Það sem ég lærði árið 2007 - upprifjun og áramótaheit

Áramót eru tími upprifjunar og áramótaheita. Ég ætla mér ekkert að vera minna í því en aðrir. En kannski fyrst að rifja upp áramótaheitið frá því fyrir ári. Þá ætlaði ég mér að nefnilega að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkur Maraþoni. Sem mér tókst ekki. Lestu áfram og ég segi þér af hverju.

Þetta er í þriðja skipti sem ég geri svona smá upprifjun. Eins og alltaf þá finnst mér ég hafa gert eitthvað lítið á árinu. Svona áður en ég byrja að rifja það upp. En ég kom samt á 2 nýja staði. Fyrst til Genfar og svo til Brasilíu. En 2007 var samt fyrsta heila árið sem ég hef ekki þurft að flytja mig til í vinnu. En það vafðist samt fyrir mér hvort ég ætlaði að sitja á sama stað. Raunar vefst það svolítið fyrir mér enn. Bara með öðrum hætti. Því ef það er eitthvað sem hefur aukist árið 2007, þá er það áhugi minn fyrir því að ferðast. Enda ekki nema furða.

Því árið 2007 flaug ég lengra en nokkru sinni fyrr. Fór suður fyrir miðbaug til þess að heimsækja Brasilíu í ógleymanlegri ferð. Þar komst ég að því hvað það skiptir máli að eiga góða ferðafélaga. Fór kannski í gegnum fyrstu kennslustundina í þolinmæði. Finnst líka eins ég hafi ekki verið nógu duglegur að nýta mér möguleika mína á því að ferðast. Samt fór ég bara nokkuð víða. Annapolis, Brasilía, Berlín, Genf, Kaupmannahöfn, Prag og oftar en einu sinni til London. En samhliða því að vinnutengd ferðalög hafa minnkað. Hefur áhugi minn á því að sjá fjarlægar slóðir aukist. Þess vegna er fyrsta áramótaheitið mitt fyrir 2008 að ferðast lengra en árið 2007. Ég er að hugsa um mið-Ameríku, Rússland, Eystrasaltið, Indland, Tæland, Taiwan, Laos, Víetnam og Kambódíu. Eða kannski ég endi í gönguför um Nepal, á norður Spáni eða mið Evrópu. Auk þess sem ég vil endilega sjá meira af Prag. En ég er harðákveðin í því að lenda í ævintýrum á þessu ári.

Á árinu 2007 afrekaði ég samt að hafa gengið um allar Hornstrandir. Eða svona næstum því. En samt ekki þannig að ég ætli að hætta að heimsækja Hornstrandir. Langt í frá. Því ég hef núna séð allar víkur og firði frá Aðalvík til Reykjafjarðar (og reyndar alla leið til Norðurfjarðar) þó ég eigi eftir að rölta aðeins til þess að geta sagst hafa komið á fæti í allar víkur. Mér finnst þetta svæði ennþá það ótrúlegasta á landinu. Vestfirðir og Strandir. Áhugi minn á útivist hefur ekkert minnkað heldur. Enda gerði ég fleiri árið 2007. Ég lenti í þrumuveðri í gljúfri á Hellisheiði. Svaf innan um flugnager við Þingvallavatn. Gekk á Hellisheiði í ausandi rigningu á heitum sumardegi. Fór yfir Fimmvörðuháls á Jónsmessunótt. Vafraði um Hengilsvæðið rétt efir fyrsta snjóinn í september. Rölti í Borgarfirðinum í glampandi sól og ótrúlegum hita. Fór upp á heiði ofan við Laugarvatn. Þetta var nefnilega heitt og fínt göngu sumar – svona í það minnsta júní og júlí. Þess vegna er næsta áramótaheitið mitt fyrir 2008 að vera ekki minna upp á fjöllum en árið 2007. Suð-austurlandið, miðhálendið og Mývatn eru í hausnum á mér núna. En hvernig þetta fer svo og með hverjum það á eftir að koma í ljós.

