Hvert fór ég eiginlega?

Kannski er það vitleysa í mér. En mér finnst eins og ég sé búinn að vera með kvef hálfan veturinn. Þegar ein pestin yfirgefur, þá mætir sú næsta. Ég er hreint ekki alveg ánægður með þetta. Undanfarna viku er ég varla búinn að vera nema á hálfum afköstum. Ef það. Ekki beint fárveikur, en veikur samt og var minna á skrifstofunni en venjulega. Fannst það lítið skemmtilegar fréttir að flensan væri komin til landsins.

Ég er miklu ánægðari með snjóinn. Það er búið að vera kalt og snjókoma. Það er fínt á þessum árstíma. Því þegar snjóar, þá birtir til. Sem skiptir ótrúlega miklu máli á þessum árstíma. Það léttir einhvern veginn á manni þegar sólin sést og með snjónum þá margfaldast birtumagnið. Annars er það ekki það eina sem er að gleðja mig þessa dagana.

Ég er til dæmis búinn að uppgötva Vinyl Cafe frá CBC, Friday Night Comedy frá BBC og Wait, Wait, Don’t Tell Me frá NPR. Allt er þetta útvarpsefni og kemur frá Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með vefvarpinu þá get ég núna hlustað á þetta efni í hljóðtækinu mínu hvar og hvenær sem er. Friday Night Comedy og Wait, Wait, Don’t Tell Me fjalla um svipaða hluti en hvor með sínu lagi. Báðir fjalla um málefni líðandi stundar og fréttir. En broddurinn hjá Bretunum er mun skarpari. Ég heyri vel hversu varlega þarf að stíga niður í Bandaríkjunum á meðan Bretarnir leyfa sér miklu meira. Svo fyrir fólk með fréttaáhuga og húmor er alveg óhætt að mæla með báðum þáttum. Vinyl Cafe er hins vegar ólíkur þessum tveimur. Þar er meira verið að segja sögur. Lítil sögubrot sem kannski myndu ekki virðast svo óskaplega merkileg, ef ekki væri fyrir stílinn. Sá sem segir sögurnar hefur nefnilega lag á því að gera litlu hlutina merkilega.

Kannski hlusta ég ekki nóg á íslenskt útvarp. Veit þess vegna ekki af því að sambærilegt efni er í boði. En það kemur mér á óvart. Því við köllum okkur oft söguþjóðina og bókmenntalandið. Eða eitthvað í þá áttina. Að við skulum ekki eiga sambærilegt efni. Eða kannski ekki. Húmor er bara ekki okkar sterkasta hlið. Kannski vegna þess að dimmir og kaldir vetur gera lítið í því að byggja upp húmor. Ef það er veðrið, þá hlýtur húmorinn að skána með hitnandi loftslagi.

Kvefið í vikunni kenndi mér samt svolítið. Hafandi heyrt að það sé sniðugt að drekka te. Eigandi nokkrar tegundir og þar á meðal grænt te. En það græna á að vera allra meina bót. Sumir segja að grænt te og hrár fiskur sé ástæða þess að Japanar verði allra þjóða elstir. Kannski það. En mér hefur fundist það frekar bragðlítið og ekkert sérstaklega gott. En núna tókst mér að læra á þetta. Blanda saman krydduðu Yogi Tea og grænu te. Alveg að virka.

Ummæli

Vinsælar færslur