Æskan

Ég horfði á bíómynd frá Kína um helgina. Kínverjar búa að langri sögu um kvikmyndagerð og hún styrktist enn frekar í kjölfarið á yfirtöku þeirra á Hong Kong. Flest stærstu nöfnin í kvikmyndagerð í Hong Kong komu sér fyrir á meginlandinu (eins og íbúar í Hong Kong kalla Kína) enda fjármagn og aðstaða mun betri en í Hong Kong. Það hefur þó ekki farið mikið fyrir Kína í kvikmyndahúsum hér á landi. Líklega bæði að dreifingaraðilar eru ekki til staðar og svo eru kínverskar myndir því marki brendar að þurfa að aðlaga sig að gildum sem eru í Kína til að komast í framleiðslu. Þessi mynd sem ég horfði á um helgina var eiginlega frábært dæmi um hvað það þýðir.
Æska
Myndin heitir “Æska” eða 芳华 á frummálinu. Leikstjórinn er Xiaogang Feng sem hefur komið að gerð nokkura frábæra mynda frá Kína. Hann skrifaði meðal annars handritið og leikstýrði “Heimur án þjófa” eða 天下无贼 2004 sem sló í gegn í Kína og er feikna vel skrifuð og leikin. Andy Lau, Li Bing Bing og Rene Liu eiga öll frábæra spretti í þessari mynd sem er alveg óhætt að mæla með. Hann leikstýrði líka “Assembly” eða 集结号 2007 sem kom honum kirfilega á kortið í Kína, því myndin sló í gegn og vann til verðlauna það ár í Kína. Síðan þá hafa fylgt í kjölfarið fínar myndir á borð við “Eftirskjáltar” eða 唐山大地震 2010, “Aftur til 1942” eða 一九四二 2012 og “Ég er ekki Pan Jinlian” eða “我不是潘金莲” 2016. Allt fínar myndir sem allar bera þess merki að vera framleiddar í Kína.
Málið er nefnilega að allar myndir sem framleiddar eru á meginlandi Kína bera þess nokkuð skýr merki. Þær eru aldrei gagnrýnar á Alþýðufrelsisherinn (PLA) (þess sama og murkaði lífið úr mótmælendum á Tianamen torgi) eða Kínverska Kommúnistaflokkinn (CCP). Fórnfýsi og hetjulund þeirra sem eru í hernum og kommnúnistaflokknum er ævinlega hampað. Oftar en ekki má sjá fulltrúa flokksins ganga fram fyrir skjöldu og lesa yfir mönnum um skyldur þeirra að koma vel fram við alþýðu landsins. Eitthvað sem má draga í efa að eigi sér sérstaka stoð í raunveruleikanum. Liðsmenn Alþýðufrelsishersins eru líka ævinlega hópur af hetjum sem sem sannarlega eru mannlegir, en með hvatningu frá pólitíska fulltrúanum og réttsýni að leiðarljósi, sýna af sér einstaka fórnfýsi og hetjulund. Auk þessa eru viðmið um ástaratriði og kynlíf önnur en við erum vön. Þar sem við myndum búast við eldheitu ástaratriði eru allar líkur á því að mun minna verði sýnt. Þetta þarf því að hafa í huga áður en sest er niður til að horfa á kvikmynd frá Kína.
Æska bar öll þessi merki. En tókst á sama tíma að vera fín mynd. Enda fékk hún Kvikmyndaverðlaun Asíu 2018. Þetta er klassísk saga um það að fullorðnast. Það birtast okkur bæði sigrar og áföll þar sem sögu Kína er blandað inn í söguþráðinn. Menningarbyltingin, Víetnamstríðið og samfélagsbreytingarnar í kjölfarið á fráfalli Mao blandast allar inn í söguna. En þetta er fyrst og fremst mannleg saga og ætti að geta höfðað til stórs áhorfendahóps utan Kína. Mæli með Æsku.

Ummæli

Vinsælar færslur