Frá Frakklandi í Idolið

Ég hef verið mikið á ferðinni undanfarið og það verður að viðurkennast að það er ótrúlegt að upplifa það að hér á Íslandi skuli vera heitara en við Miðjarðarhafið. Ég var nefnilega svo heppinn að heimsækja fallegasta hluta Frakklands um daginn og var þar (eftir því sem ég las síðar í blöðunum) á svipuðum slóðum og menntamálaráðherra sem akkúrat var þar á Midem á svipuðum tíma.

Þó það væri kalt og reyndar snjór og hálka þegar komið var aðeins frá ströndinni, þá er þetta alveg einstaklega hrífandi hluti Frakklands. Þarna er bæði fallegt og svona líka ofboðslega góður matur. Ég skal samt alveg sleppa því að ræða um furðulega verðlagningu okkar á vínum eða óskiljanleg innflutningshöft á matvælum frá Evrópu, en það að ganga um vörumarkaði í Frakklandi sýnir manni bara best hversu fátæklegt og dýrt vöruframboð við búum við hér heima. Því þótt þetta hafi batnað frá því að hér voru reknar mjólkurbúðir og ríkið sá okkur fyrir grænmeti, þá er þetta samt alveg ofboðslega sorglegt þegar mið er tekið af því sem maður sér þegar komið er sunnar í álfuna.

Í mínum huga hafa fyrir löngu verið færð fyrir því nokkuð sannfærandi rök að aukið frelsi á sviði verslunar og viðskipta hafi fært okkur Íslendingum ótrúlegan ávinning. Hver hefði trúað því að hér yrðu stjórnendur með 100 milljónir í árslaun? Þegar þú ert kominn (já, karlkynsgreinirinn er viljandi) í þann flokk, þá væntanlega áttu erfitt með að skilja rök þeirra sem hafa á undanförnum áratugum haldið því fram að hér færi allt norður og niður ef fresli til verslunar og viðskipta yrði aukið.

Reyndar las ég nokkuð athyglisverða grein í Foreign Affairs á þessum ferðalögum mínum þar sem því var haldið fram að sú grundvallar kenning frjálslyndra (liberals vil ég frekar þýða sem frjálslyndra en frjálshyggjandi) í heimsviðskiptum, að aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum sé til hagsbóta fyrir alla, standist ekki. Svo virðist sem það séu nefnilega annars vegar þær þjóðir sem búa við mjög lágt verð á vinnuafli annars vegar og hins vegar þær þjóðir sem búa við mjög hátt menntunar og tæknistig hins vegar sem helst hagnast á frjálsum og óheftum milliríkjaviðskiptum. Þetta er athyglisvert, því um þetta hefur verið vaxandi umræða meðal fræðimanna, sem telja að það sé réttlætanlegt fyrir þjóðir að takmarka (tímabundið) aðgang að mörkuðum sínum.

En fyrir sælkera eins og mig, þá eru þær takmarkanir sem ég bý við hér á Íslandi mér alveg óskiljanlegar. En verri finnst mér stuðningur við framleiðslu sem engin hefur áhuga á og það í nafni byggðastefnu. En maður verður bara eins og rispuð plata þegar maður fer í þennan ham og þess vegna ætla ég bara alveg að sleppa því. Ákvað bara að halda áfram að lesa Stasiland og þakka fyrir að hafa ekki fæðst í alþýðulýðveldinu þýska. Æ, best að kveikja bara á Ædolinu og hætta þessu tauti...

Ummæli

Vinsælar færslur