Segðu mér hvaða forsendur þú ert að nota
Til upplýsingar þá er sá sem þetta skrifar varamaður í stjórn VR. Skoðanir hér endurspegla þó ekki skoðanir VR, heldur eru hugleiðingar mínar um áróður.
Fyrir áhugafólk um áróður og áróðurstækni hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum um stöðuna á vinnumarkaði þetta árið. Allt frá því í vor hefur verið ljóst að hafin væri skipulögð herferð sem hefði það markmið að draga úr launahækknunum. Raunar eru það fastir liðir þegar líður að gerð kjarasamninga að sambærileg herferð fari í gang. Það sem hefur vakið athygli mína er sú harka sem hefur hlaupið í herferðina þetta árið. Líklega er það svar við nýrri forrystu verkalýðshreyfingarinar en nýr formaður er hjá bæði VR og Eflingu og eins hefur ný forysta verið valin hjá ASÍ. Áróður virkar síður ef við þekkjum aðferðir þeirra sem hann nota. Þetta er því áhugavert dæmi sem gerir okkur kleyft að draga fram aðferðir í áróðursherferðum. Í kjölfarið vonandi varið okkur fyrir því að falla fyrir áróðrinum.
Það hefur vakið athygli mína að í fjölmiðlum hefur verið hamrað á prósentuhækkun sem erfitt er að sjá að sé að endurspegla raunverulega kröfugerð verkalýðsfélagana. Höfum það í huga að fjölmiðlar eru hér ekki að skapa fréttir. Þeir endurspegla þær upplýsingar sem þeir hafa aðgang að. Þeir hafa líka ákveðnar vinnuaðferðir sem áróðursmeistarar geta fært sér í nyt. Allt eru þetta þekktar aðferðir. Nefndar hafa verið 100 til 150 prósent hækkun launa. Þetta er vel þekkt aðferð úr áróðursfræðunum. Sett er fram fullyrðing. Hún endurtekin nægilega oft til að þú hafir heyrt hana frá nokkrum aðilum. Þú telur í því ljósi að hún hljóti að vera sönn. En hver er raunveruleikinn?
Ef eingöngu er horft til krónutöluhækkunar er samhljómur í kröfugerð Eflíngar, SGS og VR. Öll félögin setja fram kröfu um 42.000 króna kauphækkun á lægstu laun á ári sem við lok samningstímans yrðu komin í 425.000 krónur. Sé horft til kostnaðarauka atvinnuveitanda er ljóst að þarna vantar inn bæði lífeyrissjóðsgreiðslur og tryggingargjald sem til einföldunar er um 16% af þessari tölu og 42.000 króna hækkun myndi því kosta fyrirtækið tæplega 49.000 krónur. Miðað við 300.000 króna lágmarkslaun er þetta rétt tæplega 14% hækkun á ári í launakostnaði fyrir þann hóp sem er að fá lágmarkslaun.
Það má auðvitað halda því fram að þetta sé langt umfram getu okkar til launahækkana. Samtök Atvinnulífsins segja að geta fyrirtækja á Íslandi til launahækkana sé um 1,5–2 prósent á ári. Þjóðahagspá er að gera ráð fyrir 2–4 prósent vexti á ári næstu 3 ár. Viðskiptaráð segir laun á Íslandi með þeim allra hæðstu í heimi. Hér sé líka launjöfnuður með því allra mesta sem gerist í heiminum. Séð frá þessu sjónarhorni er 14% hækkun hrein og bein sturlun. Svona ef marka má orð þeirra sem um þetta hafa verið að fjalla í leiðurum og viðskiptahluta prentmiðla.
Nákvæmlega þessi málflutningur gerir þetta að áhugaverðu umfjöllunarefni fyrir okkur sem áhuga hafa á áróðri. Í þessum málflutningi er nefnilega ekki gert ráð fyrir því að halda sig við krónutöluhækkun eða 42.000 króna hækkun á ári. Heldur er gert ráð fyrir að hlutfallshækkun (18%) sé sú sama (eða hér um bil) fyrir alla. Þetta hentar í áróðrinum því ef við gerum ráð fyrir því að allir fái sömu krónutöluhækkun þá breytist myndin. Þetta er líka vel þekkt áróðurstæki. Þú teiknar upp mynd sem hentar þér og þínum málflutningi. Heldur því fram að það sé raunveruleikinn. Samkvæmt útreikningi frá Eflingu myndi 42.000 króna hækkun á öll laun á landinu þýða eftirfarandi.
