Sáttur við Ísland

Við höfum fengið 2 skemmtileg tækifæri undanfarna daga til þess að fyllast af gleði yfir því að búa á Íslandi. Upplifa okkur í gegnum augu þeirra sem hingað koma sem gestir. Þá er auðvitað ekkert eðlilegra en að grafa upp klisjurnar því glöggt er gests augað. En auðvitað lætur maður ekki viðburði eins og heimsókn The Amazing Race til Íslands og þáttinn How Do You Like Iceland fram hjá sér fara.

Þeir sem hafa lesið þessar hugleiðingar vita að ég fylgist með The Amazing Race, enda finnst mér þar takist sæmilega upp við að búa til veruleikasjónvarp sem ekki gengur út á það að niðurlæggja keppendurnar. Því þótt það sé vissulega mikil taugatitringur í gangi og oft gangi mikið á, þá er kauphlaupið aðal atriði þáttana. Eitthvað sem önnur umferð The Block hefði betur haft í huga, því áhugi minn á þáttunum er alveg að nálgast núllið eftir að þátturinn fór fyrst og fremst að snúast um átök íbúana, fremur en endurnýjun á húsinu sem þú búa í. En mikið rosalega var Ísland flott í The Amazing Race. Þátturinn var tekinn upp þegar hitabylgja gekk yfir landið síðasta sumar og landið naut sín vel. Skemmtilegt að sjá að keppendur voru létt klæddir nema upp á jökli. Get ekki ímyndað mér annað en þetta eigi eftir að draga fjölda fólks til landsins.

Ef The Amazing Race var þessi hefðbundna glansmynd af Íslandi, þá var How Do You Like Iceland það svo sannarlega ekki. Tveir frasar sem ég man eftir, þar sem annar var á þá leið að Íslendingar ættu að koma öllum arkitektum sínum í gröfina. Hinn gekk út á það að íslenskir karlmenn líktust eina helst Elton John, sem er feitur, samkynhneigður Breti og maður verður nú dálítið móðgaður fyrir hönd þeirra íslensku karlmanna sem, ég vænti að myndu, frekar vitna í orð ritstjóra Vouge í Bandaríkjunum að þriðji íslenskur karlmaður væri í útliti eins og Brad Pitt.

Annars var þetta bara fjandi skemmtilegur þáttur. Eins og svo margir Íslendingar þá hef ég verið búsettur í útlöndum og þá virkilega uppgötvar maður að Ísland hefur svipað vægi í hugum útlendinga og t.d. Slóvakía eða Eistland (nefnið 3 hluti um hvort land). Ekki endilega slæma ímynd, heldur einfaldlega enga skoðun/þekkingu á okkur. Ég veit eiginlega ekki hversu oft ég var spurður að því hversu lengi maður væri að keyra til Íslands. Eins og bent var á í þessum þætti þá erum við líka rosalega dugleg við að búa til neikvæða umfjöllun um landið með miskildu þjóðernisstolti sem felst í því að reisa hér stíflur og veiða hvali. Annað til að skapa atvinnu fyrir 3-4 hundruð manna hóp á Austfjörðum og hitt, já, hitt eiginlega hef ég bara aldrei skilið.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að fyrir rúmlega áratug þá kom ég nálægt útgáfu á tímariti sem hét 0 og kom út í nokkur skipti en seldist víst aldrei mjög vel. Flott tímarit sem Mál og Menning stóð að og fékk meðal annar einhver hönnunar og útlitsverðlaun. Í einu eintakinu var grein eftir Breta sem ég man nú reyndar ekkert hvað heitir, en hafði getið sér gott orð fyrir greinar um ferðalög sín víðsvegar um heim. Þessi Breti hafði verið fengin til þess að skrifa grein um upplifun sína á Íslandi. Það var tvennt sem sló hann á þessum tíma, annars vegar það að hér voru engar klámbúllur eða stripstaðir og hins vegar það að hér gætu börn og unglingar endað í hópfylleríi í miðbænum um helgar. Merkilegt að hugsa til þess að nú höfum við fengið búllurnar og börnin eru horfinn úr miðbænum.

En ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að þó að hér sé allt best í heimi, þá sé hluti af því hvað hér sé allt best hvergi til nema í okkar huga. Á meðan við trúum því að hér sé besta næturlíf í heimi, þá bara hljóti það að vera svoleiðis. Á meðan við trúum því að hér séu fallegustu konur í heimi, þá bara hljóti það að vera svoleiðis. En við erum samt bara eins og risastórt úthverfi sem er allt fullt af hvítu millistéttarfólki sem hefur í gegnum tíðina átt afar erfitt (og á enn) með að sætta sig við að hér gæti erlendra áhrifa. Við erum hvort öðru lík, pössum upp á hvort annað og skiptum okkur óhikað af hvers annars málum. Mér fannst amk. vanta mikið upp á hér væri fjölmenningarsamfélag þegar ég snéri heim frá einu slíku. Þessi bölvaða sveitaómagaminnimáttarkennd okkar átti kannski einhvern rétt á sér þegar við vorum í hópi fátækustu þjóða Evrópu, en staðan er bara ekki slík í dag.

En þátturinn var fínn og nú vonar maður bara að Icelandair sýni þættina báða samviskusamlega á næstu árum á meðan það flytur viðskiptavini sína til og frá Íslandi.

Ummæli