Bölvuð ógn og leiðindi

Þó það sé eiginlega bannað að vera með einhver leiðindi á föstudögum, þá bara verð ég að koma frá mér þessum athyglisverðum (já, mér finnst það amk.) hlutum sem ég hef verið að detta um á Netinu að undanförnu. Sumt af þessu er ekki sérlega upplífgandi, en flest er svona í það minnsta umhugsunarvert. Svo vil ég bara taka það strax fram að sumarið er ekki búið. Þoli ekki þetta tal um skammdegi strax eftir Verslunarmannahelgi. Er ekki sumarið nógu stutt hérna þó við slaufum því ekki strax eftir fyrstu helgina í ágúst? Það er til dæmis þekkt staðreynd að ágúst er hlýrri mánuður en júní. Það er því sumar ennþá hjá mér og nóg eftir af því!

Er þá ekki bara best að byrja því sem hvað óhugnalegast. Létta þetta svo þegar á líður. En ef þig vantar ástæður til þess að hafa áhyggjur af stöðu mála í heiminum og svona eitthvað sem gæti valdið þér andvöku, þá er alveg óhætt að mæla með vefsvæði John Robb, Global Guerrillas. Þessi vefur (eða blog) hefur yfirskriftina: Networked tribes, infrastructure disruption, and the emerging bazaar of violence. An open notebook on the first epochal war of the 21st Century. Kenningin sem John Robb hefur sett fram er raunar byggð á hugmyndum um “open source” og hann kýs að kalla Bazaar. Þessi kenning tekur á því hvernig óskildir og hugsanlega andstæðir hópar geta tekið saman höndum í stríðsátökum. Það sem gerir málið síðan enn verra er að við erum í dag farin að horfast í augu við hryðjuverkahópa sem byggjast upp á netvæddum, alþjóðlegum ættflokkum (hér er ég að reyna þýða networked, globalized tribe). Það er þessi blanda sem gæti haldið fyrir okkur vöku. Við þekkjum dæmi um ættflokka átök úr okkar sögu sem er Sturlungaöld, en með tilkomu heimsvæðingar og Netsins hefur ólíkum hópum tekist að margfalda áhrif sín.

Hryðjuverkahópar eru nefnilega eins og kertalogi. Hann getur verið sætur og fallegur en takist honum að vaxa brennir hann ofan af þér húsið. Líkt og eldurinn þá þarfnast hann súrefnis sem er fjármagn til þess að halda sér gangandi. Þetta fjármagn fær hann fyrst og fremst í gegnum svartamarkaðinn og skipulagða glæpastarfsemi. Meðal þess sem heldur þeim gangandi er sala á ólöglegum vímuefnum og nútíma þrælasala. Til þess að þetta geti viðgengist þurfa að vera til staðar ríki sem leyfa þessu að gerast. Þeim virðist fjölga frekar en hitt. Tímaritið Foreign Policy hefur birt það sem þeir kalla The Failed State Index sem er afar athyglisverð sýn á heiminn. Besta leiðin til þess að skoða þetta er að opna kort sem er þarna og kallast The Failed States Index Map Þar sést ljóslega að fjöldi þjóðríkja býður upp á umhverfi sem gerir hryðjuverkahópum kleyft að þrífast. Þetta framtak hefur vakið svo mikla athygli og umtal, að núna getur þú fengið þér vörur með þessu korti á frá CafePress.com.

Kort eru reyndar að skjóta upp kollinum hvert sem litið er. Fannst t.d. skemmtilegt að sjá hvað Google voru að gera með tungkortinu sínu um daginn (farðu nógu nálægt yfirborðinu og sjáðu hvað gerist) en skemmtilegasta sýnin var samt Vanishing Point. Þar getum við séð hvernig stórir hlutar heimsins eru í rauninni ósýnilegir í augum fjölmiðla. Ísland þar á meðal. Það mætti auðvitað velta sér upp úr fullt af samsæriskenningum til þess að skýra þetta, en ætli ég segi ekki bara að það sé okkur í hag að vera sem minnst í alþjóðlegum fjölmiðlum, sérstaklega þegar við spáum í hugsanlegum skotmörkum hryðjuverkamanna. Vera ekkert að vekja á sér óþarfa athygli.

En það er að koma helgi og framundan er menningarnótt í Reykjavík. Svona til þess að létta okkur skapið og koma okkur í helgargírinn þá er hér fyrst hugmynd fyrir íslenska sauðfjárbændur um hvernig þeir gætu fengið okkur til þess að borða meira af lambakjöti. Þessi auglýsingum um lambakjötsát kemur reyndar frá Ástralíu, en skilaboðin þyrftu ekki að vera svo ólík. Næst er frábært myndband frá LCD Soundsystem, Tribulations sem ber óneitanlega keim af því sem Gondry hefur gert. Að lokum er það síðan bíómyndin sem ég bókstaflega get varla beðið eftir því að sjá – The South Will Rise Again.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Nossa, não dá pra entender nada do que está escrito. Acho engraçadas essas letras estranhas usadas na língua islandesa. Só percebi que o dono do blog é homem e que curte techno e house. Marcus.
Simmi sagði…
Ef einhver veit hvað stendur hér fyrir ofan væri þýðing kærkomin:-)

Vinsælar færslur