Af Barrok, Neal Stephenson og meira um fjölmiðlalögin

Undanfarið hef ég verið að lesa nýjasta ritverk Neal Stephenson, en það er þríleikur sem hann kallar “The Baroque Cycle” og eru fyrstu tvö bindin í þessu verki komin út. Það verður ekki með nokkru móti sagt að Neal sé þarna að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, né heldur að stærð verksins sé skorin við nögl. Fyrir þá sem þekkja til Neal og muna eftir doðrantinum Cryptonomicon þá má fá hugmynd um stærð og umfang þessara nýju 3 binda með því að margfalda Cryptonomicon með þremur. Annað sem mér amk. þykir athyglisvert við þetta ritverk er hversu hratt það kemur út. Sem bendir auðvitað til þess að Neal hafi í rauninni skrifað 3 binda verk og það hafi væntanlega verið útgefandi verksins sem hafi ákveðið að skipta því í þrennt (væntanlega til þess að hægt væri að lesa ritið).

Eins og nafngiftin (The Baroque Cycle) gefur til kynna, þá er hér um að ræða sögulega skáldsögu og þeim sem þetta ritar, finnst Neal hafa tekist vel til. Nokkuð augljós áhrif af fyrri ritverkum hans og áhugamálum má greina í verkinu. En fyrir áhugafólk um sögu og stjórnmálasögu, þá er þetta bara bísna skemmtilegt allt saman. Fyrir hina sem gætu hræðst þessi orð, þá er þetta líka þræl spennandi saga af ástum og örlögum á umbrotatímum og svo listilega vel skrifað að þrátt fyrir lengdina finnst manni hvergi orði ofaukið, svo vitnað sér í bókmenntagagnrýnanda New York Times. Þó ég sé ekki nema ný byrjaður á 2 hluta þá ætla ég mér að útnefna þessa ritröð bók ársins 2004.

Fjölmiðlalög og þjóðaratkvæðagreiðslur eru enn í umræðu og án þess að ég ætli að hafa um það mjög mörg orð, þá þykir mér umræða um lágmarksþátttöku nokkuð undarleg. Ekki minnist ég þess að hafa séð nokkurn mann halda því fram að í kosningum til þings eða forseta þurfi að vera lágmarksþátttaka. Það hefur meðal annars verið á það bent að með auknu beinu lýðræði, megi búast við því að þátttaka í umræðu og atkvæðagreiðslum um einstök mál verði oft harla lítil, enda hef ég t.d. ekkert stórar skoðanir nema á einhverjum nokkrum málum. Jafnframt er ljóst að lög eru ítrekað sett án þess að fulltrúar meirihluta þjóðarinnar hafi gefið málinu jákvæða afgreiðslu (það er ekki gerð krafa um að amk. 31 þingmaður samþykki mál til þess að það öðlist lagagildi). Ekki hjálpar það til að hér á landi er misskipting atkvæðavægis slík að í raun vega atkvæði á suðvesturhorninu mun minna en þau sem t.d. eru greidd á austurlandi. Þeim sem þetta ritar hefur ævinlega fundist að hér sé um að ræða alvarlegan galla á íslensku lýðræði, enda ætti sú gullna regla að gilda að jafnvægi sé í vægi hvers greidd atkvæðis í kosningum til Alþingis.

En það má reyndar undrum sæta að Davíð Oddsson skuli hafa gert þau regin mistök að ljúka ferli sínum með þessum hætti. Sá sem þetta ritar þykir það með ólíkindum að Davíð skuli ekki hafa lært það af Richard M Nixon að í stjórnmálum gilda tvær reglur sem eigi skal brjóta. Í fyrsta lagi að ljúga aldrei vísvitandi og í öðru lagi að fara ekki í slag við fjölmiðlafólk. Það mátti vera alveg ljóst að fjölmiðlafólk sem hugsanlega stæði frammi fyrir atvinnumissi myndi ekki sitja aðgerðarlaust þegar á það væri ráðist, ekki frekar en franskir bændur þegar rætt um að draga úr styrkjum á vegum Evrópusambandsins. Hér virðist leiðtoganum heldur betur hafa orðið á í messunni og hugsanlega gæti þetta orðið orðstýr hans dýrkeypt, því það eru jú þetta sama fjölmiðlafólk sem stýrir því hvernig umræða um menn og málefni er háttað. En látum þetta duga í bili.

Ummæli

Vinsælar færslur