Svartur föstudags húmor

Ég verð að viðurkenna að ég hef gaman af svörtum húmor. Kolsvörtum húmor sem viðkvæmar sálir telja jafnvel engan húmor. Enda skilst mér að húmor sé afar vand með farinn. Upplifði þetta sterkt þegar ég heimsótti Comedy Store í London og fannst sumir brandarnir einstaklega ófyndnir og ósmekklegir. En ég fíla sem sagt kolsvartan húmor og hef þess vegna óskaplega gaman af Six Feet Under og var bent á ferlega fyndin vef um daginn sem heitir Chopping Block þar sem gert er grín að fjöldamorðingjum og fórnarlömbum þeirra með einstaklega ósmekklegum hætti. Maður þarf m.ö.o. að hafa húmor fyrir þessu til að finnast þetta fyndið.

Af sömu ástæðu finnast mér öll átök okkar til þess að markaðsetja íslenskt lambakjöt, halda heimsmeistaramót íslenska hests, nú eða sannfæra heiminn um að hvalveiðar séu í góðu lagi fyndnar. Fyndnar af því að þarna er verið að eyða skattpeningunum mínum (og þínum) í að sannfæra heiminn um eitthvað sem amk. mér virðist vera dæmalaust fáranlegt.

Í fyrsta lagi að íslenskt lambakjöt sé hollara og betra fyrir náttúruna en nokkuð annað lambakjöt í heiminum. Ég held að flestir þeir sem hafa snefil af þekkingu á náttúru landsins viti að kindinn hefur átt veigameiri þátt í því að eyða gróðurþekju landsins en flest annað. Því þótt flokka megi lambakjötið okkar sem villibráð, þá er langt í land með að þetta sé gott fyrir gróðurþekjuna. Notkun íslenskra bænda á tilbúnum áburði er síst minni en starfsbræðra þeirra erlendis og sú óskaplega uppþurkun lands sem átti sér stað snemma á síðustu öld myndi í dag vart fást samþykkt. Þó kjötneysla þyki góð fyrir þá sem eru á Atkins, þá finnast þeir víst fáir læknar sem leggja til aukna neyslu á kjöti og á það við um lambakjötið okkar eins og annað. Árangurinn af þessu er sá að landbúnaðarafurðir eru 1% af útflutningi okkar. Þetta er svo viðáttuvitlaust að það er með ólíkindum að þetta verkefni hafi verið í gangi síðan 1995 enda kemur fram í úttekt Deloitte "Þegar spurt var hvort ná mætti sambærilegum árangri í sölu lambakjöts hér á landi ef veittir væru svipaðir fjármunir í markaðsstarf og ef beitt væri svipaðri nálgun við markaðssetningu og gert er í Bandaríkjunum kom fram að flestir viðmælendur töldu að hægt yrði að ná sambærilegum ef ekki meiri árangri."

Heimsmeistaramót íslenska hestins er síðan eins og World Series í hafnarbolta. Fáar þjóðir sem keppa og enn minni athygli fjölmiðla. Bara nafnið felur í sér mótsögn. En við eyðum fjármunum í þennan viðburð, sem að mínu mati flokkast undir einhvern kolsvartasta brandara sem maður heyrir.

Hvalveiðarnar eru svo alveg sér á báti. Við fyllumst heilagri vandlætingu á því að útlendingarnir geti ekki skilið að hvalveiðar séu hluti af þjóðarmenningu okkar sem hafi fylgt okkur um aldir. Reyndar byrjuðum við ekki að veiða hval fyrr en á síðustu öld. Þangað til var hvalneysla okkar bundin við át á hvölum sem rak upp í fjöru. Hvalreki þótti búbót og mikil heppni. Það var síðan ekki fyrr en Norðmenn hættu að veiða hér hvali að við tókum við. Þess vegna eigum við okkur næstum engar hefðar um hvalát, nema á súrhval. Hvalir eru sú dýrategund sem ríku, hvítu fólki sem býr á norðurhveli jarðar þykir hvað vænst um. Sama ríka hvíta fólkið sem við ætlum einmitt að reyna að fá til að borða íslenskt lambakjöt. Þessi brandari er að mínu mati einhver sá alsvartasti.

Ummæli

Vinsælar færslur