum vinnustað. Sem er svo sem skildur þeim sem ég hef unnið á undanfarin ár, en er samt nýr vettvangur fyrir mig. Svo ég fæ tækifæri til þess að nema ný lönd á nýju ári.


Vegna allra þessar breytinga þá fór maður líka að sækja á ný mið. Koma sér í kynni við gamla félaga sem tóku manni vel og kynnast nýju fólki, sem kom manni á óvart. Las kannski merkilegustu bækur sem ég hef lesið og komst í kynni við hrylling sem ég hafði í raun ekki áttað mig á fyrr en í ár. Skil ekki ennþá afhverju við vitum ekki meira um það sem gerðist á austur vígstöðvunum þar sem tugir milljóna létust. Kynntist fólki frá Póllandi sem sýndi mér fram á að við Íslendingar eigum svo langt í land með að verða að alvöru gestgjöfum. Uppgötvaði að House er mest upplifting tónlist í heimi. Velti því fyrir mér afhverju ég væri hér oftar en nokkru sinni fyrr, og oftar en nokkru sinni áður velti ég því fyrir mér hvort það skipti máli hvort ég væri hér. Drakk meira af góðu rauðvíni en nokkru sinni fyrr og held að þegar öllu er á botninn hvolft, þá sé þetta spurning um að njóta þess sem við höfum núna. Takk fyrir að nenna að lesa þetta.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Besti pistill í heimi! eru ekki einhver blog verðlaun eins og Politzer...ég vona að ég sé einn af þessum vinum sem þú talaðir um,tók það allavega smá til min
:)
Simmi sagði…
Gaman að sjá að fólk er ekki lengur alveg jafn feimið við að setja inn comment. Já, Erna, að sjálfsögðu ert þú í þeirra hópi og takk fyrir hrósið:-) Veit ekki alveg hvort það séu til sérstök verðlaun fyrir blogskrif - en við kannski kíkjum eftir því saman....
Nafnlaus sagði…
Hæ Simmi minn! Það er ofsa hollt og gott að gera upp árið og horfa svo áfram til framtíðar =*

Takk kærlega fyrir árið sem er að líða, þú áttir sko stóran þátt í að gera það eins gott og það var hjá mér. Ef það hefið ekki verið fyrir þig þá hefði ég aldrei látið drauminn um Laugavegsgönguna rætast! =) Notalegar stundir í góðra vina hópi eru einnig mjög ofarlega í huga og sjaldan hef ég fundið fyrir jafn mikilli hlýju eins og geislar alltaf af þér!

Hlakka til fleirri góðra stunda á nýja árinu!
Nafnlaus sagði…
I´m claiming credit... Þakka kærlega fyrir samstarfið á árinu Simmi... stutt, frábært og ógleymanlegt.

Vona að það verði gaman hjá Travel.
We're off to Oz, the wonderful world of Oz... (vá - ég fattaði ekki hvað það var mikið double meaning í þessum frasa)...


Ævintýramaðurinn!
Nafnlaus sagði…
Frábær pistill Simmi, bíð spennt eftir þeim næsta:) Las hann reyndar fyrir nokkru en ákvað að koma úr felum í dag og láta comment fylgja svona einu sinni a.m.k.

Vinsælar færslur