Af neikvæðu og jákvæðu frelsi

Það virðist vera full ástæða til þess að útskýra í hverju munurinn á jákvæðu og neikvæðu frelsi liggur. Frelsi er jú eitthvað sem nú heyrist mikið rætt í tengslum við takmarkanir vegna Covid. Neikvætt frelsi er það frelsi sem við höfum til orða og athafna án afskipta. Sumir telja að þetta frelsi eigi að vera ótakmarkað, en ekkert samfélag hefur (svo vitað sé) gengið upp sem ekki setur einhverjar takmarkanir á bæði orð og athafnir. Meira að segja hugmyndafræði anarkista (stjórnleysingja) gengur út á að það sé sameiginleg ákvörðun að setja reglur og takmarkanir, ekki að þær séu engar til staðar. Jákvæða frelsið gengur síðan út frá því að ytri öfl eigi að hafa vit fyrir okkur og þvinga okkur til athafna. Samfélög sem leggja of mikla áherslu á hið jákvæða frelsi eru lönd á borð við Norður Kóreu, Íran og sambærileg lönd þar sem regluverk um orð og athafnir er stíft og fylgt eftir með skelfilegum aðferðum. Frá lokum seinni heimstyrjaldar höfum við verið er í þeim hópi landa sem telur að jafnvægið milli þessa sé að mannréttindi séu virt, en jafnframt að við búum við öflugt ríkisvald sem tryggi okkur öflugt velferðakerfi með skattlagningu og tilheyrandi regluverki. Fæstum dettur í hug að kalla skólaskyldu "heilaþvott", "ofbeldi" eða "frelsissviptingu" - þetta er samt sem áður þvinguð framkvæmd og ekki valkvæm. Sú hugmynd að allar okkar athafnir séu valkvæmar gengur líka þvert á þá hugmynd að það sé hlutverk ríkisins að tryggja sem flestum sambærilegt frelsi. Því óheft frelsi til athafna leiðir til þess að hinum sterkasta er einum gefið frelsi. Ágætur heimspekingur sagði frelsi til athafna enda þar sem það skaðar aðra. Lögum er síðan ætlað að halda utan um þann ramma sem við höfum komið okkur saman um. Í því ljósi hef ég ekkert út á það að setja að fólki segi skoðanir sínar. Skoðanaskipti eru jú til þess gerð að við heyrum í öðrum og takist okkur að rýna eitthvað til gagns, þá erum við væntanlega betur sett. Hins vegar tel ég fulla ástæðu til þess að bregðast af fullum þunga við ef einhver gerir sér far um að setja aðra í hættu. Hvort heldur er af vilja eða gáleysi. Þess vegna eru alskonar ákvæði um afhverju fólk getur ekki keyrt eins og því sýnist. Án þess að það sé kallað mannréttindabrot. Eftirlit með umferðalagabrotum er ekki merki um að hér sé fasismi eða einræði. Jafnvel þó það skerði frelsi okkar til þess að keyra eins og fávitar.

Ummæli

Vinsælar færslur