Þjóðhátíðarhelgin

Þetta var löng helgi í þetta skipti, því 17. júní hitti á föstudag og það bættust því alveg óvænt við dagar til þess að njóta lífsins. Eiginlega var sunnudagur í manni á laugardaginn, en best að koma að því aðeins seinna. Því það var sumar í Reykjavík þennan þjóðhátíðardag. Hafði reyndar verið sumar í Reykjavík alla síðustu viku, en einhver sagði mér að veðrið núna á 17. júní hefði verið það besta frá 1911. Ekki að ég hafi svo sem verið að fylgjast með síðan þá, en það var virkilega gott veður.

Kvöldið áður, 16. júní, hafði verið mikil þrýstingur á að koma nú út að skemmta sér. Tækifæri til þess alveg til staðar, en ég hafði bara ákveðið að nú væri loksins tækifærið komið til þess að ganga Leggjabrjót. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er Leggjabrjótur gömul þjóðleið frá Hvalfirði til Þingvalla. Því hér áður og fyrr, já svona fyrstu 6 aldirnar sem Ísland var í byggð, þá var nefnilega aðal kaupskipahöfn landsins í Maríuhöfn í Hvalfirði. Þetta vissi ég svo sem ekki fyrr en nýlega þegar ég rakst á einhverja blaðagrein um þetta. Maður hélt nefnilega að hún hefði auðvitað alltaf verið í Reykjavík. En svo er ekki og því var eðlilegt að menn vildu hafa greiðfært til Þingvalla.

Þótt nafnið á leiðinni sé ljótt, þá er víst ekki átt við gangandi vegfarendur. Þetta snýst víst frekar um hesta sem fóru þarna um. Ég fór þessa ferð með Ferðafélaginu sem byrjar á Þingvallaendanum og maður átti satt best að segja í dálitlum erfiðleikum með að skilja alveg hvað það var sem gaf nafnið fyrst til að byrja með. Því á Þingvallaendanum þá byrjar þessi leið þægilega. Eins og alltaf þegar maður gengur, þá byrjar maður að sjá landið svolítið öðruvísi en þegar ferðast er um með öðrum hætti. Bæði er maður auðvitað í beinni snertingu við landið og svo sér maður oftar en ekki hluti sem erfitt er að sjá, nema því aðeins að ganga. Því þá nær maður sjónarhorni sem að öðrum kosti myndi ekki standa til boða. Þetta er nefnilega nokkuð mögnuð gönguleið. En leggirnir sem hafa brotnað á þessari leið voru víst hesta. Enda sá maður að þarna gat verið erfitt fyrir hesta að finna sér góða leið. Yfir stórgrýti að fara á hluta leiðarinnar og auðvelt að sjá fyrir sér að hestar gætu lent í vandræðum. Þetta tók allt sinn tíma samt, því gönguhópurinn var stór og fjölbreyttur. Gott veður þýðir líka að það er meira stoppað og lengur en þegar veður er verra. En þarna sá maður út um allt og meðal annars upp á Búrfell sem ég gekk á fyrr í sumar.

Að lokinni göngu var síðan haldið beint í grillveislu á Suðurgötuna. Upphaflega áætlunin hafði verið að elda andabringur, en vegna mistaka í skipulagi (gleymdist að taka bringur tímanlega úr frysti) þá varð þetta klassískur grillgrís. Gott rauðvín frá Chile var haft í meðlæti og óhætt að fullyrða að við höfum verið kát með árangurinn. Í kjölfarið var haldið út í nóttina og kíkt á mannlífið. Rakst meðal annars á fólk sem ég hafði ekki séð svo áratugum skiptir. Sem er bæði skemmtilegt og svolítið skrítið. Allt í einu fær maður spegill á sjálfan sig, því maður tekur auðvitað aldrei eftir því hvað árin líða hjá sjálfum sér. En síður hjá þeim sem næst manni standa og það er því svolítið furðulegt að sjá allt í einu hvernig tíminn hefur liðið. En svo vitnað sé í Spinal Tap “við erum ekkert að verða yngri”.

Ummæli

Vinsælar færslur