Komnir í fenið

Það er orðið ljóst að stríðið í Írak ætlar enn eina ferðina að sanna kenninguna um að almenningur í Bandaríkjunum er ekki tilbúin til þess að standa í langdreignu takmörkuðu stríði. Sem þýðir ekki að Bandaríkin séu ekki tilbúinn til þess að standa í langdreignu stríði ef á þau yrði ráðist, heldur hitt að þar í landi er ekki vilji til þess að standa í langdreignum hernaði með óljósum markmiðum.

Þetta sannaðist fyrst í Kóreustríðinu og síðar í Víetnam. Ég spái því hér með að Repúblikanaflokkurinn eigi eftir að tapa næstu kosningum á Íraksstríðinu og að eftirmaður George Bush verði Demókrati, nema því aðeins að Demókrötunum takist að klúðra kosningunum. Sem er svo sem ekki ómögulegt, en ég held að að þessi stríðsrekstur hafi skapað jarðveg fyrir Hilary Clinton til þess að bjóða sig fram og verða fyrsti kvennforseti Bandaríkjana og það kæmi mér, satt best að segja, ekki á óvart þó hún hefði með sér varaforseta af suður amerískum uppruna.

Því þó Bandaríkjamenn séu hreint ekki hrifnir af því að viðurkenna ósigur í stríði og flykkist í kringum forsetann þegar á reynir, þá hefur Bush gjörsamlega mistekist að reka stríðið með þeim hætti að hann haldi fylginu við Repúblikanaflokkinn. Þess í stað hefur hann rekið stríðið með svipuðum hætti og Truman í Kóreustríðinu og Johnson í Víetnamstríðinu. Það er nefnilega vert að minnast þess að bæði Eisenhower og Nixon (Repúblikanar) byggðu kosningabaráttu sína á því að ljúka stríðinu. Sem hefur aldrei lokið í Kóreu og þó Nixon hafi verið fyrst kosinn 1968, þá voru það ekki endalok afskipta Bandaríkjamanna af SA-Asíu.

Þrátt fyrir þetta er óumdeilt að Bandaríkin hafa hernaðarlega yfirburði í stríðinu. Vandamálið er einfaldlega það sama og í Víetnam. Óvinurinn verður ekki sigraður með hefðbundnum hernaði. Raunar má segja að Bandaríkin gætu sigrað stríðið, en vegna þess hvernig stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa aflað stríðsrekstrinum stuðnings, þá skortir á pólítiskan vilja til þess að klára dæmið. Það verður því athyglisvert að fylgjast með því hvernig þeir munu ljúka afskiptum sínum af Írak.

Versta hugmyndin er sú að Bandaríkin hætti afskiptum af Írak. Það sem þeir í rauninni verða að gera, ætli þeir sér sigur á annað borð, er að dæla fjármagni inn í landið. Sú aðferð reyndist þeim vel bæði í Þýskalandi og Japan og það er engin ástæða til þess að ætla að hún muni ekki reynast þeim vel í Írak. Vandamálið er hins vegar að núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa dregið úr getu hins opinbera til þess að fjármagna stríðsreksturinn. Jafnframt verður það að teljast vafasamt að það sé nægur pólítiskur vilji fyrir þessari aðferð í Bandaríkjunum. Önnur hugmynd væri sú að gera Írak hreinlega að nýlendu Bandaríkjana. Reyndar er reynsla Bandaríkjana af því að vera nýlenduveldi nokkuð misjöfn. Kúba, Filipseyjar og Puerto Rico eru meðal landa sem Bandaríkin hafa komið að stjórn á og teljast víst vart skólabókardæmi um velheppnaða nýlendustjórnun.

En þetta er þó alls ekki útlokað. Það sem Bandaríkjamenn berjast hins vegar við í dag er nokkuð svipað því sem fyrrum nýlenduveldi á borð við Bretland og Frakkland börðust við um miðbik síðustu aldar. Hugmyndin er sem sagt sú að koma á fót stjórn sem reynist þeim hliðholl. Ná þannig fram markmiðum sínum í stríðinu en losna sjálfir við að bera ábyrgð á að halda uppi lögum og reglum. Það er óhætt að fullyrða að þetta hafi borið nokkuð misjafnan árangur. Það sem gerir þeim erfitt fyrir í Írak er að Írak er í rauninni afkvæmi nýlenduveldana. Þarna var búið til ríki sem í raun á sér veikar stoðir. Íbúarnir einfaldlega of ólíkir til þess að geta þrifist saman í einu ríki. Kannski það sé kominn tími til að endurskoða þjóðríkið og hlutverk þess?

Ummæli

Vinsælar færslur