Tekið á því í Efstaleitinu

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarna daga hvort að versta starf í heimi sé ekki að vera gólftuska, nei ég á við útvarpsstjóri. Þarna situr þú í embætti þar sem þú í rauninni ræður engu. Ekki nokkrum hlut. Þú þarft nefnilega að láta velja fyrir þig fólk sem vinnur hjá þér. Það eru aðrir sem skammta þér fjárframlög og þú ert ekki einu sinni spurður álits þegar vinna hefst við stefnumörkun fyrir þetta auma dæmi sem þú að nafninu til stjórnar. Eða svona lítur þetta út frá mínum bæjardyrum þegar ég horfi til þessarar ótrúlegu umræðu sem orðið hefur um ráðningu fréttastjóra hjá ríkisútvarpinu.

Ólíkt hafast menn að, á Íslandi eða Bretlandseyjum. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið mikil umræða um BBC, langt í frá. Þar hefur á undanförnum árum verið mikil vinna verið lögð í að skilgreina hlutverk þessarar stofnunar sem Bretar kjósa að kalla frænku (Auntie). Það er kannski til marks um ólíkt viðhorf okkar til okkar stofnunar að við köllum elstu útvarpsstöð landsins “gufuna”, þó ég telji reyndar að þar sé ekki átt við innihald útsendingarinnar, heldur þess hljóms sem lengi einkenndi útsendingar útvarpsins.

Ekki svo að skilja að skorti lengur hæft fólk til þess að starfa við fjölmiðlun á landinu. Um það vitna fjölmargar blog síður sem haldið er úti af miklum krafti af íslendingum, sem hafa tekið miklu ástfóstri við þá nýbreytni sem felst í því að koma skoðunum sínum beint og ómengað á framfæri. Hér er líka haldið úti fjölbreytum fjölmiðlum sem unnið hafa kraftaverk á jafn smáum markaði og Ísland er.

Þessarar miklu fjölbreytni og krafti hefur þó ekki borið mikið á í hinum svæfandi faðmi ríkisins. Það væri til dæmis alveg óhugsandi að þáttur á borð við Strákana myndi nokkurn tíma verða sýndur í sjónvarpinu sem við styðjum með afnotagjöldum. Né heldur að þar hefði nokkur sýnt þá framsýni sem sést á öflugri útgáfustarfsemi BBC. Kannski skildi engan undra að svo sé komið fyrir RÚV þegar sá flokkur sem lengi hefur haft það á stefnuskrá sinni að leggja það niður, hefur í raun setið þar við stjórnvölinn.

Hvert er eiginlega hlutverk RÚV? Þegar leitað er upplýsinga um það, þá má lesa á vef RÚV að það sé: “Ríkisútvarpið ætlar að vera í fararbroddi íslenskra fjölmiðla með því að bjóða landsmönnum fjölbreytta og vandaða dagskrá í samræmi við menningar- og lýðræðishlutverk sitt.” Skildu nýliðnir atburðir vera í samræmi við þessa stefnu? Kannski RÚV ætti að setja sér sama markmið og BBC “The BBC exists to enrich people’s lives with great programmes and services that inform, educate and entertain. Its vision is to be the most creative, trusted organisation in the world.” Ólíkt hafast menn að.

Ummæli

Vinsælar færslur