Westur ferð

Ég var víst búinn að lofa ferðasögu frá ferðalaginu westur og get ekki annað en staðið við þau orð. Förinni var heitið til bæði Indianapolis og Boston og var ferðin vinnutengd. Þetta voru því stíf fundahöld og um langan veg farið. Fyrsti hluti ferðalagsins var til Indianapolis, sem er satt best að segja ekki borg sem ég vissi mikið um. Ekki frekar en þennan hluta Bandaríkjana yfirleit. Nema hvað ég man að varaforseti Bush eldri kom frá fylkinu og þótti víst ekki með gáfuðustu mönnum. Sem virðist svo sem ekkert skaða í Bandarískum stjórnmálum. Slíkt gerir menn bara alþýðlegri og getur virkað hvetjandi á vinsældir þeirra. Bandaríkjamenn líka ekkert sérlega gefnir fyrir menntasnobb. En í það minnsta var þetta 9 klukkutíma ferðalag frá Íslandi og gekk líka svona ljómandi vel.

Urðum samferða Borgastjóra fyrsta hlutann og ég sá svo í Mogganum um helgina að hún hafði verið að heimsækja Íslendinga slóðir í Kanada. Svo væntanlega hefur hún verið á leiðinni þangað í þessari ferð. Minneapolis er líka þægilegur skiptivöllur, þar kunna allir sitt fag og við vorum komnir af stað til Indianapolis áður en við vissum af. Þangað komum við síðla kvölds og ég veit ekki alveg afhverju, en flugvöllurinn þar er bara býsna stór. Í það minnsta keyrðum við langar leiðir til þess að komast að flugstöðvarbyggingunni og það sama endurtók sig þegar farið var daginn eftir til Boston. Við vorum svo heppnir að vinnufélagi minn tók á móti okkur í Indianapolis svo við þurftum ekki að hugsa fyrir leigubíl út á hótel. Sem reyndist vera einkaklúbbur á besta stað í borginni. Staðsett rétt við gríðarstórt minnismerki sem mér er sagt að hafa verið reist þarna í kjölfarið á bandaríska borgarastríðinu, sem ég lærði í skóla að héti þrælastríðið, en komst svo að því seinna að þeir sem í því tóku þátt, kalla það borgarastríð. Var eiginlega fyrsta nútímastríðið og gaf smjörþefinn af því sem koma skildi í heimstyrjöldinni fyrri. En við komuna á hótelið þá var manni eiginlega öllum lokið og það var bara komið sér sem hraðast undir sæng og í svefn.

Ég hef að undanförnu tekið upp á þeim sið að eyða klukkutíma í leikfimi á hverjum degi. Heimsæki líkamsræktarstöð í mínum heimabæ til þess yfirleit og hef þess vegna leitað upp þessa aðstöðu á þeim gististöðum sem ég hef verið á að undanförnu. Í það minnsta ef tækifæri gefst. Oftar en ekki er þessi aðstaða fremur lítil og sorgleg. Eiginlega hundómerkileg, án þess að mér sé eitthvað sérlega illa við hunda. En á þessum stað var hún flott. Enda rekin þarna líkamsræktarstöð og því aðgangseyrir rukkaður. Sem var svona á svipuðum nótum og einstakur tími kostar hér heima. Þetta finnst mér sérstaklega gott að gera í Bandaríkjunum á þessum stuttu ferðum. Maður er hvort sem er vaknaður svo snemma að það er alltaf eitthvað í að fundir hefjist. Þetta hefur mér reynst fín leið til þess að byrja daginn í Bandaríkjunum og maður er bæði hress og vel vaknaður þegar kemur að fyrstu fundum. Ég ætla nú ekki að ræða þá neitt sérstaklega en viðkynni mín af Indianapolis (þó stutt væru) voru góð. Borgin virtist friðsæl, fólkið vinsamlegt og nautasteikin sem við snæddum um kvöldið var afbragðs góð.

Þótt tímamismunurinn vinni vissulega með manni, þá var samt ekkert sérlega skemmtilegt að vakna klukkan 4 um nóttina (að staðartíma) til þess að koma sér í flug til Boston kl 6 um morguninn. Hefði alveg þegið að sofa amk. fram að sólarupprás. En við vorum svo sem ekki þeir einu sem lögðu þetta á sig, því það var fjölmenni á flugvellinum þegar við komum þangað. Því þó mér finnist þetta hræðilega snemmt til þess að vakna, þá varð eitthvað úr deginum með þessu móti. Við vorum komin til Boston rétt rúmlega 9 að staðartíma og þá tók við klukkutíma leigubílaferð á næsta fund. Það er alltaf svolítið skrítið að fara á einhvern stað sem maður hefur aldrei komið á og vera upp á leigubílstjóra kominn. Maður veit aldrei alveg hvort þeir eru að svindla á manni og þegar ofan á það bætist að maður þarf að átta sig á þjórfé líka – já, þá er maður aldrei alveg viss hvað er rétt upphæð. Held að við höfum ekkert verið að borga stráknum sem skutlaði okkur of mikið, því hann hreyfði sig ekki til þess að hjálpa okkur með töskurnar. Ég komst svo að því að flugið frá Boston fer ekki fyrr en rétt um 9:30. Það gaf okkur því tíma til þess að fá smá skoðunarferð um Boston og heimsækja elsta pizza staðinn í Boston. Sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunar í 6 ættliði. Skemmtilegur staður og frábærar pizzur, en það er alveg ljóst að þarna var verið fyrst og fremst að höfða til heimamanna, því þetta var ekki staður sem maður myndi ganga inn á sem ferðamaður. Það er greinilega maturinn en ekki umhverfið sem orsaka vinsældir staðarins, enda var biðröð þegar við fórum eftir að komast. Gott að hafa einhvern sem þekkir vel til á ferðalögum.

Ummæli

Vinsælar færslur