Ég endurnýjaði nefnilega kynni mín við gamla vini á árinu. Því ég kom mér fyrir inn á Facebook og MySpace eins og reyndar ótrúlega margir aðrir. Hafði ekki haft mikinn áhuga til þessa. En social networking var eitthvað sem ég uppgötvaði í ár. Komst þannig aftur í kynni við vinafólk sem ég hef ekki séð svo áratugum skiptir. Sem mér fannst ótrúlega skemmtilegt. Eignaðist líka alveg nýja vini í gegnum þetta fyrirbæri. Þannig á ég nú vinafólk í Hollandi, Kanada, Kaliforníu, Noregi, Taívan og Suður Afríku sem ég hefði væntanlega ekki kynnst ef ekki hefði verið fyrir þessi fyrirbæri. Auk þess sem ég held í kynni mín við gamla vini sem ekki búa lengur í næsta nágrenni. Þau ykkar sem ekki þekkja til. Gæti fundist undarlegt að eignast vini með þessum hætti. Eða hvort yfirhöfuð sé mikil alvara í þessu. En eitthvað af þessu fólki hef ég hitt í eigin persónu. Svo þrátt fyrir áratuga reynslu af Netinu, þá er ég enn að uppgötva nýjar hliðar á þessum miðli. Hljóðtækið mitt kemur þar nokkuð við sögu. Eins og Torrent tæknin sem ég hef tekið ástfóstri við. Þetta árið hefur neysla mín á tónlist breyst með þeim hætti að ég er eiginlega hættur að fjárfesta í geisladiskum. Enda losna ég við flest gjöld sem fylgja innflutningi með því að ná mér í efni af Netinu. Sem er nægt framboð af. Það er gríðarlegt framboð af löglegu efni til að hlusta á. Vefvarp (podcast) frá Rússlandi, Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Hollandi og Íslandi kemur nú reglulega inn í hljóðtækið mitt. Svo Netið spilaði ekki minna hlutverk hjá mér en undanfarið. En eitt af áramótaheitum mínum fyrir árið 2008 er að hitta sem flesta af mínum vinum í eigin persónu, þó ég ætli síður en svo að minnka netnotkun mína.

Börnum fjölgaði í kringum mig. Það var eins og óvenju margar konur í kringum mig eignuðust börn. Eða kannski tók ég bara meira eftir því. Hjá sumum eru börnin komin í heiminn. Þannig eignaðist ég nýjan frænda á árinu. Ég keypti líka börn, en reyndar bara á mynd. Táknræn fyrir framtíðina. Ég sá líka frábæra list á árinu. Á árinu 2007 komst ég endanlega að þeirri niðurstöðu að góð list gefi mér gríðarlegan innblástur. Gefi mér nýja sýn á heiminn. Sem er mér mikilvægara eftir því sem árunum frá fæðingarárinu fjölgar. En ég lærði þó eitt umfram allt annað á árinu. Það var þolinmæði. Ég var nefnilega minntur á mína eigin veikleika og mikilvægi þolinmæði með afgerandi hætti á árinu. Því mikil ástundun á göngum og jóga. Þar sem hnén mín byrjuðu að kvarta. Enduðu með því að mér tókst að slíta liðþófa. Sem næstum hélt mér frá Hornstrandaferðinni. Þetta lagast ekki. En hægt er að skera liðþófann í burtu sem myndi kosta mig 2-3 mánuði. Jafnvel meira. Sem mér líst ekkert sérstaklega vel á. Svo ég ætla að halda áfram uppteknum hætti. Vera duglegur að æfa mig. Í jóga og eins í líkamsræktarstöðinni þar sem ég er áskrifandi. Jafnframt stefni ég á að halda mig við góða siði á árinu. En ég ætla ekki að stefna að því að hlaupa neitt á árinu. Svo eitt af áramótaheitunum mínum er að hugsa betur um heilsuna á árinu 2008 og það bæði þessa líkamlegu og andlegu.

Svo þetta eru orðin nokkuð mörg áramótaheit. Nú er að sjá hvernig mér gengur að standa við þau. Svo óska ég ykkur öllum gleðilegs árs, þakka fyrir lesturinn á nýliðnu ári og vonast til að ykkur leiðist ekki lesturinn of mikið á því sem nú er gengið í garð.

Ummæli

Vinsælar færslur