Aðventa í Köben

Ég var um helgina í Köben. Alltaf jafn skemmtilega heimilislegt að koma til Köben og kannski aldrei skemmtilegra en núna þegar dregur að jólum. Það er greinilega nóg að gera hjá flugfélögunum, því báðar vélarnar sem ég flaug með voru fullar af fólki. Sem greinilega hafði notið þess að eyða tímanum á Strikinu, því ég var samferða fólki á leiðinni út og heim. Sá ekki betur en að eitthvað hefði bæst við handfarangur í það minnsta hjá sumum.

Ég lenti líka á hálfgerðri Íslendinga hátíð í Köben, því Mugison var að spila á Vega á föstudagskvöldið og þangað var haldið ásamt ferðafélögum. Ég vissi að það væru Íslendingar í Köben, en að ég myndi þekkja fleiri í Köben á föstudagskvöldi í Köben, en Reykjavík, það kom á óvart. Skemmtilega á óvart reyndar og það var efnt til óvæntrar veislu og sjálfsögðu ekki skriðið aftur upp á hótel fyrr en seint og um síðir. Ferlega skemmtilegt að rekast á einhverja sem maður hefur ekki séð í einhvern tíma og ekki síður þegar vel er tekið á móti manni. Greinilegt að mörgum landanum líður betur í Köben en hér. Já, það á greinilega betur við suma að búa í fjölmenninu.

En Mugison var þrælmagnaður á sviði. Fannst flott að sjá hvernig hann hefur tekið tæknina í þjónustu sína til þess að skapa magnaða stemmningu og er þó aldrei nema einn á sviðinu. Ég rakst líka á dagskrá Vega fyrir nóvember og greinilegt að þar höfðu Íslendingar verið áberandi á dagskrá. Skildi þó aldrei vera að einhverjir plötusnúðar sem ekki nenna að spila fyrir misjafnlega drukkna Íslendinga í Reykjavík, séu bara farnir að gera það í Köben.

Annars sveif jólaandinn yfir í Köben. Fullt af fólki á Strikinu og meira að segja opið á sunnudögum. Sem er annars eitthvað sem ekki er vaninn í Köben. Það voru líka risa biðraðir fyrir utan Tívólí. Kannski var það fólkið, eða bara stemmningin, en það var eitthvað svo ofur notalegt að sitja inn á kaffihúsi, kjafta við Íslendinga sem maður hefur ekki séð í marga mánuði og bara slaka á. Ég náði líka að byrja jólainnkaupin af krafti. Listinn hefur minnkað eitthvað, en nú sé ég fram á að þurfa að skipuleggja mig vel til þess að eiga góð jól.

Ummæli

Vinsælar færslur