10 góðar ástæður fyrir því að vera í ESB

1. Af því að Evrópusambandið er einstakt og ótrúlega vel heppnað samstarf þjóða. Það hefur skilað friði og framförum og bætt lífsgæði fólks innan landamæra sinna og utan.
—–
2. Af því að við erum ekki ein í heiminum. Af því að alþjóðavæðingin hefur skellt okkur jarðarbúum í einn og sama bátinn. Við sjálf höfum t.d. sjaldan kynnst því eins og síðustu mánuði hvernig breytileg sjávarföll á Wall-Street geta skollið á okkur af fullum þunga.
—–
3. Af því að með aðild fáum við á endanum gjaldmiðil sem tryggir fyrirtækjum markaði, fjármagn og stöðugt rekstrarumhverfi. Evran tryggir stúdentum betri tækifæri til mennta, almenningi sanngjarna vexti og ferðamönnum heiminn.
—–
4. Af því að Evrópusambandið er að sumu leyti þróaðra og fullkomnara í nálgun sinni á brýn pólitísk viðfangsefni, heldur en okkar eigið stjórnkerfi og stjórnmálaflokkar.
—–
5. Af því að í Evrópusambandinu er rík lýðræðishefð, sem er byggð á grunni ítarlegrar málsmeðferðar og málefnalegrar ákvörðunartöku. Litlar þjóðir hafa mikið að segja innan Sambandsins og stærri þjóðir sem reyna að kúga minni þjóðir eru litnar hornauga. Fyrir þá sem trúa því að þjóðir geti bara verið með eða á móti manni, þá eigum við fjölmargar vinarþjóðir innan sambandsins. Við eigum almenning í Evrópu sem kaus okkur í Eurovision, þrátt fyrir að óvandaðir bankamenn hafi verið nýbúnir að stela sparifé þeirra, og þrátt fyrir að lífeyrissjóðir þeirra og bankar hafi þurft að afskrifa 6000 milljarða vegna Íslendinga.
—–
6. Af því að Evrópusambandið er friðarbandalag. Það er siðlegasti leikandinn og áhrifavaldurinn í alþjóðlegum stjórnmálum. Bandaríkin pynta fólk og fangelsa án dóms og laga. Kínverjar loka á Internetið og skerða málfrelsi (íslensk stjórnvöld hafa hingað til kosið að halla sér helst að þessum tveimur þjóðum). Rússland hefur ríkisvætt misskiptingu auðs. Nei, Evrópusambandið er rétti vettvangurinn ef menn hafa áhuga á að breyta heiminum til góðs (halló VG-liðar?!?).
—–
7. Af því að Evrópusambandið stendur vörð um hagsmuni neytenda. Gegn ótrúlegum og vaxandi áhrifum stórfyrirtækja, þá hefur ESB sagt stopp. Þeir hafa stoppað Microsoft í einokunartilburðum. Þeir hafa hindrað samruna sem hamla myndu heilbrigðri samkeppni. Og þeir hafa fengið farsímaframleiðendur til að samþykkja einn staðal fyrir hleðslutæki fyrir farsíma. Íslenskir neytendur geta rifjað upp olíusamráðsmálið til að meta frammistöðu eigin stjórnvalda á þessu sviði.
—–
8. Af því að Evrópusambandið er lítið apparat. Það er ekki bákn. Það er hins vegar hægfara vegna þess mikla samráðs og upplýsingaöflunar sem fylgir allri ákvarðanatöku stofnanna þess. Sem getur verið kostur. Það eru ekki teknar geðþóttaákvarðanir í Brussel. Sambandið er ekki gallalaust frekar en önnur mannana verk. En á alla sanngjarna mælikvarða er það svo til fullkomið.
—–
9. Af því að Evrópusambandið er fremst í heimi í þróunarmálum. Já og umhverfismálum. Sem eru tvær hliðar á sama peningnum. Þeir eru miklu betri í þessu en við og okkar stjórnmálamenn. Á þessum sviðum erum við eins og illa upplýstir ríkisbubbar. Við höfum aðgang að menntun og peningum til að vera framarlega í þessum málum. En okkur er bara andsk. sama og kjósum frekar að sitja með höfuðið fast upp í okkar feita rassi.
—–
10. Af því að með aðild að Evrópusambandinu þá endurheimtum við hluta af sjálfstæði okkar, sem áður var tapað. Ekki sem þjóð eða þjóðrembur. Þjóðin er og verður áfram fullvalda. Heldur sem borgarar. Við fáum beina aðkomu að ákvörðunum og löggjöf sem snerta okkar daglega líf og sem eftir tilkomu EES-samningsins hafa komið til okkar fullbúnar til innleiðingar.

Tekið frá Andrési Jónssyni á Eyjan.is

Ummæli

Vinsælar færslur