Lágmarkslaun myndu hækka um 14% á ári en allra hæstu laun myndu hækka um 1%. Meðallaunahækkun reglulegra launa (skv. skilgreiningu Hagstofu Íslands) yrði 6,5% á ári og miðlaun myndu hækka um 7,7%. Helmingur launafólks er með lægri laun en miðlaun og helmingur er með hærri laun. Meðallaun íslensk forstjóra í skráðu fyrirtæki á Íslandi eru 4,7 milljónir. Þetta væri því innan við 1% hækkun fyrir þann hóp. Sviðsmyndin svokallaða skiptir því verulegu máli.
Viðskiptaráð sem líklega er það næsta sem íslenskir atvinnurekendur hafa sem kalla mætti “áróðursstofu” hefur t.d. ákveðið að nota 25% hækkun í nýjasta áróðri sínum. Þar er Anna í litlu fyrirtæki sem veltir rétt nægilega miklu til að borga að meðaltali 500.000 krónur í laun með 6 starfsmenn. Sá rekstur mun fara illa ef 25% launahækkun kæmi til framkvæmda. Gleðifréttin fyrir Önnu er að samkvæmt núverandi kröfugerð myndu laun hennar fólks ekki hækka nema um 8,4%. Ef ríkið lækkar tryggingargjöld þá myndi það létta undir í rekstrinum hjá Önnu. Það sem meira er. Ef launakostnaður hjá Önnu hækkar ekki um nema 49.000 krónur á mánuði fyrir hvern starsfmann. Þá er fyrirtækið enn rekið með hagnaði. Minni en áður — en samt sem áður hagnaði. Anna hækkar gjaldskrá sína um 2% til að mæta auknum launkostnaði og nær þannig að auka veltu sína og vega upp á móti tekjutapi (og í 2–3% verðbólgu er eðlilegt að verðskrár hækki). Aukin kaupmáttur skilar sér síðan líklega í auknum viðskiptum og þegar upp er staðið gæti hagnaður Önnu orðið meiri en fyrir launahækkun. Þar gæti gengi íslensku krónunar haft margfalt meiri áhrif en launahækkun. Það skiptir nefnilega töluverðu máli hvaða forsendur menn gefa sér þegar niðurstöður eru skoðaðar. Viðskiptaráð hefur sig lítt í frammi í umræðum um íslensk gjaldmiðlamál, enda hentar það sumum íslenskum atvinnurekendum vel að hér sé áfram notuð króna.
En hitt sjónarhornið. Að hér þurfi að tryggja fólki laun sem dugi fyrir lágmarksframfærslu. Skattgreiðendur eigi ekki að greiða niður laun fyrirtækja í gegnum bótakerfið líkt og þekkist. Að fólk sem er á lágmarkslaunum þurfi að vinna baki brotnu í 2–3 störfum til að geta staðið straum af útgjöldum. Að það sé fullkomlega eðlilegt að launafólk eigi rétt á sanngjörnum hlut í arði þeirra fyrirtækja sem þau starfa hjá. Að það eigi að horfa til hagsmuna launafólks en ekki eingöngu fjármagnseigenda þegar kemur að umhverfi fyrirtækja og stjórnun þeirra. Þau sjónarmið heyrast mun síður og alls ekki t.d. frá Viðskiptaráði. Það má nefnilega skoða málflutning og sjá hvort um er að ræða tilraun til áróðurs eða upplýsingar. Ef eingöngu er hamrað á ákveðnum sjónarmiðum og aldrei minnst á önnur. Þá er um að ræða áróðursmiðil. Þannig má t.d. greina rússneska áróðursmiðla. Þeir tala aldrei illa um Pútín. Aldrei.
Þetta segir mér að hér sé því mjög áhugaverð áróðursherferð í gangi og okkar bestu sérfræðingar í hönnun slíkra að verki. Hamrað er á villandi upplýsingum til þess að skapa þá hugmynd að verkalýðshreyfingin sé að leggja fram sturlaðar kröfur. Reynt er að færa umræðuna í ákveðin farveg sem hentar Samtökum Atvinnulífsins. Mikið er unnið með ótta um framtíðina og það virðist vera að virka. Væntingavísitala er mæld reglulega og hún sýnir nú væntingar um verri tíð framundan. Atvinnulífið heldur að sér höndum, fólk dregur úr eyðslu og þar með hægist á. Ytri þættir virðast þó hagfeldir. Olíuverð er að lækka. Óvissa um markaði í Bretlandi virðist lítil og almennt virðist íslenskum útflutningsfyrirtækjum vera búið nokkuð gott umhverfi. Það er eina helst fá nýsköpunarverkefni sem valda áhyggjum og þar er það fyrst og síðast krónan sem veldur. En um hana virðist ríkja sátt hjá núverandi valdhöfum.
Ummæli