Klukkutímar óskast

Það koma svona dagar eins og undanfarið þar sem ég nenni hreinlega ekki að skrifa neitt hér. Ekki af því að mér liggi ekki eitthvað á hjarta, heldur bara einfaldlega vegna þess að ég hef eitthvað betra við tíma minn að gera (amk. finnst mér). Annað hvort persónulega, eða í vinnu. Þá fær þetta litla hugarangur mitt að vera í friði.

Ég hef nefnilega ekki nægilega mikinn tíma fyrir allt það sem mig langar að gera. Eiginlega vantar mig að jafnaði svona 4-6 klukkutíma í viðbót við sólarhringinn. Maður svona hefur sig í gang þannig að maður nái í vinnuna um 9. Þegar þangað er komið þá gefst augljóslega ekki mikil tími fyrir annað en vinnu. Stundum meira segja svo slæmt að hádegismaturinn er tekinn á hlaupum. Sem gerist þó til allrar hamingju ekki of oft. En Svona milli 9 til 5 er vinna.

Ég er einn af þessum heppnu Íslendingum sem finnst gaman í vinnunni. Svona yfirleit og oftast. Ég er að vinna í spennandi verkefnum þar sem ný og spennandi viðfangsefni koma fram á hverjum degi. Sem síðan þýðir að ég er stöðugt að takast á við ný verkefni þar sem ég þarf að nýta mér þekkingu og reynslu mína til hins ítrasta. Það finnst mér skemmtilegt. En það er ekki alltaf gaman. Stundum mistekst manni hroðalega að ná þeim markmiðum sem maður hefur sett sér, nú eða fær hreinlega ekki að gera það sem maður telur réttast. En oftast hlakkar mig til þess að takast á við verkefnin mín.

Til þess að halda mér í formi og gömlu meiðslunum rólegum þá fer ég í leikfimi 3-4 sinnum í viku. Nýt þar stuðnings starfsfólks Hress í Hafnarfirði, en u.þ.b. klukkutími á hverjum degi fer í ferðalög innan höfuðborgarsvæðisins. Sem er svo sem ekki mikið ef borið er saman við stórborgir á suðlægri breiddargráðum. En þetta þýðir að stundum er maður að skríða inn á heimilið milli klukkan 8 og 9 á kvöldin. Sem gefur ekkert svakalega langan tíma til þess að sinna þessum svokölluðu áhugamálum. Núna er ég til dæmis að spila Blitzkrieg, lesa Perdido Street Station og fylgjast með The Apprenctice, Cold Case, Nip/Tuck, The Block, The Amazing Race og CSI svo eitthvað sé nefnt af þeim sjónvarpsþáttum sem ég reyna að fylgjast með. Nú svo reynir maður að komast út úr húsi til þess að hitta annað fólk, sinna heimilisstörfunum og þakkar bara fyrir að eiga ekki líka gæludýr sem maður þyrfti að viðra á köldum vetrarkvöldum.

M.ö.o. mig sár vantar 4-6 klukkutíma í viðbót í sólarhringinn. Hugmyndir um úrbætur óskast.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
tjahhh.. sko... jahh... ég sé bara eina leið út úr þessu - og hún er ekki góð sjáðu til.

Þú verður að skilja - þá þarftu ekki á neinum "kærustuparatíma" að halda - sem ætti að skila umbeðnum 3-4 klst á dag - að minnsta kosti. Sennilega meira.

Sagði þér að þetta væri ekki góð leið.... :-)

Hugsum í lausnum - ekki vandamálum
=Y=
Nafnlaus sagði…
og já - heyrðu - lestu þennann... þetta er eftir félaga minn.
http://siggiulfars.blogspot.com/2005/01/homo-islandicus-sinfona-sngur.html

Væri áhugavert að heyra þína útgáfu á þessum þætti í gær.

=Y=
Simmi sagði…
Já, ég er ekki alveg viss um að þessi aðferð gefist vel til langframa...:-) En þú fékkst smá umfjöllun um þáttinn í staðinn.
Nafnlaus sagði…
hmmm ég sé talað um vinnu, leikfimi, leikjaspil, lestur, sjónvarpsgláp, hitta annað fólk og heimilisstörf. Get ekki séð að verið sé að eyða svo miklum tíma í kærustuparatíma (nema kærastan sé partur af "annað fólk" eða "heimilisstörf") svo ég mótmæli skilnaðar-lausn síðasta kommentara hástöfum. Glötuð tillaga;) Mæli frekar með því að minnka við þig vinnu, þá hefðurðu ekki efni á að eiga sjónvarp, kaupa bækur, leiki eða fara í leikfimi - þá fyrst ferðu að eiga frítíma!

Vinsælar færslur