Frí í London

Þar kom að því að ég ferðaðist í einkaerindum. Já, fór hreinilega í frí til London. Tók mér langa helgi og skrap út á föstudagsmorgun og kom heim aftur seint á mánudagskvöldi. Fékk áskorun frá vinafólki mínu í London að mér veiti ekkert af því að taka mér smá frí og ég er ekki frá því að það hafi bara verið alveg rétt.

Ég held að mér sé alveg óhætt að segja að ég hafi séð London nokkrum sinnum áður. Komið í þó nokkur hverfi, eða eiginlega ætti maður frekar að segja bæi. Því London er ekki skipulögð borg. Hún hefur svona vaxið, já ætli mér sé ekki meira að segja óhætt að segja, dafnað án þess að blásið hafi verið til skipulags. London er nefnilega ólík París að því leiti að hún var aldrei hönnuð af keisaralegum borgarhönnuði. Eiginlega frekar rústað af illgjörnum Austuríkismanni. En í dag er hún eiginlega skemmtilegri en nokkru sinni fyrr á þessum árum sem ég hef heimsótt hana. Sem eru orðnar nokkuð margar heimsóknir.

Það skemmdi ekki fyrir að eiga góða heim að sækja heldur. Né heldur að ekki var hægt að kvarta yfir veðrinu. Reyndar var þetta helgin sem Glastonbury er haldin og þar rigndi bæði eldi og svo þessu venjulega regni yfir gesti hátíðarnar. Þar var bókstaflega allt á floti. En mikið rosalega virtist fólkið samt skemmta sér vel sem ég sá bregða fyrir í sjónvarpinu. Svo voru líka útsölur að byrja í London svo ég náði meira að segja að eyða smá vegis. Sem er ekkert endilega alltof heppilegt í London, því það er ekkert alltaf verið að gera frábær kaup í London. En ég fékk góð ráð og þá er alltaf aðeins auðveldara að versla smá.

Annars var eiginlega skemmtilegast að hitta vina fólk mitt í London samt. Fá tækifæri til þess að setjast niður, spjalla, borða góðan mat og skiptast á fréttum. Þetta vinafólk mitt er líka bara að gera skemmtilega hluti í London. Reyndar býr það ekkert allt lengur í London, því sumir hafa komið sér fyrir aðeins fyrir sunnan London. Kíkti þess vegna aðeins út fyrir borgina líka. Reyndar ekki langt, en nógu langt samt til þess að líða sannarlega eins og maður væri kominn út í breska sveit. Þetta vina fólk mitt er annars að starfa í ólíkum geirum. En það er greinilegt að andrúmsloftið í Bretlandi er jákvætt gagnvart fólki með frumlegar hugmyndir. Hönnun, listir og frumlegheit eiga upp á pallborðið hjá ákveðnum hópi Breta í það minnsta. En samt eru Bretar óskaplega miklir íhaldsboltar. Sumir hverjir í það minnsta. En svakalega var gaman að koma inn á listasöfn í London. Ég sá eitthvað nýtt, ferskt og áhrifaríkt. Er hægt að biðja um meira á einni helgi?

Fyrir þá sem eru á leið til London þá mæli ég með heimsókn í Beyond the Valley – flottasta búðin í London. Endilega kíkja á Photographers Gallery við Leicester Squere og sumarsýningin í Royal Academy of Arts var svaka fín. Mér fannst æðislegt að borða á Itsu en svo er líka alltaf eitthvað í gangi sem er þess virði að heimsækja.

Bara varð að bæta þessu við - algjör skildulesning fyrir sjónvarpsglápara og áhugafólk um bókmenntir - JG Ballard fjallar um CSI

Ummæli

Vinsælar færslur