Hornvíkurferð

Það er alveg óhætt að fullyrða að allir þeir sem áhuga hafa á útivist og útiveru verði ekki sviknir af heimsókn á Hornstrandir. Stórkostlegt og stórbrotið landslag setja ramma utan um upplifun sem mér finnst engu lík. Um síðustu helgi þá var ég í beinni snertingu við þetta stórkostlega svæði landsins.

Hugmyndin kviknaði um mitt sumarið meðal hluta hópsins sem hafði gengið Laugaveginn. Reyndar hafði ég gengið með þessa hugmynd í maganum frá því síðasta sumar, en átti svo sem ekki von á því að úr því yrði á þessu sumri. En það breytist í kjölfarið á því að kynnast nýjum og frábærum göngufélögum. Við höfðum komist í gegnum Laugaveginn og nú var ætlunin að snúa sér að næstu áskorun sem fólgst í því að ganga frá Veiðileysufirði í Hornvík og svo aftur sömu leið til baka. Reyndar vildum við hafa gott veður í ferðina og því átti það að ráða nokkru um hvort við myndum fara. Ákveðið var að fyrsta helgin í ágúst væri sú tímasetning sem kæmi til greina. Stafaði það af því að þá hófst sumarfrí hjá einu okkar og svo hitt að ekki kæmi til greina að fara síðar til þess að ná í sumarveður.

Það verður að segjast eins og er að örlögin virtust ekki alveg vera okkur í hag. Fyrst datt eitt okkar úr hópnum (og fór í vinnu við kvikmyndaverkefni á Reykjanesinu). Það skapaði ákveðin efa um að rétt væri að fara, en við ákváðum að halda okkar striki. Reyndar bætist við nýr göngufélagi, svo við vorum aftur orðin þrjú. Svo tók veðurspáin upp á því að versna. Þetta skapaði en meiri efa um það að fara. Við höfðum reyndar farið í verslunarleiðangur þar sem ég keypti það helsta inn sem mig vantaði og verð bara að segja að verðlagning á þeim útivistarbúnaði sem hér er seldur jaðrar við okur að mínu mati. Ég get bara ekki skilið hvernig eitthvað sem selt er í Bandaríkjunum fyrir u.þ.b. 30 dollara fer að því að kosta tæpar 6.000 krónur hér heima. En það er efni í annan pistil. Eftir að hafa skipt um skoðun 4 sinnum sama daginn og eiginlega hafa lagt ferðina á hilluna, þá var það ekki fyrr en um morguninn daginn sem við ætluðum að leggja af stað sem ákvörðunin var tekin.

Ég ætla ekkert að eigna mér heiðurinn af því að ákveðið var að fara en nú var allt sett í gang og pakkað niður. Rétt fyrir hádegið hafði ég komið öllu fyrir og nú var haldið af stað til þess að ná í hina ferðafélagana. Okkur fannst öllum að eitthvað vantaði upp á farangurinn og það var því enn haldið í búðir og það var ekki fyrr en upp úr 2 sem við lögðum á stað til Ísafjarðar. Við höfðum tryggt okkur far í Veiðileysufjörð og það eina sem ég þurfti að gera í Borgarfirði var að tryggja að nægt koníak væri með í ferð. Veðrið á föstudeginum var ekki til þess að draga úr manni kjark og eins og alltaf þá finnst mér Vestfirðirnir vera stórkostlegasta svæði Íslands. Að hugsa sér að það eru ekki nema nokkur ár síðan ég heimsótti þetta svæði í fyrsta skipti. Við fengum inni á Edduhótelinu á Ísafirði og áður en lagst var til svefn kíktum við á Pizza 67 á Ísafirði.

Strax morguninn eftir var okkar fyrsta verk að heimsækja Gamla Bakaríið á Ísafirði. Það er skyldu heimsókn allra þeirra sem til Ísafjarðar koma. Síðan komum við okkur í bátinn sem flutti okkur yfir í Veiðileysufjörð. Aftur var eins og við hefðum samið við veðurguðina. Heiðskýrt og glampandi sól. Þetta gat ekki verið betra. Það kom þó fljótlega í ljós að undirbúningur okkar hafði kannski ekki verið alveg nógu góður. Málið var nefnilega að þrátt fyrir að ég hefði fjárfest í léttum göngubúnaði, þá var ég bara hreint búinn að læra þá list að vita hversu mikinn mat þyrfti að taka með. Því var ég með allt of mikinn mat og ekki leið á löngu þar til eymsli byrjuðu að gera vart við sig. Hafnarskarðið reyndist mér þannig erfiðari þraut en ég hafði gert ráð fyrir. Var ég samt ekki sá af félögunum sem var með mestan farangur. Sum okkar voru svo klifjuð að undrum sætir að við skildum yfirleit komast alla leið inn í Hornvík. En það tókst. En þessi leið er svo sannarlega fögur, þó hún sé á köflum þó nokkuð erfið. Sem mér varð reyndar ljóst að gildir um flestar leiðir þarna á Hornströndum. Mér tókst samt með hjálp verkjalyfja að staulast inn á tjaldsvæðið í Hornvík.

En það vóg upp á móti mistökum mínum varðandi matinn að ég hafði fjárfest í búnaði sem svo sannarlega stóð fyrir sínu. Þetta var reyndar í fyrsta skipti sem ég notaði nýja North Face tjaldið mitt, en það stóð fyrir sínu og annar búnaður reyndist frábærlega. Göngufélagarnir voru líka í stuði þennan daginn og um kvöldið komum við okkur fyrir á ströndinni og grilluðum hrefnukjöt. Ekki slæmur kvöldverður eftir erfiði dagsins. Sólarlagið var eitthvað það stórkostlegasta sem ég hef séð, en fljótlega upp úr því kom ég mér í poka og sveif inn í draumalandið.

