Hunter S. Thompson – In Memoriam

“When the going gets weird, the weird turn pro”

Það er óhætt að fullyrða að andlát bandaríska rithöfundarins og blaðamansins Hunter S. Thompson hafi skilið eftir skarð fyrir skildi. Þessi umdeildi höfundur bóka á borð við Fear and Loathing in Las Vegas og The Great White Shark Hunt var ekki aðeins mikilvirkur penni heldur líka einn skarpasti gagnrýnandi Bandaríkjana á síðari hluta 20 aldarinnar. Hunter S. Thompson varð fyrstur blaðamanna til þess að þróa nýtt stílbragð, Gonzo, þar sem blaðamaðurinn varð hluti af efninu og jafnvel aðalatriði frásagnarinnar.

Líklega hefur engum höfundi tekist betur upp við að festa á blað sjöundaáratuginn og kann að koma einhverjum á óvart að Hunter átti bandaríska hernum þjálfun sína sem blaðamanns að þakka. Sem blaðamaður vakti hann ekki mikla athygli fyrr en með útgáfu bókar sinnar um Hells Angels og er óhætt að segja að Hunter hafi á þeim tíma verið í miðpunkti andmenningar sjöundaáratugsins, því sameiginleg veisla Hells Angels og Ken Kesey varð efniviður bæði Hunter S. Thompson og Tom Wolfe.

“Maybe I have gone faster, since then, but somehow it’s always felt slow”

Frægasta bók Hunter S. Thompson er án efa Fear and Loathing in Las Vegas. Þessi saga um leitina að bandaríska draumnum við upphaf áttundaáratugsins endurspeglaði betur en flest annað Bandarískan samtíma. And og fjölmenning í höfuðborg Bandarísku millistéttarinnar er óborganleg lýsing sem endanlega innsiglaði frægð Hunter S Thompson.

“Nixon was a monument to everything rotten in the American dream-he was a monument to why it failed. He is our monument”

En það voru stjórnmálin sem áttu eftir að eiga huga Hunter S Thompson það sem eftir lifði ævinar. Fear and Loathing on the Campaign Trail ’72 og The Great White Shark Hunt voru afrakstur skrifa hans um kosningarnar 1968 og 1972. Hann átti eftir að halda áfram þessum skrifum sínum til dauðadags. Skrifum sem skipuðum honum meðal helstu þjóðfélagsgagnrýnenda í Bandaríkjunum þar sem ekkert var dregið undan. Það dróg ekki úr frægð hans þegar hann var viðstaddur endalok Suður Víetnam. Hann átti eftir að gefa út greinasöfn sem héldu nafni hans á lofti, auk þess að skrifa reglulega í margvísleg tímarit í Bandaríkjunum.

Áhrif Hunter S. Thompson á íslenska rithöfunda og blaðamenn eins og Hallgrím Helgason og Gunnar Smára Egilsson eru augljós. Sú háðska ádeila sem Hunter S Thompson fullkomnaði átti líka eftir að hafa áhrif um allan hinn vestræna heim og hefur gert það að verkum að rödd þeirra sem skrifa er nú viðurkenndur hluti af greinaskrifum. Þúsundir bloggara um allan heim ganga eflaust með þann draum að ná tökum á Gonzo aðferðafræðinni. En þó margir hafi reynt, þá hefur fáum tekist jafnvel til og Hunter S. Thompson. En skrif hans eru ódauðleg og það er við hæfi að láta hann eiga sín eigin loka orð úr Generation of Swine þar sem hann rekur ástæðu þess að hann hafi tekið til við skriftir og horfir til baka.

“Maybe there is no Heaven. Or maybe this is all pure gibberish-a product of the demented imagination of a lazy drunken hillbilly with a heart full of hate who has found out a way to live out there where the real winds blow-to sleep late, have fun, get wild, drink whiskey and drive fast on empty streets with nothing in mind except falling in love and not getting arrested....
Res ipsa loguitur. Let the good times roll.”

Ummæli

Vinsælar færslur