Paranoia

Er eitthvað svo miklu skemmtilegra orð en vænisýki, sem mun víst vera íslenska heitið á þessum geðsjúkdóm. Nojan eins og hún er víst kölluð af fólki sem sækir AA fundi á sér ótrúlegan fjölda fylgismanna. Hafandi endur fyrir löngu (rétt eftir stríðslok) lært eitthvað í afbrigðasálfræði í menntaskóla (takk MH) þá veit ég svo sem ósköp vel að þetta er eitthvað sem við öll finnum fyrir öðru hverju. En það er bara stigsmunur á því sem við flest finnum og svo sjúklegri vænisýki. Reyndar vitna ég oftast til Philip K Dick þegar talið berst að þessu, því hann hélt því fram að efsta stig vænisýki væri Not thinking everyone is out to get you, but everything is out to get you.

Þetta efni hefur löngum verið hugleikið þeim sem skrifa, líkt og Philp K Dick, um hugsanlega framtíð okkar. Enda kannski ekki nema furða, því um miðbik síðustu aldar réðu ógnarstjórnir sem kenndar hafa verið við alræði ferðinni. Þetta var alveg ný tegund einræðis, þar sem ríkisvaldið seildist lengra inn í einkalíf þegna sinna en dæmi höfðu verið um áður. Þegar við þetta bætist að í þessum ríkjum ríkti ekki lögræði (lög & dómstólar viku fyrir geðþóttaákvörðunum ráðamanna) þá skal engan undra að vænisýki hafi hrjáð þá sem í þessu lentu. Þarna gilti sem sagt ekki lengur að þeir sem engin lög brjóta, hefðu ekkert að óttast, því lög réðu engu um hvort þú lentir í klóm yfirvalda.

Nú gætir þú verið að velta því fyrir þér af hverju ég er yfirleit nokkuð að velta mér upp úr vænisýki (dregið af því að væna einhvern um e-ð?). Ástæðan er sú að um daginn þá birtist lítil frétt í blöðunum hér um að eftir u.þ.b. eitt ár þyrftu þeir sem hefðu hugsað sér að ferðast til Bandaríkjana að bera vegabréf með lífsýni. Ekki var sagt neitt frekar með hvaða hætti þetta yrði framkvæmt og það tók mig nokkra daga að kveikja á því hvernig þetta verður framkvæmt.

Til er fyrirbæri sem upp á engilsaxneskri tungu er kallað Radio Frequency Identification eða RFID eins og það er yfirleit skammstafað. Ef við reynum að staðfæra þetta á íslensku þá mætti hugsa sér að þetta væri kallað útvarpsbylgjuskilríki. Þessi skilríki eru ólík þeim sem við eigum að venjast, því þessi eru agnarsmá og hafa þann eiginleika að alls ekki er víst að við vitum af því að verið sé að skoða þau. Þau eru reyndar svo lítil að þeim hefur verið komið fyrir í fólki. Í Japan hafa þau verið grædd í Alzheimer sjúklinga til þess að auðvelt sé að finna þá ef þeir týnast. Það er einmitt með þessari aðferð sem ætlunin er að geyma upplýsingar um okkur í þessum nýju vegabréfum.

En þessi aðferð er langt í frá óumdeild og við frekari skoðun þá má sjá fjölmargar miður skemmtilegar hliðar á þessari tækni. Það er heldur engin ástæða til annars en að ætla að þessi tækni verði misnotuð, því öll tækni hefur verið misnotuð. Nú þegar hafa gagnrýndur þessarar tækni bent á þá hættu sem þessu fylgir. Svo mikil er andstaðan við þessa tækni að stofnuð hafa verið samtök sem berjast gegn notkun hennar CASPIAN og halda úti vef með miklu af ítarefni um fyrirbærið. Það að ætlunin sé að nota þessa tækni til þess að geyma upplýsingar um lífsýni mitt (eða aðrar upplýsingar um okkur) í vegabréfinu vekur því upp vænisýki mína. Eða svo vitnað sé í orð Bruce Schneier It's a clear threat to both privacy and personal safety. Quite simply, it's a bad idea. Eða hvað finnst þér um þá staðreynd að CNET skrifaði grein um fyrirbærið sem bar fyrirsögnina RFID tags: Big Brother in small packages. Kannski eru þetta óþarfa áhyggjur, en kannski er bara rétt að vitna aftur í Philip K Dick:
Just because you’re paranoid, doesn’t mean they’re not out to get you.

Ummæli

Vinsælar færslur