Þrátt fyrir æðislegt veður fyrsta daginn þá var ekki sama sagan þegar ég vaknaði morguninn eftir. Meiðslin sem ég hafði fundið fyrir daginn áður voru líka að gera mér lífið leitt og það að togna í náranum er bara hreint ekkert sérlega skemmtilegt í göngu. Í frekar skrautlegu veðri lögðum við samt af stað í átt að Hornbjargi og var ætlunin að ganga upp á bjargið. Við vorum ekkert að flýta okkur of mikið og það var t.d. ævintýri að vaða yfir ána í Hornvík. Landslagið þarna býr yfir töfrum sem hver og einn verður að upplifa. Dýralífið er líka með því fjölbreytasta sem ég hef séð á landinu. Í fyrsta skipti á ævinni sá ég sel sem hreinlega lá í leti á skeri. Þarna var líka fullt af tófum sem snigluðust í kringum tjöld á tjaldstæðinu og létu eins og þær ættu svæðið. En eftir að hafa gengið í misjöfnu veðri fram að bænum að Horni þá fann ég að mér væri ekki ætlað að komast upp á Hornbjarg. Í stuttum brekkum hafði ég fundið virkilega fyrir meiðslunum og ég ákvað að réttast væri að snúa við. Svo göngufélagarnir héldu áfram upp á bjarg en ég snéri aftur í tjaldið. Þar sem ég lognaðist út af við að regnið buldi á tjaldinu.

Þegar ég vaknaði hafði veðrið gengið niður. Nú var komið að því að prófa eitthvað af þurr matnum sem ég hafði fjárfest í og reyndist bara vel. Alveg ljóst að slíkt fæði verður í meirihluta þess sem ég mun taka með í framtíðinni enda bæði létt og auðvelt í matreiðslu. Stuttu síðar skiluðu göngufélagarnir sér af fjalli og eftir allir höfðu matast var haldið út á strönd þar sem bál var komið í gang. Þar hafði par sem gisti á svæðinu komið sér fyrir með pönnu og bleikju. Þegar maður er í þessum ferðum þá hefur það vakið athygli mína að umgengi okkar hvort við annað er dálítið önnur og opnari en maður á að venjast héðan af höfuðborgarsvæðinu. Hvernig sem á því stendur þá er auðvelt að eignast félaga við þessar aðstæður. Kannski er það þessi sameiginlega reynsla sem fylgir göngunum. Í það minnsta er það til siðs að heilsa öllum á þessum ferðum og þarna kynntumst við þessu góða fólki að norðan.

Vegna meiðslana og þess að hve farangur var miklu þyngri en hann hefði þurft að vera, þá tókum við þá ákvörðun að halda heim á mánudeginum úr Hornvík, í stað þess að ganga aftur yfir í Veiðileysusfjörð og fara ekki til baka fyrr en á þriðjudeginum. Það var því tekin morgunmatur í tíma á mánudeginum og svo hófst biðin eftir bátnum. Áætlunarsiglingar á þessum slóðum eru svolítið öðruvísi en við eigum að venjast. Það er t.d. ekkert tiltöku mál þótt báturinn sé ekki alveg á tíma og ef ekki hefur verið óskað eftir ferð, þá er alls ekkert víst að báturinn komi nokkuð. Það er sem sagt betra að hafa vaðið fyrir neðan sig ef ætlunin er að ferðast á þessum slóðum. En biðin okkar var í lengra lagi. Báturinn birtist 3 tímum seinna en búist var við og við vorum bara hreint ekki viss um að þetta væri okkar fley. En í ljós kom að svo var, þó reyndar væri um að ræða staðgengil, Ramónu frá Bolungarvík, því félagið sem stundar þarna áætlunarsiglingar var að græða meira á flutningum með ferðafólk af skemmtiferðaskipum, en okkur sem vorum í Hornvík. Þar sem fleyið var fremur smágert og fór hægt yfir þá tók ferðin mun lengri tíma en ég hafði gert ráð fyrir. En mikið ofboðslega var skemmtilegt að sigla um Hornstrandirnar og það má segja að sú sigling hafi innsiglað þá ætlun okkar að gera heimsókn á þessar slóðir að árvissum viðburði.

Þriðjudagsmorguninn varð svo til þess að sannfæra mig um að við hefðum tekið virkilega góða ákvörðun að yfirgefa Hornvík daginn áður. Það lág nefnilega þoka yfir Jökulfjörðunum og þó svo við hefðum merkt leiðinni inn á GPS tækið sem við höfðum fengið lánað. Já, þá er ég ekki viss um að gangan úr Hornvík í Veiðileysufjörð hefði orðið sérlega ánægjuleg. Slík svaðilför fær að bíða betri tíma. Aftur höfðum við gist á Edduhótelinu á Ísafirði og eftir að hafa komið við í Gamla aftur þá lá leiðinni í bæinn. Þetta var ævintýraferð og þó hér hafi ekki verið nema sagt frá broti af því sem gerðist í ferðinni þá hlakkar mig til nýrra ævintýra í náttúru landsins og alveg ljóst að fleiri eiga ferðirnar eftir að verða á þessar slóðir.

Fyrir þá sem áhuga hafa eru komnar myndir í myndasafnið úr ferðinni.

Ummæli

Vinsælar færslur