Ég er lesandi


Smá breytingar í gangi og vetrarpest setti ákvörðun mína um að skrifa eitthvað á hverjum degi úr skorðum. Eins gott að fara koma sér af stað aftur. Ég hef líka tekið þá ákvörðun að ætla mér að ná að lesa amk. 1 bók í mánuði þetta árið. Gekk rosalega vel í Janúar. Kláraði 2 bækur og kom því skilmerkilega til skila á GoodReads. Nú er febrúar hins vegar alveg á síðustu metrunum og ég hef ekki náð að klára þessa sem ég er að lesa á þessum heila mánuði.


Ég gæti auðvitað notað það sem afsökun að febrúar sé svo stuttur að ég hafi bara ekki alveg náð þessu. En það er bara ekki raunin. Ég hef einfaldlega ekki náð að halda nægilega góðum takti í lestrinum. En ég hef ákveðið að taka þetta föstum tökum. Nú verði sem sagt gert plan um að í hverjum mánuði muni ég ljúka við amk. 1 bók sem þýðir að per viku þarf ég að klára 25% af bókinni. Sem er mjög einfalt að mæla þegar maður er hættur að lesa mikið á prenti en notar frekar Kindle. En ég er einn af þeim sem hef fagnað því að geta keypt rafbækur.

Ástæðan er einföld. Ég les mikið á ensku og hef gert öll mín fullorðins ár. Áður en rafbókin kom til sögu þá gerði ég mín bókakaup í gegnum Amazon og Ebay og það var mér alltaf og ævinlega til að tryggja vonda upplifun þegar kom að því að greiða fyrir umsýslu Íslandspósts. Því mér hefur alltaf verið óskiljanlegt af hverju Íslandspóstur má innheimta meira en allir í ferlu – bara fyrir það eitt að láta mig vita að ég geti sótt pakka á pósthús. Ég var í þessari viku að taka á móti hlut frá Kína – sá sem græddi mest á þeim viðskiptum var Íslandspóstur. Framleiðandi, seljandi, ríkið – allir fengu minna í sinn hlut en Íslandspóstur. Mun minna. Samt tapar Íslandspóstur á þessu öllu saman. Segja þeir. Af þeim sökum er ég rafbókakaupandi. Þá þarf ég ekki að styðja við rekstur Íslandspóst og fæ lesefnið mitt því á verðskrá seljenda og höfunda. Nýt þess að komast í útsölur á Amazon. En sakna þess samt að lesa á prenti. Það er nefnilega alveg eitthvað við prentið og bókina. En eru bókahillur notaðar undir bækur? Eða kaupum við þær í dag til að nýta í eitthvað allt annað?

Ummæli

Vinsælar færslur